12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (2864)

34. mál, landhelgisgæsla

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. ráðh. lét svo um mælt, að hann teldi rétt, að þetta frv. yrði samþ., en gat þess um leið, að hér gæti verið um tímaspursmál að ræða, og skildist mér, að það væri framkvæmd málsins. Og það er að vísu satt, að nokkurn tíma þarf til þess að koma framkvæmdum af stað. Flestir munu álíta, að nýlegur togari dugi; ekki þörf á alveg nýju skipi. Ég hefi átt tal um þetta við mann, sem einna mest hefir staðið fyrir slíkum framkvæmdum, og segir hann mér, að hvað snerti innréttingu skipanna þurfi ekki að bæta nema 2–3 klefum við, sem þurfi handa væntanlegum vísindamönnum, og svo séu þessi venjulegu tæki, sem hafrannsóknaskip þurfa og sem komast prýðilega fyrir á venjulegum togurum. Að því er snertir björgun, þá eru engin skip heppilegri til þeirra nota en skip með togaragerð.

Ég sé því ekki, að lengi þurfi að standa fyrir hæstv. stj. að ná þessu markmiði. Og ef þetta frv. verður samþ., vil ég vænta þess, að hæstv. stj. dragi ekki framkvæmd málsins.

Ég skal benda á það, að áður en Þór strandaði, voru varðskipin þrjú, og þetta frv. kom fram vegna þess, að Þór var úr sögunni, en það hefði varla komið fram, ef Þór hefði verið ofansjávar. Svo að í raun og veru er ekki farið fram á að auka varðskipaflotann úr því, sem hann var fyrir nýár.

Ennfremur skal ég geta þess, að það skip, sem verið hefir í staðinn fyrir Þór í vetur við Vestmannaeyjar, hefir að sögn kunnugra manna og skipverjanna sjálfra ekki getað fullnægt sínu hlutverki sem skyldi. Ég veit líka, að hæstv. stj. hefir orðið að staðbinda Óðin og Ægi á víxl við Vestmannaeyjar, vegna þess að hún, alveg eins og sjómennirnir og allir aðrir, treysti ekki Hermóði til þess að standa í stórræðum. Allt þetta styður það, að hafizt sé handa til að afla skipsins, þegar er þingið hefir samþ. frv.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist á hugsun ráðh. um sérstakan skatt á sjávarútveginn. Eins og er borgar sjávarútvegurinn í raun og veru sérstakan skatt fyrir strandvarnirnar. En ég er sammála hv. þm. um, að óviðkunnanleg leið hefir hér verið valin af stj. og fordæmi gefið, sem gæti haft afleiðingar líka fyrir landbúnaðinn.

Mér virðist heldur ekki tímabært að halda þessu fram nú. Ég tók svo eftir, að hv. 3. landsk. hafi sýnt fram á í Ed. við umr. þessa máls, að ríkissjóður væri ekki farinn að leggja neitt verulegt af mörkum til þess að halda út strandgæzluskipunum.

Ég vil því, eins og hv. 4. þm. Reykv., undirstrika, að hér er verið að stofna til kaupa á skipi í staðinn fyrir Þór, og til þess fyrst og fremst að taka upp það starf, sem niður féll með strandi hans. Og allir virðast sammála um að hafa þetta skip þannig útbúið, að það geti fullnægt þeim verkefnum, sem fyrir liggja á ýmsum hlutum árs og við ýmsa landshluta. Með öðrum orðum, að það verði reglulegt fiskiskip að öllum útbúnaði, en þó með björgunar- og rannsóknartækjum, eins og margir þm. hafa bent á.