01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

34. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég álít það mjög gott, að þetta frv. hefir komið fram, eða þessi hugmynd, sem er falin í frv., af því að það eru sjálfsagt allmargir menn í landinu, sem álíta, að það geti komið til mála að byggja eða kaupa þriðja strandvarnaskipið. En ég er ekki alveg viss um það, ef hv. þm. Snæf. ætti, eins og vel getur verið, eftir að sitja á mjög mörgum þingum, og ef t. d. kæmi fram á öðruhverju þingi frv. til l. um nýja skipsbyggingu, að honum gengi alveg eins vel eins og árið 1928 að fá hana samþykkta. Það getur m. a. verið af því, að það geta verið misjafnlega sterkar ástæður fyrir því, að málið gangi fram.

Ég ætla að gera fáeinar aths. við ræðu hv. þm., en eiginlega byrja þó fyrst á því, sem er aðalatriði málsins, að þetta mál er miklu flóknara orðið fjárhagslega en það var áður.

Meðan ekki var nema eitt varðskip eins og Óðinn, sem var fljótara en venjulegur togari, voru ástæðurnar þannig, að það gat ekkert nema fátæktin ein valdið því, að varðskipastóllinn var ekki aukinn. En þegar skipin eru nú orðin tvö og bæði af fullkomnustu gerð, þá er ég ekki viss um það fyrirfram, hvort Alþingi telur sér fært að ráðast í byggingu nýs skips strax, eða telur hitt réttara, að láta það bíða.

Hv. flm. veit vel, að kostnaður við rekstur skipanna tveggja verður yfir ½ millj. kr. á ári. Það er að vísu hugsanlegt, að Ægir verði um 25 þús. kr. ódýrari í rekstri yfir árið en Óðinn, vegna þess að hann brennir olíu, en stofnkostnaður hans er líka meiri. Nú lítur út fyrir, að Óðinn kosti í rekstri um 280 þús. kr. á ári, og ef Ægir kostar 250 þús. kr., þá er það yfir hálfa millj. kr. á ári fyrir bæði skipin. Þótt þriðja skipið, ef byggt verður, væri haft nokkru minna, þá munar það ekki svo miklu á rekstrarkostnaðinum. Þór, sem þó var lítið skip, kostaði í rekstri um 200 þús. kr. Stofnkostnaður er því í raun og veru minnsta atriðið. Þór var t. d. keyptur á 80 þús. kr. og að auki dálítið gert við hann. Hann var svo vátryggður fyrir 120 þús. En í rekstri kostaði hann árlega nálægt tvöfalda þá upphæð, sem í hann var lögð, er ríkissjóður eignaðist hann. Þegar því um byggingu nýs skips er að ræða, er það vissulega rekstrarkostnaðurinn, sem er aðalatriðið. Ég hefði haft hinar beztu vonir um framgang þessa máls, ef ekki hefði verið um annað né meira að ræða en að byggja skip, sem svo hefði borið sig fjárhagslega séð, enda þótt það kostaði 300–400 þús. kr. En þegar gera má ráð fyrir árlegum rekstrarkostnaði eins og að framan getur, þá er skylt að athuga málið rækilega, áður en ákvörðun er tekin.

Ég held, að hv. flm. gleymi því nú, að ein af aðalástæðunum fyrir því, að Ægir var byggður, var sú, að skipstjórinn á Þór, Friðrik Ólafsson, skrifaði stj. seint á árinu 1927, að mig minnir, og skýrði frá því, að hann hefði margsinnis misst seka togara, af því Þór var ekki nógu hraðskreiður, og fór fram á, að byggt yrði hraðskreiðara skip. Þetta var ekki sízt ástæðan til þess, að frv. hv. þm. Snæf. fékk svo góðar undirtektir á þinginu 1928 og málið gekk þá fram. Á sama þingi vissi ég, að það var vilji sumra þm., að Þór yrði seldur, þegar búið væri að byggja Ægi. Þeir töldu naumast fært að rísa undir þeim kostnaði að halda úti þremur varðskiptim. Mitt álit á því var, að rétt væri að eiga Þór og halda honum úti yfir vetrarvertíðina a. m. k. sem bæði varnar- og björgunarskipi. Yfir sumartímann var svo Þór notaður sem rannsóknarskip, sem eins og hv. flm. tók réttilega fram, er eitt af því, sem þarf að gera. En þótt nú yrði farið að till. hv. flm. og nýtt skip byggt, þá hygg ég, að ef það skip á aðallega að verja Faxaflóa og Vesturland, sem mér virðast kröfur hv. flm. aðallega miðast við, þá kæmu fljótlega kröfur um samskonar skip frá öðrum landshlutum. Nú liggur t. d. krafa frá Vestmannaeyjum fyrir Nd. Þeim þykir vitaskipið ekki nógu stórt og vilja helzt losna við það. Þá verður vitanlega krafan sú, að eitt skip verði líka byggt fyrir Vestmannaeyjar, því ekki er hægt að nota sama skipið á báðum stöðum yfir vetrarmánuðina, eða á sama tíma yfirleitt. Sú krafa virtist koma fram hjá hv. flm., að Óðinn lægi jafnan við Öndverðanes, eins og hin, að Ægir geti jafnan verið til taks að verja net Vestmannaeyinga. Slíka bita er ekki hægt að rétta að landsins börnum yfirleitt. En víða þarf að verja og þingið verður að vera sá húsbóndi, sem skiptir hjálpinni og lætur hana í té eftir því, sem geta þjóðarinnar leyfir á hverjum tíma.

