01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

34. mál, landhelgisgæsla

Jón Þorláksson:

Ég vissi það ekki, að hinar svokölluðu snattferðir væru eins viðkvæmt kaun á hinum pólitíska líkama hæstv. dómsmrh. og þessi síðasta ræða hans ber vitni um. Mér fannst ég sýna fyllstu sanngirni, þó að ég færi fram á, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, rannsakaði um leið, hvort það ámæli, sem núv. stj. liggur undir, að hún hafi notað varðskipin úr hófi fram til annarlegra þarfa, væri á rökum reist. Mér fannst þetta óaðfinnanlega sanngjörn ósk frá minni hálfu, ekki sízt þar sem sú n., er um þetta á að fjalla, er svo skipuð, að stuðningsmenn hæstv. ráðh. eru þar í meiri hl. Ég vil taka það fram — ég er ekki viss um, að ég hafi tekið það beint fram í fyrri ræðu minni —, að ég ætlast til, að þessi rannsókn nái yfir tímabilið frá 1926–1929, því að ella fengist enginn samanburður um það, hvort núv. stj. hefir farið lengra en áður hefir verið gert í þessu efni.

Út af þessari meinlausu till., sem að vísu er aðeins meinlaus fyrir stj., sem hefir góða samvizku, umhverfðist hæstv. dómsmrh. og fór að blanda inn í þetta ýmsum óviðkomandi atriðum. Ég skil t. d. ekki í öðru en að hægt hefði verið að framkvæma rannsóknina á bankaútibúinu á Seyðisfirði, þó að maðurinn, sem rannsóknina framdi, hefði farið með einhverju öðru skipi en einu af herskipum hæstv. ráðh. Annað eins og þetta kemur auðvitað þessu máli ekkert við. Sama er að segja um sýslumanninn í Barðastrandarsýslu. En hálfhart er það, að sjálfur dómsmrh. skyldi ekki geta farið rétt með þá upphæð, sem hann nefndi í sambandi við þennan sýslumann, einkum þar sem því hefir verið slegið föstu með dómi, að upphæðin hafi verið oftalin um helming. Með þessu er ég ekki að mæla fyrrv. sýslumanni Barðstrendinga bót, en maður ætti að mega gera þær kröfur til hæstv. dómsmrh., að hann kæmi nálægt því rétta, jafnvel þó að hann nefni tölur.

Ég gæti notað mér þetta tilefni af hálfu hæstv. dómsmrh. til þess að sýna, að það hefir farið fyrir ýmsum fleirum eins og fór fyrir sýslumanninum á Patreksfirði. Ég minnist þess t. d., að nokkrum dögum eftir að ég varð ráðh., valt fyrrv. sýslum. úr embætti. Var hann sízt betri en sýslumaðurinn á Patreksfirði, en náðarsól hæstv. dómsmrh. hefir skinið svo blítt á þennan mann — sem er Karl Einarsson —, að hann ekki einungis hefir úrskurðað honum eftirlaun — sem var auðvitað synjað af fyrrv. stj. —, heldur er hann nú líka notaður til þess að dæma um mál borgaranna. Mér finnst ekki vert fyrir stj., sem þannig fer að, að hneykslast ákaflega yfir samskonar embættisafbrotum, sem hún leggur sjálf blessun sína yfir.

Hæstv. dómsmrh. spurði svo, hvernig stæði á því, að sú stj., sem ég átti sæti í, hefði ekki notað heimild þá, sem felst í lögum um eftirlit með loftskeytanotkun. Þessari fyrirspurn er ég vanbúinn að svara, af því að það heyrði ekki undir mig að annast slíkt eftirlit. Ég veit því ekkert um það, hvort þetta eftirlit hefir verið framkvæmt í minni stjórnartíð, en hitt veit ég, að heimildin er til í löggjöfinni. Mætti því spyrja, hvers vegna hæstv. dómsmrh. hafi ekki notað heimildina. Ég fyrir mitt leyti veit ekki til þess, að hann hafi notað hana. Hinsvegar hefir hann þing eftir þing talið eitthvert sitt mesta áhugamál að koma á þessu eftirliti með loftskeytanotkun veiðiskipa, en virðist aldrei muna eftir þeirri heimild, sem um þetta er fólgin í löggjöfinni.

Annars get ég upplýst um það, að erl. veiðiskip, sem útbúin eru með fullkomnum loftskeytum, hafa engu síður ýms ráð til að vita, hvar varðskipin eru, heldur en íslenzku togararnir, og það án þess að senda þurfi þeim símskeyti. Þegar varðskipið hreyfir loftskeytatæki sín, t. d. með því að senda hæstv. dómsmrh. skeyti, þá eru alltaf möguleikar fyrir skip, sem ekki eru langt undan, að vita hvar varðskipið er, einungis með því að hlusta, fyrir nú utan það, að sum skip hafa þau tæki innanborðs, að þau geta beinlínis miðað hvar þetta og þetta skip er statt þá stundina, sem það sendi skeytið. Þess vegna er það í mínum augum alveg ósannað mál, þó að veiðiskip fái vitneskju um, hvar varðskipin haldi sig, að það sé eingöngu fyrir misnotkun loftskeyta frá útgerðarmönnum í landi.

Eins og ég hefi áður sagt, er ég fús að styðja skynsamlega löggjöf um eftirlit með loftskeytanotkun veiðiskipa. Þess vegna er ég með því að nota heimild þá, sem um þetta er í lögum okkar, en vil ekki ljá fylgi mitt til að samþ. ákvæði, sem stríða á móti réttarmeðvitund þjóðarinnar og eru auk þess algerlega þýðingarlaus fyrir efni málsins.