20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Þau tvö frv., sem hér eru fram komin, annað um Fiskveiðasjóð Íslands, en hitt um fiskveiðasjóðsgjald, eru í raun og veru í samhengi hvort við annað. Ég ætla ekki að hefja langt mál um þetta nýja frv. Það er ekki ósvipað því, sem meiri hl. sjútvn. flutti í fyrra. Það gengur að vísu í þá átt að hækka tillagið úr ríkissjóði, en engin trygging er fyrir því, hvenær peningarnir verða lagðir fram, svo að það getur hæglega dregizt til 1931, að nokkurt verulegt tillag fáist úr ríkissjóði. En það er öllum ljóst — enda sést það bezt á öllum þeim till., sem komið hafa fram á undanförnum þingum í þá átt —, að það má ekki lengur dragast, að komið sé fótum undir svipaða lánsstofnun og Fiskveiðasjóðurinn á að vera. Af frv. má sjá, að hæstv. stj. hefir líka verið ljóst, að sjóveðið á bátunum væri hindrandi fyrir veðhæfi þeirra gagnvart lánsstofnuninni. Er nú lagt út á nýja braut í því efni, svo að þeir, sem eiga að njóta þess samkv. frv. að fá lán út á bátseignina eingöngu, mega ekki gera út bát sinn á annan hátt en að hásetar fái hlut í afla að kaupi. Það er að vonum, að einhver vandkvæði fylgi alltaf tilraun til að sameina það, að bátarnir hafi fullt veðhæfi, sem rekist þó ekki á sjóveðsákvæðin. En ég tel þessa leið mjög óheppilega. Í frv. er gert ráð fyrir, að lögskráningarstjórar eigi að ganga úr skugga um það, áður en þeir skrá mennina, hvort bátarnir hafi fengið veð í Fiskveiðasjóði, en þetta gæti þýtt það, að ekki yrði hægt að lögskrá á skipin. Það er ekki eigandinn, sem er einráður um það, fyrir hvaða kjör hann ræður fólkið. Hér er um tvo aðilja að ræða — háseta og útvegsbændur — og samkomulag verður að vera á milli þeirra. Ég held, að ekki þýði að lögbjóða neitt í því efni. Það er alkunna, að hásetar eru oft mjög ófúsir á að ráða sig upp á hlut eingöngu, og sumir útgerðarmanna vilja síður ráða menn upp á hlut. Sú kaupgreiðsla, sem nú gildir, er nær undantekningarlaust á þann veg, að meginhlutinn er fast kaup, og þar við bætist verðlaun eða „premía“, eins og það er alltaf kallað. Þetta ákvæði um lögskráninguna gæti sem sé orðið þröskuldur fyrir því, að sá bátseigandi, sem hefir lán með þessum kvöðum, geti rekið atvinnu sína.

Frv. fylgir ítarleg grg., en ýmislegt er þar athugavert, a. m. k. það, að æskilegt sé, að aukning höfuðstóls Fiskveiðasjóðsins verði ekki með öðru móti, af því að ör vöxtur í þessari atvinnugrein gæti truflað eðlilegan þroska þjóðlífsins. Hér er hreyft við máli, sem mörgum er ákaflega viðkvæmt, sem sé því, að fiskiveiðar landsmanna þyki skaða hinn aðalatvinnuveginn. En ég tel, þar sem það er vitanlegt, að fiskiveiðarnar standa undir öllum þorra af gjöldum ríkisins, að það verði tæplega talinn kostur, að þær vaxi ekki ört.

Ég vil taka það fram, að eins og komið er með þessa stofnun, og þar sem engin önnur stofnun er til, sem taki að sér hennar hlutverk, er engin ástæða til að gera lagaákvæði svo úr garði, að efling fiskiveiðanna geti ekki orðið sæmilega hraðskreið.

Þá hefir hæstv. stj. hugkvæmzt að afla Fiskveiðasjóðnum tekna með því að skattleggja enn að nýju fiskiveiðar landsmanna. Eins og nærri má geta, þykir mér ekki heppilegt, að sú leið verði farin. Við, sem höfum flutt hér annað frv., sem fjallar líka um efling Fiskveiðasjóðsins, höfum bent á aðra leið en beina skattlagningu til að efla sjóðinn, sem sé sölu vaxtabréfa, en þegar um það atriði er að ræða, og þegar vaxtabréfin eiga að vera til eflingar lánsstofnun handa sjávarútveginum, er svar stj. á þá leið, að sú leið sé þegar oftroðin. Nú er það vitanlegt, að fyrir utan veðdeild Landsbankans hafa tvær stofnanir, nefnilega Ræktunarsjóðurinn og Búnaðarbankinn, báðar verið studdar á þann hátt með leyfi þingsins. En þegar við sjávarútvegsmenn viljum njóta sömu kjara, þá er leiðin oftroðin, að áliti stj.

Ég man ekki til, að nein uppástunga kæmi fram þess efnis, þegar frv. um Búnaðarbankann var afgr., að bankanum þyrfti að afla fjár með því að skattleggja landsmenn sérstakl., auk heldur landbúnaðinn sjálfan. Tollur á sjávarútvegsafurðum er 1½%, og hann hefir um nokkurt skeið, eða hluti af honum, runnið til þess að styrkja lánsstofnun fyrir landbúnaðinn.

Ég skal ekki að svo komnu máli ræða skattafrv., sem er næst á dagskrá (frv. um fiskveiðasjóðsgjald), en mun aðeins minnast á það, þegar þar að kemur. En þó vil ég benda á það, að mér þykir það vandræðalegt hjá hæstv. stj., sem stendur að þessu frv., að hún skuli ekki sjá leið til þess að greiða fram úr lánsþörf bátaútvegsins nema með því að leggja nýjan skatt á sjávarútveginn, sem samkv. grg. frv. á að nema 100 þús. kr. árlega, í viðbót við aðrar þær byrðar, sem sjávarútvegurinn hefir að bera, bæði beint og óbeint.

Að sumu leyti er þetta frv. — eins og ég minntist á áðan — shlj. till. meiri hl. sjútvn. þessarar d. í fyrra. En þó hefir í ýmsum atriðum verið vikið frá þeirri stefnu, sem þar var upp tekin, en óþarft er við þessa umr. að fara nákvæmlega út í það. Og hvað snertir ákvæði um báta, sem lána megi út á, og fyrirtæki, sem lána megi til, þá vonast ég eftir, að samkomulag takist í sjútvn. Þótt ég yfir höfuð hafi lýst þeim agnúum, sem mér þykja í fljótu bragði vera á frv. hæstv. stj., þá verð ég að segja, að ég vona, að þessar sameiginlegu tilraunir stj. og einstakra þm. til að ráða bót á þeirri vöntun, sem er á lánsfé til skipakaupa og til rekstrarlána, leiði til samkomulags um stofnun, sem þannig sé úr garði gerð, að allir aðilar geti við unað, a. m. k. í bili, og helzt til langframa.