Ýmislegt var það í ræðu hv. flm., sem bendir á, að hann sækir þetta mál af meira kappi en sanngirni. Hv. flm. hélt því t. d. fram, að strandgæzlan væri ónóg. Þetta er vitanlega hægt að segja. Og ég vil benda hv. þm. á, að svo verður jafnan meðan það fyrirkomulag er á, að Alþingi leyfir það, að hægt sé með skeytasendingum úr landi að aðvara sökudólgana. Menn sem hv. flm., er hafa áhuga fyrir landhelgisgæzlunni, ættu sannarlega að beita áhrifum sínum í þá átt, að fyrirbyggja slíkt. Hingað til hafa útgerðarmennirnir og aðrir flokksmenn hv. flm. beitt áhrifum sínum hér á þinginu til þess að koma allri slíkri málaleitun fyrir kattarnef. Til þess hafa þeir beitt frekju og ósanngirni. En það er ekki víst, að landsmönnum þeim, er fyrir utan útgerð standa, finnist til um það, að gerðar séu sífelldar kröfur um bygging nýrra varðskipa, meðan sú ódýra og sjálfsagða leið er ekki farin, að fyrirbyggja það, að lögin séu brotin fyrir tilstyrk loftskeytanna.

Þegar nú bætt hefir verið úr brýnustu þörfinni — ég játa, að, ekki hefir verið bætt úr fyllstu þörfum —, þá finnst mér sannarlega vera tími kominn til að athuga, hvað hægt er að gera til hindrunar því, að hægt sé með loftskeytum að leiðbeina togurunum í landhelgi. Þar sem þó mest kenndi kapps hjá hv. flm. og meira en forsjár, var lýsing sú, er hann gaf á landhelgisgæzlunni árið sem leið. Hv. flm. lýsti henni svo, að hún hefði verið mjög léleg. En hann veit það vel sjálfur, að sú lýsing hans er ekki rétt. Hinir leiðandi menn Ólafsvíkur hafa staðið í beinu sambandi við mig um landhelgisgæzluna, og sumir þeirra hafa sagt, að í manna minnum hafi ekki ágangur botnvörpunga þar verið jafnlítill og síðastl. ár, eða meðan skipin voru tvö. En þegar skipum fækkaði, þá jókst ásælni togaranna, eftir því sem oddvitinn í Ólafsvík hefir tjáð mér. Ægir varð þá líka að fara til útlanda til þess að láta fram fara samningsbundna vélskoðun, er framkvæmast átti eftir 6 mánaða notkun. Til þess að sýna ósanngirni hv. flm., vil ég geta þess, að í sama símtalinu, sem oddvitinn í Ólafsvík kvartaði við mig undan ágangi togaranna, gaf ég leyfi til, að notaður yrði sérstakur bátur til að verja landhelgina. Hygg ég, að svo skjót afgreiðsla hafi naumast áður verið gefin, og naumast heldur í tíð stj. þeirrar, er hv. þm. Snæf. studdi, og hefir hann þó víst verið ánægður þá. Til gæzlunnar hefir nú sumpart Þór og sumpart Hermóður verið notaður og yfirleitt verið lögð meiri vinna í varnirnar, sem líka var rétt að gera. Á þeim stutta tíma, sem liðinn er síðan landhelgisgæzlan batnaði, hefir hún einmitt borið mestan árangur í Ólafsvík. Og hv. flm. getur naumast haldizt uppi að koma á Alþingi fram með ósannan fréttaburð um landhelgisgæzluna í Ólafsvík, því nógir aðrir, sem vita hið rétta, eru til frásagnar um það.

