15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

34. mál, landhelgisgæsla

Frsm. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Það er rétt hjá hv. minni hl., að það þýðir ekki að þrátta lengur um þetta mál. Það er nú svo, að þm. viðurkenna allir nauðsyn fyrir aukna og góða landhelgisgæzlu. Eins og ég tók fram áður, þá er það aðallega kostnaðurinn, sem menn láta vaxa sér í augum. Hv. frsm. minni hl. sagði, að svo liti út, sem meiri hl. ætlaðist ekki til þess, að skipinu yrði ætlað að annast strandgæzluna. Hann vildi láta í veðri vaka, að við ætluðumst til, að skipið yrði aðallega haft til björgunar á vetrarvertíðinni við Vestmannaeyjar. En þetta er ekki rétt. Þótt við ætlumst til, að skipið hafi þetta starf með höndum við Vestmannaeyjar aðeins yfir vetrarvertíðina frá því í janúar og þangað til í apríl, þá liggur það í hlutarins eðli, að skipið getur leyst mikið starf af höndum allan hinn tíma ársins.

Hvað fiskirannsóknir snertir vil ég taka það fram, að fróðir menn í þeim efnum líta svo á, að þetta skip mundi geta annazt þessar rannsóknir án þess, að nokkuð þyrfti að koma í bága við gæzluna. Því hefi ég lagt mikið upp úr því, að jafnhliða gæzlunni gæti skipið haft fiskirannsóknir með höndum.

Annars sagði hv. frsm. minni hl., að það væri varhugavert að leggja út í þessar rannsóknir, því að þetta mál væri svo lítið hugsað. En hvenær eigum við þá að fara að hugsa um þetta mál? Er það svo þýðingarlítið, að ekki sé tími til kominn að fara að hugsa um það? Mér er óhætt að fullyrða, að við erum mjög langt á eftir tímanum hvað þetta atriði snertir, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að við lifum að miklu leyti á fiskiveiðum.

Þá vildi hv. frsm. minni hl. ekki kannast við það, að gæzlan gæti verið breyt. undirorpin. En samkv. okkar reynslu við landhelgisgæzluna hafa komið fram ný og ný svæði við strendur landsins, sem gæta þyrfti annað árið, þótt þess þyrfti ekki hitt árið. Það eru nú ekki ýkjamörg ár síðan togarar fóru að stunda veiðar við landið. Hafa þeir náttúrlega við æfinguna komizt smátt og smátt á ný og ný mið, sem ekki voru áður þekkt. Af því leiðir aftur, að það þarf mismunandi gæzlu á ýmsum stöðum við landið.

Hv. frsm. minni hl. vildi líta svo á, að hægt væri að framkvæma gæzlu og björgunarstarfsemi án þess að nýtt skip bættist við. Ég gat ekki betur heyrt á umr. um þetta mál í hv. Nd. en að þeim skipum, sem við höfum nú, væri talið ófært að annast þetta starf á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum, vegna þess að þau yrðu þá að vera bundin annarsstaðar.

Ef ætti að binda annað skipið við Vestmannaeyjar á vetrarvertíð og láta hitt skipið annast alla aðra gæzlu umhverfis allt landið, þá geta menn nú gert sér í hugarlund, hvað ófullkomin sú gæzla mundi verða. Við höfum líka reynsluna með tvö varðskip í nokkur ár. Þótt Þór hafi verið ófullkomnari en Ægir er nú, þá var hann notaður við Siglufjörð um sumartímann og víðar þann tímann, sem hann var ekki við Vestmannaeyjar. Þessi reynsla með 2 skip hefir reynzt ófullnægjandi, og ég hygg, að það verði ekki hægt að koma þessari vörzlu í æskilegt horf nema því aðeins, að bætt sé við einu skipi.

Það, sem hæstv. fjmrh. fann þessu frv. aðallega til foráttu, var kostnaðurinn, sem af því leiddi. Honum reiknaðist svo til, að með 3. skipinu mundi rekstrarkostnaðurinn komast upp undir 1 millj. króna. Ég held þetta sé fulllangt farið, a. m. k. þegar sektir fyrir ólöglegar veiðar verða dregnar frá, sem alltaf verða nokkrar, því mér dettur ekki í hug að halda, að ekki finnist alltaf einhverjir brotlegir botnvörpungar, þótt eitt skip bættist við. Og þá held ég sé ekki óvarlega áætlað, að kostnaður verði um 400–500 þús. kr. En þetta skiptir ekki ýkjamiklu máli. Ég hefi aldrei borið á móti, að kostnaður við landvarnir væri mikill. En hinu hefi ég haldið fram, og held enn fram, að gagnið, sem af góðum vörnum leiðir, sé svo stórvægilegt, að maður geti ekki sett kostnaðinn fyrir sig. Og hæstv. fjmrh. og hv. frsm. minni hl. gengu alveg framhjá því, sem ég hélt fram í minni fyrri ræðu, að svo framarlega sem kostnaður yrði ofvaxinn ríkissjóði, þá væri eðlilegt, að sjávarútvegurinn bæri hann að meira eða minna leyti. Það hefir ekki verið talið ógerlegt að leggja slík gjöld á sjávarútveginn, jafnvel þótt hann hefði engin not af, svo sem með jarðræktarlögunum. Því fremur má skattleggja útveginn til að greiða kostnað af framkvæmdum, sem honum einum koma við. Ég er sannfærður um, að það verður ekki á neinn hátt tekið illa upp af þeim mönnum, sem standa að þeim útvegi.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þetta mál þyrfti vandlegrar athugunar með, en ég fæ ekki skilið, að hann sjái ekki, að hér er þörf góðrar gæzlu, en því aðeins getur hún orðið fullkomin, að varðskipastóllinn verði aukinn.