09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

158. mál, skráning skipa

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi ekki margt um þetta frv. að segja, annað en það, að n. vill ekki fyrir sitt leyti standa á móti þeirri breyt., sem þar með er farið fram á að komist á, sem sé að skráning skipanna sé flutt úr stjórnarráðinu og til skipaskoðunarstjóra. En um leið og skráning skipanna er þannig flutt, fylgja henni og skipamælingar. Það er aðalbreytingin, sem farið er fram á, að þetta verði framkvæmt í skrifstofu skipaskoðunarstjóra.

Innan n. eru nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort þetta verði ekki kostnaðarauki, og mér fyrir mitt leyti stóð nokkur stuggur af því, ef hér væri verið að stofna til meiri kostnaðar en verið hefði, og vildi ég ekki ganga inn á neina þá breyt., sem yrði þess valdandi, að neinn verulegur kostnaður hlytist af. Fyrir þetta fór formaður n. til fjmrh. og spurði hann um kostnaðinn og fékk þau svör, að breyt. myndi hafa í för með sér annaðhvort mjög lítinn kostnað eða alls engan. Það getur náttúrlega verið, að ekki hafi allir í n. lagt eins mikla áherzlu á það eins og ég, að ekki yrði stofnað til aukins kostnaðar, en samt sem áður er það vitanlegt, að n. í heild sinni mun ekki hafa viljað, að þetta yrði dýrt skrifstofubákn, fram yfir það, sem nú er.

Með þessum forsendum. frá n., sem lýst er í nál. og lúta að því, að við föllumst á þá breyt. með því fororði, að kostnaðurinn verði annaðhvort sáralítið meiri eða alls ekki meiri, erum við sammála því, að frv. verði samþ.