09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

158. mál, skráning skipa

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er út af ummælum hv. þm. Borgf., sem ég vildi segja nokkur orð sem einn nm.

Ég skal ekki fara út í þá hlið málsins, sem viðkemur skipaskoðun almennt, en víkja að þeirri hætta, sem þetta frv. muni hafa í för með sér um aukinn kostnað.

Það má hér af ástæðunum fyrir þessu frv. sjá nokkuð ljóslega, á hverju það er byggt, og hv. Ed. hefir komizt að sömu niðurstöðu og sjútvn. Nd., að hér sé um það að ræða, sem í raun og veru sé ekkert annað, eftir eðli málsins, en miklu réttara að koma þannig fyrir. Mér er kunnugt um það, að hér á Norðurlöndum er skráning skipa sett í samband við skipaeftirlit. Þykir miklu þægilegra að koma því svo fyrir, að sá, sem hefir skipaeftirlitið með höndum, hafi einnig þetta; en það er nú svo, að skráning skipa út af fyrir sig er ekki þýðingarlaust atriði, það hefir margvíslega þýðingu, og að skrá íslenzka skipastólsins sé í lagi á hverjum tíma, verður að teljast mjög nauðsynlegt, en það er upplýst í grg. frv., að það sé misbrestur á því, að þessi skrá hafi verið í því lagi, sem hafi átt að vera. Þess vegna er farið fram á, að þetta sé látið heyra undir skipaeftirlitið, enda mun sú reynslan verða hér sem annarsstaðar, að þetta fari mjög vel saman.

Hv. þm. Borgf. vill gera mjög mikið úr kostnaðinum. Þegar þetta frv. lá fyrir sjútvn., lenti það á mér og form. n. að útvega upplýsingar um væntanlegan kostnað. Við snérum okkur í því efni til fjmrh. og skipaskoðunarmanns ríkisins. Hinn síðarnefndi sagði mér, að kostnaðurinn, sem af því kynni að leiða, myndi kannske aðeins verða sá, að það þyrfti einu herbergi fleira á skipaskoðunarstofunni, því að það mundi flytjast svo mikið af plöggum þangað úr stjórnarráðinu, en pláss ekki meira þar en stofan sjálf þyrfti að hafa og nota. Um það skrifstofustarf, sem mundi verða aukið við, skýrði hann svo frá, og það bar honum saman um við fjmrh., að það myndi ekki verða meira en svo, að menn munu hugsa sér, að sá maður, sem aðallega hefir unnið að þessu í stjórnarráðinu, vinni þar nokkra tíma á dag, svo að það bætist lítið á skipaskoðunarstofuna við þetta. Um aukinn kostnað af ferðalögum er það að segja, að skipaskoðunarmanni er ætlað samkv. sínu embætti að ferðast í þágu þess um landið, og gæti hann þá unnið að þessu um leið, þegar hann er á eftirlitsferðum hvort sem er. Gæti hann þá hitt lögreglustjórana um leið og athugað þær breyt., sem hefðu orðið hjá þeim, svo að það getur ekki komið til mála, að aukinn kostnaður verði af ferðalögum út af fyrir sig. En ég held helzt, að sjútvn. hafi verið á þeirri skoðun, að ef þetta mætti verða til þess, að það kæmist betra lag á þetta, þá væri rétt að fallast. á frv. eins og það liggur fyrir, því að breyt. er ekki önnur en þessi, að færa starfið á aðra skrifstofu, og ég hygg, að það myndi fást gleggri skýrsla og fljótari um allar breyt. á skráningu skipa með þessu lagi.

Ég vildi taka það fram hvað mig snerti, að jafnvel þótt eitthvað svolítið meiri kostnaður yrði við breytinguna, þá myndi ég ekki horfa svo mjög í það, því að þessi skráning er svo merkilegt atriði fyrir sig, að nauðsynlegt er, að hún sé í fyllsta lagi. Hjá hinum Norðurlandaþjóðunum er árlega gefin út skrá yfir skip, sem þar eiga heima, skrá, sem má reiða sig á, en sá ljóður hefir verið á okkar skipaskrá, að í henni eru talin skip, sem fyrir löngu eru úr sögunni. Vonandi lagast þetta með þessari ráðabreytni; og hygg ég, að engin ástæða sé til að óttast svo mjög þann kostnað, sem af frv. muni leiða; að menn verði á móti því fyrir þær sakir.