12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

34. mál, landhelgisgæsla

Jón Ólafsson:

Þetta er í fyrsta sinn sem maður heyrir bregða fyrir ofurlitlum áhyggjum fyrir því, að þessi útgerð muni á sínum tíma lenda þungt á ríkissjóði. Ég álít, að miklu heppilegra hefði verið, að það hefði komið nokkru fyrr fram, og það áður en farið var að byggja þau tvö skip, sem nú eru til, því að ekki skorti nóg af góðum bendingum, þegar byrjað var á þessu bátalagi, sem að mínu áliti er illa fallið til strandgæzlu. Hefði verið tekin strax sú stefna að byggja skipin með fiskiskipastíl og kraftmeiri vélum, þá hefði verið tekið fyrir þær áhyggjur, sem menn virðast nú hafa af kostnaðinum. Því það er auðvitað, að þegar fram í sækir og skipunum fjölgar, verða tekjurnar minni af þessari útgerð. Þeir munu hætta að sækja inn í landhelgina, sem það hafa gert, enda fækkar þeim nú óðum. En þá kemur í ljós, að þessi skip eru alls óhæf til annara verka en strandgæzlu, og svo e. t. v. til rannsókna.

Þess vegna vil ég benda á, að næsta skip, sem verður smíðað, á einmitt að vera með þeim stíl, að megi nota eitt þeirra eða fleiri til annars, ef landhelgin reynist svo örugg.

En í sambandi við þessar áhyggjur hæstv. dómsmrh. kom það í ljós, sem ekki er vel viðeigandi, þegar talað er um fjármál ríkisins. Ég man, að hér var eitt frv. fyrir þessu þingi, sem stakk mjög í augu mín, því að þegar talað er um að leggja fram fé frá vissri atvinnugrein til að styrkja þá atvinnugrein, þá er öðruvísi með sameiginlegt fé landsmanna farið en ég hefði kosið.

Ég tel ekki rétt að ganga inn á þá braut, að ef eigi t. d. að styrkja landbúnaðinn, þá eigi að skattleggja hann til þess. Ég álít, að í störfum þingsins eigi alls ekki að koma fram, að þannig eigi að taka af vissum gjaldendum, jafnvel þótt það sé til hagsbóta hinum sömu.

En aðallega vildi ég benda á, að það er æskilegt, að þau skip, sem hér eftir eru byggð, verði öðruvísi en til þess að snatta hér kringum landið, ef að því kemur, að ekki þarf á þeim að halda til strandgæzlu.

Ég álít, að það skip, sem á að annast björgunarstarfsemi í Vestmannaeyjum, eigi einmitt að vera sniðið í því formi, sem togarar eru, og ekki einungis í þeim tilgangi, að það geti síðar starfað á þeim grundvelli, heldur og líka til þess, að hægt sé að gera þau hraðskreiðari og duglegri til að ná togurum heldur en þau, sem hafa verið byggð, því að það er miklu verra að varast skip, sem steypt eru í hinu sama formi.

Það er aðeins þetta, sem ég vildi benda á, og ég tel heppilegra, að þessu verði hér eftir meiri gaumur gefinn en var í upphafi og hefir verið hingað til.