12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

34. mál, landhelgisgæsla

Forseti (BSv):

Það er nú orðið áliðið þings, eins og kunnugt er, og verða menn að gæta þess, er farið er fram á að fresta umr. mála, sem ætlazt er þó til, að nái fram að ganga á þessu þingi. Þetta frv. var lagt snemma fram, og er það 34. þskj., sem prentað hefir verið á þessu þingi. En síðan hafa verið prentuð 422 þskj., þangað til nál. hv. meiri hl. er prentað. Hv. minni hl. virðist því hafa haft nógan tíma til þess að átta sig á málinu. Það er rétt athugað hjá hv. þm. Vestm., að það er mjög tvísýnt, að málið nái fram að ganga, ef það verður tekið af dagskrá nú. (MG: Hvenær verður þingi frestað?). Það veit ég ekki, en auðsætt er, að lítið gengur fram af málum úr þessu, ef samtök er ger um það, að þessi hv. deild gleypi fjárl. eins og Ed. þóknast að ganga frá þeim í dag eða kvöld.