15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

34. mál, landhelgisgæsla

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Það er í sjálfu sér fremur lítið, er nefndarhlutunum ber á milli í þessu máli. Ég fæ ekki betur séð en hv. meiri hl. viðurkenni, að þetta nýja skip sé sérstaklega ætlað til annara starfa en landhelgisgæzlu, nefnilega björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar og fiskirannsókna, en með því finnst mér hann kannast við, að allmiklar líkur séu til þess, að hægt sé að verja landhelgina á viðunandi hátt. Ég álít, að ekki sé fengin svo mikil reynsla í þessum efnum, að rétt sé að ákveða með lögum að bæta við nýju skipi, nema fyrst sé vel athugað, hvernig á að haga strandvörnunum í framtíðinni, hvort ekki er hægt á fullnægjandi hátt að verja landhelgina sæmilega með þeim 2 dýru skipum, sem til eru, og e. t. v. einhverju af minni strandvarnarbátum. Og ef, vel er athugað nál. meiri hl. og ræða hv. frsm., finnst mér það benda í þá átt, að hv. meiri hl. kannist að mestu leyti við þessar ástæður mínar.

Hv. frsm. meiri hl. hélt fram, að hvað landhelgisgæzluna snerti ætti eitt við þetta árið og annað hitt. Ég get nú ekki kannast við, að svo sé; það má vera, að hv. frsm. hafi rétt fyrir sér, en ég kem ekki auga á neinar ástæður, sem benda til þess. Vertíðirnar eru að mestu leyti þær sömu, á sama tíma ár eftir ár á hverjum stað.

Nú álíta íbúar sumra landshluta, að þeim kæmi að betri notum að hafa staðbundinn bát til strandvarna þann tíma, sem þeirra er mest þörf, heldur en þó stóru skipin komi þar við og við. Þess vegna getur vel verið, að ráðlegt væri, ef þessi 2 varðskip duga ekki, að auka landhelgisgæzluna á einstökum stöðum með smærri skipum suma tíma ársins. T. d. telja menn, sem kunnugir eru í V.-Ísafjarðarsýslu, að bezta ráðið til að bæta úr landhelgisgæzluþörfinni þar væri að hafa þar staðbundinn varðbát. Og sama má segja um Faxaflóa. Hvað Vestmannaeyjar snertir, þá er vitanlega ekki meiri þörf á landhelgisgæzlu þar sérstaklega heldur en annarsstaðar við suðurströnd landsins. Hitt er annað mál, að björgunarstarfsemi og veiðarfæragæzla er staðbundin við Vestmannaeyjar. Ég ætla ekki neitt út í það mál nú, hvort rétt sé, að ríkið sjái um þá starfsemi. Ég læt það liggja milli hluta; vil aðeins benda á, að þó björgunarstarfsemin sé nauðsynleg við Vestmannaeyjar, þá er hennar víðar mikil þörf. En ef nú gengið er inn á, að ríkið eigi að sjá um veiðarfæragæzlu og björgunarstarfið við Vestmannaeyjar, þá er fyrst að athuga, hvort ekki má leysa það forsvaranlega af hendi á ódýrari hátt heldur en með því að kaupa nýtt og fullkomið varðskip, eða hvort ómögulegt er að komast af með þann skipakost, sem fyrir hendi er, í bráðina. Til veiðarfæragæzlunnar þarf víst ekki stórt skip eða sem hefir sérstakan útbúnað. En til björgunarstarfsins þarf vitanlega skip með björgunartækjum og sem fært er í flestan sjó. Á því er aðallega þörf frá því í janúar og fram í apríl. En á þeim tíma er aftur á móti lítið um þorskveiðar við norður- og austurströndina. Það er ekki fyrr en í marz og apríl, sem fiskur fer að ganga upp að austurströndinni, og ekki er þörf á varðskipi þar á þeim tíma, sem enginn fiskur er.

Mér virðist því ekki fjarstæða að hugsa sér þann möguleika, að það skip, sem sérstaklega hefir á hendi björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar, hafi eftirlit með landhelgisgæzlu við Suðurland samtímis, frá Reykjanesi og austur að Hjörleifshöfða. En það má segja, að samtímis því, að vertíðin byrjar í Vestmannaeyjum — eða máske fyrr — sé vertíð byrjuð á Vestfjörðum. En ég fæ ekki betur séð en að hitt skipið ætti að geta annazt strandgæzluna frá Horni og að Öndverðarnesi, eða jafnvel að nokkru leyti við Faxaflóa. Við verðum sem sé að gæta þess, að við munum tæplega færir um fjárhagslega að koma upp svo miklum varðskipastól, að það sé alveg útilokað, að nokkursstaðar geti komizt togari í landhelgi. Strandlengjan er svo mikil, að við getum aldrei verið öruggir um það. En að hafa sæmilega vörn ætti okkur að vera kleift. Ég er ekki að segja, að ég telji mig hafa sérstakt vit fram yfir aðra á þessum málum. En mér finnst, að það geti verið mikið spursmál, hvort það sé skynsamlegasta ráðið til að koma strandgæzlunni í sem bezt horf, að ákveða nú þegar að kaupa 3. gæzluskipið. Ég held mér verði varla borið á brýn, að tregða mín nú sé sprottin af óheilindum gagnvart málinu. En mér er ljóst, að þegar við höfum komið landhelgisgæzlunni í það horf, að við eigum tvö gæzluskip vel útbúin, þá er ástæða fyrir okkur fjárhagsins vegna að stinga við fæti og athuga, hvort virkilega er nauðsynlegt að bæta við 3. skipinu, sem sennilega mundi auka útgerðarkostnaðinn um allt að 1/3.

