09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

158. mál, skráning skipa

Pétur Ottesen:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á það að taka skipaskráningu, sem stjórnarráðið hefir haft nú um margt ár, þaðan í burtu og flytja hana yfir í skipaskoðunarstofuna, eða í hendur þess manns, sem veitir henni forstöðu.

Ég sé hér, mér til mikillar undrunar, að eftir því, sem þetta mál horfir við frá mínu sjónarmiði, og eftir því, sem lesa má út úr frv., að í nál. sjútvn. stendur, að þessi breyt. muni ekki hafa í för með sér nema lítinn eða engan kostnað.

Eins og mönnum er kunnugt, hefir þeim manni, sem haft hefir á hendi skipaskoðun hér á landi, verið í fjárl. áætlaðar 8.000 kr. til greiðslu á kostnaði út af skipaskoðuninni. Þessi maður hafði, á tímabili a. m. k., jafnframt á hendi umsjón með varðskipunum og fékk fyrir það nokkuð háa upphæð, eða nokkuð hærra en þetta, þ. e. a. s. 10 þús. kr. Nú, eftir stjórnarskiptin, var eftirlitið með varðskipunum, a. m. k. að nokkru leyti, tekið af honum og falið á hendur öðrum mönnum, en þar með felld niður sú borgun, sem hann fékk fyrir það, og því haldið fram, að við þessa breyt. ynnist allmikið fyrir ríkissjóð. Nú er það svo, að þessar 10 þús. kr., sem talið var að hann fengi fyrir umsjón með varðskipunum, voru að nokkru leyti borgun fyrir skipaskoðunarstarf, að því leyti sem þessar 8.000 kr. hrykkju ekki til, enda kom það brátt í ljós, að þessar 8.000 kr. hrukku ekki til, því að í fjáraukal. fyrir 1928 hafa honum verið greiddar 13 þús. kr. og eitthvað meira fyrir skipaskoðunarstarfið eingöngu. Á síðasta þingi var samþ. að gera þetta að sérstöku starfi, með 5.000 kr. byrjunarlaunum, sem hækka upp í 6.000 kr. Til viðbótar við þetta átti svo að greiða dýrtíðaruppbót á þessi laun.

Nú er mér kunnugt um það, að stj. hefir samið svo við þennan mann, að hann fái þegar greitt hámark þessara launa, og nýtur hann þá þess, að hann hefir lengi haft þetta starf með höndum, svo að laun hans eru nú 7.800 kr. Ennfremur átti hann að fá skrifstofukostnað eftir reikningi og sömuleiðis ferðakostnað, eftir því sem starf hans útheimti.

Nú lá hér fyrir fjvn. Nd. skýrsla um nauðsynlegan kostnað við skrifstofuhald og ferðakostnað, sem myndi verða fullar 8.000 kr. Það kom til umr., og ætla ég, að það hafi frekar fallið niður af vangá en að það væri meiningin, að fjvn. tæki ekki upp till., eða a. m. k. að nokkru leyti, um hækkun á þessum lið. Hv. Ed. hefir nú tekið þetta upp, en launin eru þar einu þús. kr. of lág og skrifstofukostnaðurinn mun vera fullum þrem þús. kr. lægri en það, sem líkindi eru til, að greitt verði.

Þessi borgun eða kostnaður við þetta embætti er eingöngu miðaður við starf og greiðslu fyrir skipaskoðun, en það felst ekkert í honum fyrir hin auknu störf, sem hér er ætlazt til, að skipaskoðunarstjóri taki við af stjórnarráðinu. Þess vegna leiðir það alveg af sjálfu sér, að sá kostnaður, sem leiðir af þessu, er vitanlega aukin útgjöld á þessu sviði,

enda kemur það greinilega fram hér, þar sem svo stendur í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Skal í því skyni sett á stofn sérstök deild við skipaskoðunarstofuna, sem nefnist skráningarstofa ríkisins“.

Það er m. ö. o., að þarna á að setja upp sérstaka deild, sem eftir því, sem ég hefi talað við forstjóra skipaskoðunarstofunnar, mun mjög bráðlega taka upp störf eins manns, auk þess sem hér af mun leiða aukinn skrifstofukostnað að öðru leyti, og þess utan aukinn ferðakostnað. Það hlýtur þess vegna algerlega að vera út í bláinn sagt, að af þessari breyt. muni ekki leiða aukinn kostnað, og ég er alveg hissa á því, að sjútvn. skuli hafa flaskað svo á þessu máli að gera að sínum orðum þau ummæli, að af þessu muni ekki leiða neinn aukinn kostnað.

Það er nú um þessi störf, skipaskráningu, að segja, að þau voru áður unnin með þeim starfskröftum, sem fyrir voru í stjórnarráðinu, án þess að fyrir það væri borgað nokkuð sérstaklega. Hinsvegar sést það á landsreikningnum 1928, að það hefir verið tekið upp að borga nokkuð aukalega fyrir þessi störf í stjórnarráðinu, en hver nauðsyn hafi borið til þess, skal ég ekki dæma um. Það er sem sé alkunnugt, að farið hefir verið að hefja aukagreiðslur til manna fyrir ýms störf, sem áður var ekki borgað fyrir sérstaklega. Hvort þetta liggur í sérstaklega auknum störfum eða þeirri stefnu í aukagreiðslum, sem upp hefir verið tekin síðustu árin, eða hvað vegur mest í þessu efni, skal ég ekki dóm á leggja, en hitt leiðir af sjálfu sér, að með þessari tilfærslu er verið að stofna alveg sérstaka deild við skipaskoðunarstofuna, sem vitanlega hefir í för með sér allmikinn aukinn kostnað.

Að hve miklu leyti það er óhjákvæmilegt að taka þessi störf af stjórnarráðinu, segir n. ekkert um í nál. sínu, og virðist ekki hafa aflað sér neinna upplýsinga í því efni; a. m. k. liggur engin rannsókn fyrir d. um það. Ég býst samt við, að það verði ofan á hér að gera þetta, en hinsvegar þarf enginn að ganga þess dulinn, hvorki sjútvn. eða aðrir, að þetta hefir í för með sér aukinn kostnað. Þarna er verið að létta af störfum, sem áður hafa verið unnin af starfsmönnum stjórnarráðsins, og mynda nýja stöðu. Það eru þess vegna fullar horfur á því núna, að kostnaðurinn við skipaskoðunarstofuna, án þess að nokkuð tillit sé tekið til þess að hann verður a. m. k. nokkuð á 17. þús. kr., hlýtur vitanlega að aukast mikið við þessa breyt.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, og á meðan ekki eru færðar frekari ástæður fyrir þessari breyt. heldur en liggur í þessari grg., mun ég ekki sjá ástæðu til að greiða atkv. með þessu frv. Og ef fylgi sjútvn. við frv. byggist eingöngu á því, eins og hv. frsm. lýsti yfir, að þetta muni ekki hafa aukinn kostnað í för með sér, þá ætla ég, að hv. n. fari þar allmjög vill vegar, og mun það sannast á sínum tíma.