01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

34. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Halldór Steinsson):

Það er algerlega rangt hjá hæstv. dómsmrh., að ég hafi átt nokkurn minnsta þátt í framkomu þessara vantrauststill. Enda ætti að vera vandalaust fyrir hann að afla sér nánari upplýsinga þar um hjá leiguliði hans þar vestra. Eins og ég hefi þegar tekið fram, lét ég till. afskiptalausa á fyrri fundinum, en á síðari fundinum var ég ekki staddur og gat því engin áhrif haft á afgreiðslu málsins.

Annars virðist mér óþarfi af hæstv. ráðh. að vera svo drjúgur yfir landhelgisgæzlunni. Það hefir komið berlega fram á þingmálafundum, bæði í mínu kjördæmi og víðar, að landhelgisgæzlan sé í ólagi og að hana þurfi að bæta. En slík óánægja hefði ekki komið fram, ef hæstv. dómsmrh. hefði gert skyldu sína í þessu efni og hagað vörnunum betur.