01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

34. mál, landhelgisgæsla

Jón Þorláksson:

Ég hefði ekki farið að blanda mér inn í þessar umr., ef hæstv. dómsmrh. hefði ekki gefið beint tilefni til þess með þeim ummælum, sem hann hafði um notkun varðskipanna til annars en landhelgisgæzlu. Hæstv. ráðh. rauk upp á nef sér af litlu tilefni, að mér fannst, og sagði, að fyrrv. stj. hefði engu síður en núv. stj. notað varðskipin til annars en landhelgisgæzlu, enda kæmist engin stj. hjá því.

Það er auðvitað rétt, að það kemst engin stjórn hjá því með öllu að nota varðskipin í einstöku tilfellum til annars en landhelgisgæzlu. En það er nú almennt álitið, að núv. stj. hafi farið fram úr öllu hófi í slíkri notkun skipanna. Ég hafði hugsað mér að gera þetta að umtalsefni á þessu þingi, og úr því að mér gafst tækifæri til þess að koma inn á það nú, nota ég mér það. Ég hafði hugsað mér, að fá mætti það fram með rannsókn, hvort stj. hefði farið í þessu efni fram úr því, sem venja hefir verið áður, eða þá eins og hæfilegt mætti þykja. Ég hygg, að það mætti framkvæma þessa rannsókn með athugun á dagbókum skipanna, og með því að fá upplýsingar í viðbót hjá skipherrunum og því ráðuneyti, sem skipin heyra undir. Nú geri ég ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til n., og vil ég mælast til þess, að n. athugi það í sambandi við frv., hvort sá orðrómur er á rökum reistur, að núv. stj. hafi notað varðskipin úr hófi fram til annars en strandvarnanna. Vænti ég þess, að hæstv. dómsmrh. hafi ekkert á móti þessu, enda á hann góða vini í sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar.

Það er rétt að fremja slíka rannsókn sem þessa í sambandi við undirbúning þessa frv., því að það hefir áhrif á dóm manna um það, hvort fjölga þurfi varðskipunum, eða hvort skipastóllinn, sem fyrir er, hafi verið notaður um of í aðrar þarfir, og landhelgisgæzlan þannig verði nógu fullkomin, þótt skipunum fækki úr þrem niður í tvö, ef hinni annarlegu notkun þeirra verður stillt í strangara hóf. Ég leyfi mér að beina þessu til hv. form. sjútvn. og vænti þess, að hann taki þessi tilmæli til greina.

Það var annað atriði í ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég verð að svara stuttlega. Hann endurtók nú enn sína gömlu sakargift á mig og mína flokksbræður, um að við stæðum á móti réttmætri skeytaskoðun. Þetta er ekki á hinum minnstu rökum reist, eins og ég hefi oft sýnt fram á áður. Landsstj. hefir í núgildandi l. nægilega heimild til þess að gera ráðstafanir gegn misnotkun loftskeytanna til ólöglegra fiskiveiða. Og það er ekki rétt að blanda mótstöðu minni og minna flokksbræðra gegn ömmufrv. svokallaða saman við mótstöðu gegn eftirliti á þessu sviði. Hér er um gerólíka hluti að ræða. Þetta frv. hæstv. dómsmrh., sem ég nú nefndi, fór í hinum ýmsu ákvæðum sínum svo mjög í bága við almenna réttarmeðvitund, að ég gat ekki aðhyllzt það, enda þótt ég sé með skynsamlegu eftirliti með loftskeytum veiðiskipa, til þess að koma í veg fyrir misnotkun þeirra í þágu ólöglegra fiskiveiða.