01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

34. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Halldór Steinsson):

Ég hafði búizt við að þurfa ekki að flytja frv. um þetta efni á þessu þingi; hafði gert ráð fyrir, að ríkisstj. myndi taka af mér ómakið með það, og taldi henni það yfirleitt skyldara en hverjum einstökum þm.

Á hverju einasta þingi síðustu 10–12 árin hefir verið rætt mjög mikið um landhelgisvarnirnar, og á síðustu þingum verið ríkjandi skoðun innan allra flokka, að þinginu bæri að auka og efla landhelgisvörzluna, til þess að vernda smábátaútveginn gegn yfirgangi erlendra og innlendra togara. Til sönnunar því, að þessi skoðun hafi verið ríkjandi á undanförnum þingum, má minna á það, að á þinginu 1928 var flutt frv., og samþ. svo að segja í e. hlj., þess efnis, að byggja nýtt strandvarnaskip. Þetta skip er þegar komið og tekið til starfa. Á ég þar við varðskipið Ægi.

Í umr. á þinginu 1928 kom það ljóst fram, að þótt skipin yrðu þrjú, töldu menn, að strandvarnirnar myndu þrátt fyrir það alls ekki verða fullnægjandi og síðar þyrfti að bæta enn meira við varðskipaflotann. Reynslan þennan stutta tíma, sem varðskipin hafa verið þrjú, hefir líka sýnt það, að vörnin hefir alls ekki verið fullnægjandi. Hafa víða heyrzt raddir um það, en af því að ég er ekki nægilega kunnugur víðsvegar um landið, skal ég ekki leggja fullnaðardóm á það, hvort allar þær raddir eru á fullum rökum byggðar. En ég get fullyrt það, að í mínu kjördæmi, þar sem ég þekki bezt til, hefir gæzlan verið í mesta ólagi, a. m. k. þann tíma, sem hennar þurfti helzt við. Það má segja, að það kvæði lítið að yfirgangi togaranna síðastl. haust, en þegar kom fram undir jól, brá svo við, að frá þeim tíma og næstum því fram á þennan dag má segja, að fleiri og færri togarar hafa verið í landhelgi daglega fram undan Snæfellsnesi. Þeir hafa auðvitað skroppið frá dag og dag, helzt þegar þeir vissu um ferðir varðskipsins þangað vestur eftir, því að vitanlega fara þeir nær um, hvar varðskipin halda sér á hverjum tíma, eða þegar þeir þurftu að bregða sér frá til þess að fara á erlendan markað með ránsfeng sinn.

Þetta ástand er algerlega óþolandi, og þrátt fyrir það, þótt ítrekaðar kvartanir og beiðnir hafi verið sendar til ríkisstj. um auknar varnir, og þrátt fyrir það, þótt síðasta þing samþ. þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj. að halda úti sérstökum bát á þessum slóðum haust- og vetrarmánuðina, þá hefir fram að þessu verið gert mjög lítið, að öðru leyti en því, að nú fyrir rúmri viku, þegar allt ætlaði að keyra fram úr hófi og símað var, að milli tíu og tuttugu togarar væru daglega fram undan Snæfellsnesi, þá gaf stj. leyfi til, að fenginn væri bátur til strandvarna þar um óákveðinn tíma: Er mér ekkert kunnugt um, hve lengi stj. ætlar að hafa hann, en þótt allmikil vörn sé að 10–12 lesta bát, er þó langt frá því, að slíkt sé fullnægjandi vörn. Bátur af þeirri stærð getur alls ekki haldið sér úti í þeim veðrum, sem togarar eiga hægt með að toga í í landhelgi. Því til sönnunar má minna á það, að eina nótt, þegar báturinn varð að liggja inni á Grundarfirði sökum óveðurs, þá sömu nótt toguðu botnvörpuskipin innan landhelgi í ró og næði.

Ég hefi bent á það áður hér á þingi, að ef gæzlan á að vera sæmilega stunduð hér á þessum stöðum, þá veitir ekki af að hafa sérstakan bát til gæzlu þar. Auðvitað gæti það bætt mikið úr skák, ef eitthvert varðskip hefði tækifæri til að skreppa þangað vestur t. d. aðrahverja nótt, en ef það væri gert, þá yrði það að fara fram með meiri leynd en venjulegt er um ferðir varðskipanna, því eins og ég gat um áðan, er togurunum ótrúlega vel kunnugt um það, hvar varðskipin halda sig á hverjum tíma.

Það liggur nú í hlutarins eðli, og maður getur alveg sagt sér það fyrirfram, að með einu eða tveimur skipum er ómögulegt að annast alla landhelgisgæzlu sæmilega, og það þótt skipin séu eingöngu notuð til þess starfa; en því miður hefir í seinni tíð orðið nokkur misbrestur á þessu, og hygg ég, að mér sé óhætt að segja það, að það sé talsverð óánægja víðsvegar á landinu yfir hinum mörgu ferðum varðskipanna í aðrar þarfir. En það er alveg sama, þótt skipunum væri á allan hátt stjórnað eins haganlega og hægt væri og eingöngu notuð til landhelgisvarna, það væri þó, á meðan þau eru ekki fleiri, ófullnægjandi.

