09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

158. mál, skráning skipa

Pétur Ottesen:

Ég þarf ekki að bæta við það, sem hv. 1. þm. Skagf. svaraði hv. 4. þm. Reykv. En það er út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um það, að ekki mundi leiða aukinn kostnað af þessu, að ég vildi geta þess, að ég var af n. hendi sendur til þessa manns, til þess að ræða við hann um þær kröfur, sem hann gerði til aukins skrifstofukostnaðar.

Þá útlistaði hann það greinilega fyrir mér, að miðað við skipaskoðunina eina gæti hann ekki komizt af með minna en 8.000 kr. til skrifstofuhalds og ferðakostnaðar, og því er mér það óskiljanlegt, hvernig hann ætti að geta bætt við sig ennþá meira starfi án þess að fá ríflegri laun.

Í dag átti ég líka tal um þetta við skipaskoðunarmanninn, og hann sagði mér þá, að hann myndi verða að bæta einum manni við hjá sér til að standa fyrir einni deildinni, nefnilega skrásetningardeildinni, sem lög gera ráð fyrir. Í frv. er líka gert ráð fyrir, að frekari aðstoðar muni við þurfa, og á þá að greiða fyrir hana af skrifstofukostnaðinum, en hann verður auðvitað því hærri, sem frekari aðstoð þarf til að leysa þessi verk af hendi. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, verður þá að bæta hér einum manni við. Auk þessa hefir hv. 4. þm. Reykv. upplýst það í málinu, að skrifstofan myndi verða að auka við sig húsnæði, og hefir það auðvitað aukinn kostnað í för með sér. En þetta er vanaviðkvæðið, að þegar þess er farið á leit hér í hv. Alþingi að stofna nýjar stöður, þá er alltaf sagt, að enginn nýr kostnaður muni af því hljótast, en svo er það auðvitað reynslan, sem sýnir allt annað. Úr því að stjórnarráðið hefir hingað til getað haft þetta starf með höndum, þá má ætla, að það geti það enn um hríð, og er þá með þessu verið að stofna til óþarfa kostnaðar, sem vel mætti komast hjá. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en þar sem hér er verið að stofna til óþarfa útgjalda, get ég ekki greitt frv. þessu atkv. mitt.