Þegar ég kom á þing fyrst, þá man ég eftir, að erfiðlega gekk að fá í gegn, að ríkið tæki að sér „Þór“ til þess að nota við strandgæzlu. Ég var einn af þeim mönnum, sem lagði því máli lið sem ég gat. Síðan hefir viðhorf þingsins breytzt og skilningur þess aukizt á málinu, svo að það hefir fengið inn á að kaupa 2 skip og halda út til landhelgisgæzlu. (JóhJóh: Fyrir fé landhelgissjóðs). Já, það er mikið rétt; landhelgissjóður hefir keypt skipin og ríkissjóður hefir ekki hingað til þurft að kosta útgerðina nema rösklega að hálfu. En þess ber að gæta, að við höfum hingað til ekki haft fleiri en tvö skip samtímis, nema lítinn part af síðasta ári. Og rekstur á „Þór“ geri ég ráð fyrir, að hafi ekki verið öllu dýrari en hann sennilega verður á þessu fyrirhugaða skipi.

Ennfremur er þess að gæta, að annað þetta nýja skip er komið til landsins fyrir aðeins 3 ársfjórðungum. Og svo vildi til, að skipið þurfti að fara út til eftirlits um áramótin og var utan nálega 2 mánuði, að ég hygg. En samtímis féll „Þór“ úr sögunni, svo að við höfum þennan tíma, sem af er þessu ári, ekki notið nema eins skips. Og þess má vænta, að það þurfi ekki að koma fyrir oftar, a. m. k. ekki á svo óhentugum tíma eins og nú að þessu sinni.

Ef að því ráði verður horfið að kaupa nú 3. skipið, þá fæ ég ekki betur séð en að fyllilega megi gera ráð fyrir, að kostnaður við landhelgisgæzluna geti ekki orðið minni en 700–800 þús. kr. á ári. Þegar búið er að taka af landhelgissjóðnum andvirði þessa nýja skips, þá sé ég ekki fram á annað líklegra en framlag úr þeim sjóði til rekstrar skipanna verði miklum mun minna en það hefir verið síðustu árin. Ég tel, að ganga megi út frá, að ríkissjóður þurfi að verja allt að ½ millj. króna árlega til að starfrækja þessi skip. Þetta er auðvitað áætlun, og um hana má deila. En hún er ekkert aðalatriði. Því að ég er alveg sammála hv. meiri hl. um það, að kostnaðinn við landhelgisvarnir fáum við upp borinn, þó ekki beinlínis, þá óbeinlínis. En þrátt fyrir það stendur ekki alveg á sama, hvernig við högum þessari starfsemi. Á því veltur býsna mikið, að hún sé frá upphafi þannig formuð, að ekki sé til hennar eytt fé um skör fram. Og áður en við bætum við skipi, er okkur nauðsynlegt að fá meiri reynslu í þessu máli. Við verðum að gá að því, að við höfum ekki haft tvö góð strandvarnaskip nema aðeins örfáa mánuði. Sú reynsla er of lítil til þess, að hægt sé að ákveða það, að landhelgisgæzlan verði ekki leyst sæmilega af hendi í framtíðinni nema með því að bæta við skipi.

Hvernig sem á málið er litið, verður ekki annað sagt en að Alþingi hafi á síðari árum viðurkennt þörf aukinnar landhelgisgæzlu svo augljóslega, að því verður ekki ámælt, þótt það nú stingi við fæti og athugi, hvort rétt sé að leggja út í frekari skipakaup að svo stöddu.

Að deila um þetta mál öllu lengur virðist mér ekki mikil ástæða til; hver hefir sína skoðun. Það er nú að vísu allrar virðingar vert að játa ekkert tækifæri ónotað til að auka landhelgisgæzluna; en þó get ég ekki að því gert, að mér finnst hv. meiri hl. sækja nokkuð fast að fá það ákveðið nú í lögum, að strandvarnaskipin skuli vera 3. Það þykir mér full ógætilega farið eins og stendur.

Það kemur fram í nál. hv. meiri hl., að það er annað og meira en landhelgisgæzlan, sem fyrir honum vakir. Það eru líka fiskirannsóknir kringum landið. Ég skyldi sízt leggja á móti, að hafinn yrði undirbúningur undir slíkt starf. En ég verð að segja, að mér finnst það mál hafa verið svo lítið hugsað ennþá, að við séum tæplega færir um að kaupa til þess skip án frekari undirbúnings. Enda er heldur ekki víst nema við eigum einhvern skipakost, sem byrja mætti með slíka starfsemi í smáum stíl.

Við erum nú einu sinni bæði smáir og fáir, og við verðum að sníða okkur framfaraspor eftir því. Því er ekki að neita, að við eigum afarmargt ógert, en hitt er líka víst, að við leysum það ekki allt í einu. Og við verðum að starfa með allri gætni; til þess að fá góðan árangur til lengdar.

Af þessum ástæðum öllum álít ég, að við gerum réttast að vísa þessu máli til frekari athugunar. Ég sé ekki, að fyrir liggi önnur leið heppilegri um rannsókn málsins heldur en sú, að hæstv. ríkisstj. hafi hana með höndum í samráði við skipstjórana á varðskipunum, sem ég verð að telja þá menn, sem mesta reynslu hafa í þessu efni. Ég gat ekki talið rétt að leggja til að skipa sérstaka mþn. í þetta mál. Ég held það verði heldur fáir, sem geta greitt úr flokki svarið um þekkingu á þessum málum. Og því held ég, að þótt lauslega sé tekið á þessu í nál. mínu, þá sé þar nefnd heppilegasta leiðin, sem farin verður. Og ég tel, að sú afgreiðsla, sem ég legg til um þetta mál, geti alls ekki varpað steini í götu þeirrar þál., sem samþ. var í hv. Nd., enda hefi ég alls ekki haft það í huga með till. minni.