Á þinginu 1928 töldu menn, að þrjú skip til landhelgisvarna væri það allra minnsta, sem hægt væri að komast af með. Nú hefir, eins og kunnugt er, svo slysalega til viljað, að Þór hefir strandað og helzt úr þessari strandvarnarlest, svo að nú eru skipin ekki nema tvö, og sem stendur ekki nema eitt, síðan Ægir fór til útlanda. Við erum þannig komnir tvö ár aftur í tímann í þessu landhelgismáli, eða við stöndum á sama stað og árið 1928, að öðru leyti en því, að Þór var ekki eins fullkomið skip og hvort hinna, Óðinn og Ægir, og á meðan Ægir er erlendis og Óðinn einn til varnar, má segja, að landhelgin sé varnarlítil, að ég ekki segi varnarlaus.

Eins og ég hefi tekið fram í ástæðunum fyrir þessu frv., er hér tilfinnanleg þörf á að rannsaka bæði fiskimið og fiskigöngur meðfram landinu. Slíkar rannsóknir hafa mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn. Ég fæ ekki annað séð en að varðskipin ættu að geta haft þessar rannsóknir með höndum, og þá einna helzt þetta skip, sem hér er farið fram á að byggja. Ef byggingin væri samþ. með tilliti til þess, þyrfti nokkur aukatæki, sem þá væri eðlilegt að setja í skipið um leið og það væri keypt eða byggt. Ég gæti svo hugsað mér, að þessum fiskirannsóknum mætti haga þannig, að þær færu fram þrem til fjórum sinnum á ári og stæðu yfir 1–2 vikur í hvert skipti; mætti sjálfsagt haga þeim svo, að þær þyrftu ekki að koma í bág við landhelgisgæzluna.

Þá er kostnaðarhliðin. Eins og ég hefi tekið fram í grg. frv., geri ég ráð fyrir, að þetta skip þyrfti alls ekki að vera eins dýrt og hin, gæti verið miklum mun ódýrara en Ægir. Ég hefi átt tal við marga sjómenn, bæði á togurum og öðrum skipum, og hefi sannfærzt um það, að hæfilegt skip má fá á stærð við lítinn togara, rúmlega 200 smál. skip, með góðum útbúnaði og sæmilegum hraða, fyrir svona þrjú til fjögur hundruð þús. kr., og það þótt talin séu með þessi mælitæki til fiskirannsókna, sem ég gat um áður og sem ekki myndu hleypa verðinu mikið fram. Landhelgissjóður var í ársbyrjun 1929 1.331 þús. kr. fyrir utan skipaeignir, eða 2.284 þús. kr. með skipum, og hafði þá verið eytt úr honum 338 þús. kr. upp í byggingarkostnað Ægis. Síðan hefir verið borgað úr honum það, sem eftir stóð af verði Ægis, eða 600–700 þús. kr. Sjóðurinn hefir því verið um kr. 700.000, þegar sú útborgun var um garð gengin. En þegar svo bætast við sjóðinn vextir, framlag ríkissjóðs og landhelgissektir fyrir árið 1929, má gera ráð fyrir, að hann um síðastl. áramót hafi verið eitthvað á aðra millj., ein millj. og 100–200 þús. kr. Ég hefi ekki getað fengið þetta nákvæmlega gefið upp í stjórnarráðinu, en þessar tölur, sem ég nú nefndi, munu fara mjög nálægt sanni.

Frá því sjónarmiði, hvernig hagur ríkissjóðs stendur, virðist því ekkert því til fyrirstöðu að sinna þessu frv. og ráðast í að kaupa eða byggja nýtt skip; en hér kemur fleira til greina, fleira en stofnkostnaðurinn. Eins og kunnugt er, hefir rekstur varðskipanna verið mjög dýr, og má búast við, að hann verði talsvert dýrari í framtíðinni, og þótt það að vísu sé svo, að varðskipin skili allmiklum sektum í landhelgissjóð, sem má segja, að komi upp í kostnaðinn við gæzluna, þá má ganga að því sem gefnu, að sektirnar muni standa í öfugu hlutfalli við fjölgun skipanna, m. ö. o., því fleiri skip, því minni sektir, svo að það má alltaf búast við, að ríkissjóður verði að leggja fram meira og minna til gæzlunnar auk þeirra sekta, sem koma inn fyrir ólöglegar veiðar. En það er svo margt í okkar þjóðlífi, sem við verðum að verja til stórum fjárupphæðum án þess að það gefi strax beinan ágóða; við verjum t. d. milljónum króna til brúa- og vegagerða, án þess að slíkar framkvæmdir gefi strax nokkurn beinan arð í ríkissjóð. Síðan við tókum að okkur strandferðirnar, hefir ár eftir ár orðið mikill halli á þeim, en þrátt fyrir það dettur þó engum í hug að leggja þær niður eða stöðva vega- og brúagerð landsins. Og af hverju? Af því, að ef ekki á að verða kyrrstaða í landinu, verður að halda áfram að auka allar samgöngur, bæði á sjó og landi. Og eins er það með landhelgisvarnirnar. Þær gefa engan beinan arð, því að sektirnar verða minni þegar frá líður, en þær gefa óbeinan arð; það er ekki hægt að telja fram í tölum, hve mikill arður sé af góðum landhelgisvörnum, en ég þykist ekki taka of djúpt í árinni, þótt ég segi, að hann muni skipta milljónum.

Ég vona, að hv. þm. taki vel í þetta mál, eins og þeir gerðu á þinginu 1928. Það er þörf fyrir aukna landhelgisgæzlu nú, engu minni en þá var, og hagur ríkissjóðs sízt lakari nú en hann var þá.