Þá lét hv. flm. falla hnútur til núv. stj. fyrir það, að varðskipin væru stundum notuð til annara þarfa fyrir þjóðfélagið en aðalstarfsins, að verja landhelgina. En ég held nú, að hver einasta stj. muni nota þau endrum og eins til annara þarfa. Og sízt hefir fyrrv. stj. gert minna að því en sú, er nú situr. Í tíð fyrrv. stj. var Þór t. d. einu sinni sendur með blaðapakka frá Akureyri til Svalbarðseyrar, og var þá rétt strandaður þar. Þegar hv. 3. landsk. var forsrh., lét hann Óðin sækja sig og núv. forsrh. upp í Borgarnes, er þeir voru að koma frá fundarhöldum í Dalasýslu. Og þótt hv. flm. tæki einhverntíma sæti í stj., þá hygg ég og, að hann mundi gera slíkt líka, enda væri það alveg rétt gert af honum. T. d. hefir það verið algengt fyrr og síðar að flytja sjómenn milli verstöðva á varðskipunum. Það er því bara vitleysa, að ekki megi nota varðskipin til annars en gæzlunnar, þótt hún sé vitanlega aðalatriðið. Enda getur og hvorttveggja oft farið saman. Ég vil t. d. skjóta því til hv. flm., sem er læknir, hvað gera átti í einu tilfelli. Fyrir rúmu ári var símað af lækni á Vesturlandi til stjórnarráðsins. og það beðið að leita úrræða um flutning á sjúklingi, er var svo veikur, að læknir taldi, að hann yrði kafnaður innan 2 sólarhringa, ef hann fengi ekki læknisaðgerð hér í Reykjavík, því engin tæki voru til nauðsynlegrar aðgerðar þar. Ég veit eigi, hvað hv. þm. Snæf. hefði viljað láta gera, en þetta var nú gert. Mér finnst varla sitja á þeim, er fylla flokk þeirra manna, er ekkert eftirlit vilja hafa með loftskeytum til togaranna, að áfellast stj. fyrir slíka notkun varðskipanna.

Þá gleymdi hv. flm. að geta um eitt atriði landhelgisgæzlunnar. Samkv. sambandslögunum frá 1918 hafa Íslendingar rétt til að hafa varðskip frá Dönum í 10 mánuði hvers árs, endurgjaldslaust. Því hefir nú að vísu verið haldið fram, að þetta kæmi ekki, að miklu gagni. En það er þó það, sem það er, og því fylgir enginn kostnaður fyrir okkur. Ég man eftir því 1928, að þá var formaður danska varðskipsins einkum „kritiseraður“ fyrir ónytjungsskap. Það mun að vísu vera rétt, að hann tók þá enga togara, en hann fór iðulega ferðir milli Reykjavíkur og Öndverðaness og bægði togurum frá landhelginni.

Eins og nú stendur hefir landið því tvö góð skip til gæzlunnar, og auk þess danska skipið í 10 mánuði. Spurningin er því bara sú, hvort Alþingi treystir sér til að standa undir rekstri fjórða skipsins.

Ég vil undirstrika það enn betur en hv. flm. gerði, að því betri, sem landhelgisgæzlan verður, því minni verða sektirnar. Þannig munu 1928 hafa verið teknir um 30 togarar, en 1929 aðeins 10. Og síðari helming ársins, eftir að Ægir bættist við, tók Óðinn aðeins 2–3 togara. Það er því mikil ástæða til að ætla, að með þeim þremur skipum, sem væntanlega verja landhelgina næsta ár, Óðni, Ægi og Fyllu, sem er vitanlega heldur óheppilegt skip, vegna þess hve langt hún þekkist að, þá verði lítið tekið af togurum næsta ár, blátt áfram af því, að það er orðin of mikil áhætta fyrir togarana að fara í landhelgina. Gæzlan er einmitt orðin svo góð. Einkum mundi það fara svo, ef hægt væri að koma á góðu eftirliti með togaraskeytunum.

Ég heyrði ekki hv. flm. tilnefna neina nefnd. En ég tel sjálfsagt, að þetta frv. gangi til sjútvn. Ég fyrir mitt leyti skal hjálpa til að útvega n. þær upplýsingar, sem fáanlegar eru, enda þótt ég sé ekki sannfærður um, að rétt sé að ráðast í þetta nú þegar. Má vera, að annað verði ofan á, þegar sjútvn. hefir rannsakað málið til hlítar.