12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

34. mál, landhelgisgæsla

Pétur Ottesen:

Ég vil taka í sama streng og hv. þm. Vestm., að ef málið verður tekið út nú, getur það orðið til þess að hefta framgang þess nú. Mér er kunnugt um, að sterkar raddir eru uppi um það að ljúka þingi fyrir páska, svo að ef umr. yrði frestað nú, þarf ekki mikið að koma fyrir til þess, að málið dagi uppi að þessu sinni. Eftir því, sem ég hefi heyrt um ágreininginn milli hv. nefndarhl., þá er ekki um það atriði að ræða, að ekki megi athuga það nú við þessa umr., eða láta það bíða til 3. umr., sem væntanlega verður á mánudag. Virðist því nægur tími fyrir hv. minni hl. að bera fram brtt., ef hann óskar þess. Vænti ég því, að hæstv. forseti láti nú þegar fara fram umr. um málið, svo að henni geti orðið lokið í dag.