20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Frv. þetta á þskj. 132 hefir legið fyrir tveim síðustu þingum í svipuðum búningi og það birtist nú í. Hv. þdm. munu minnast þess, að á síðasta þingi kom fram fyrirheit af hálfu hæstv. ríkisstj. um að búa málið til þessa þings. Það er líka í þetta sinn komið frá stj., enda þótt það sé, eftir hennar ósk, flutt af hv. þm. V.-Ísf. og mér. Annars er ekki þörf að fjölyrða um málið. Aðeins skal ég geta þess, að áður eru komin fram tvö frv. um svipað efni, eins og á undanförnum þingum, og liggur beint við, að efni allra þessara frv. verði samræmt og komi síðar fram í einu lagi.

Ég óska þess, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni umr., þar sem hin tvö frv. liggja fyrir til afgreiðslu.