09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

158. mál, skráning skipa

Magnús Guðmundsson:

Ég vildi aðeins taka það fram, að ég sagði ekki, að sýslumenn vanræktu. störf sín, eins og mér skildist á ræðu hv. 4. þm. Reykv., heldur sagði ég, að ef um vanrækslu væri að ræða frá þeirra hálfu, þá mætti laga það með öðru móti en að senda mann á fund þeirra. Það mætti t. d. skrifa eða síma til þeirra. Hitt virðist mér algerlega þarflaus kostnaður, sem engin ástæða er að stofna til.

Hinsvegar skal ég taka þau orð hv. 4. þm. Reykv. trúanleg, að nú muni greitt fyrir þetta sem aukastarf í stjórnarráðinu, en þótt þessi breyt. yrði gerð, væri hér aðeins um óþarfa flutning milli skrifstofa að ræða, sem hefði dálítið aukinn kostnað í för með sér hvað húsnæði snertir. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn þessu máli.