20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. flm., sem hafa orðið við tilmælum mínum um að flytja þetta frv.

Bæði um tilorðningu þess og ýms atriði get ég sumpart vísað til þess, sem hv. aðalflm. sagði, og sumpart til hinnar rækilegu grg. fyrir frv. Ég tel ástæðulaust að fara út í einstök atriði málsins nú. Eins og hv. flm. og hv. þm. Vestm. hafa tekið fram, hefir þetta mál verið fyrir þinginu hvað eftir annað, fengið afgr. héðan úr hv. deild einu sinni, ef ekki tvisvar. Það er því búið að margræða þetta mál, og ennfremur liggja fleiri till. fyrir þessu þingi um þetta mál, svo að ég álit ekki þörf að ræða frv. mikið við þessa umr., heldur eigi að láta það komast sem fyrst í n. Býst ég við, að allir séu sammála um að afgr. þetta mál, og vona, að samkomulag náist um, hvernig það á að verða.

Þó að hv. þm. Vestm. hefði ýmislegt að athuga við sum atriði þessa frv., virtist mér þó koma fram hjá honum fullur vilji til þess að fá samkomulag um endanlega afgreiðslu málsins nú.

Ég skal aðeins stuttlega víkja að sumu af því, sem hv. þm. minntist á. Fyrst er það atriði, sem mest hefir verið deilt um undanfarin ár, veðið, sem sjómenn hafa fyrir sínu kaupi. Um það atriði spurði stj. sig fyrir hjá þeim prófessor háskólans, sem hefir á hendi kennslu í þessu efni. Hann tjáði okkur, að hann vissi ekki til þess í neinu landi, þar sem hann hafði haft tækifæri til að athuga þetta, að sjómenn væru sviptir þessum rétti, sem núverandi löggjöf gefur þeim hér á þessu landi. Þar sem þetta er nú svo, og þar sem hér á í hlut sú stétt í landinu, sem leggur á sig e. t. v. mest erfiði og mestar hættur af öllum stéttum, þá verð ég að segja, að ég fyrir mitt leyti gat ekki farið að leggja til að svipta þá rétti gagnvart greiðslu kaupgjalds síns, sem þeir hafa haft til þessa. En hér er stungið upp á leið til þess að komast framhjá þessu að nokkru leyti. Það er ekki verið að lögbjóða neitt, heldur eru sett ákveðin skilyrði fyrir því, að þessi skip verði tekin fullgild veð. Þetta sama á sér stað á öðrum sviðum. Byggingar- og landnámssjóður setur sérstök skilyrði til þess, að menn geti notið hlunninda þeirra, sem þar eru boðin fram.

Annars væri það æskilegt, ef hv. n. gæti komið í veg fyrir, að of miklar deilur yrðu til þess að tefja framgang þessa máls nú. Menn eru þegar búnir að ræða málið til þrautar nú þegar, að ég hygg.

Annað, sem hv. þm. Vestm. benti á, var það, að hér væri of hægt af stað farið, en jafnframt áleit hann ekki stungið upp á heppilegri aðferð til að afla sjóðnum tekna. Um þetta atriði vil ég segja það, að það er alveg sama aðferðin og farin var 1925, þegar löggjöfin um Ræktunarsjóðinn var samþ.; það var gert samkv. uppástungu n., sem Búnaðarfélagið skipaði til að athuga þetta mál. Ég fyrir mitt leyti játa, að ég er ekki eins kunnugur þessu máli og hv. þm. Vestm. En eins og gert er ráð fyrir um höfuðstól sjóðsins í 2. gr., og eins og gert er ráð fyrir í grg. frv., að nýja gjaldið verði allveruleg upphæð, þá finnst mér a. m. k. stórkostleg framför frá því, sem nú er, að fara af stað með þetta. Og þar sem talað er um í 2. lið 2. gr., að það sé samningsatriði milli stj. sjóðsins og ríkisstj., hvenær sú greiðsla fer fram, sem þar er bent á, þá er það gert með þeirri hugsun, að þegar stj. sjóðsins sér verulega þörf fyrir þetta fé, þá leysi ríkisstj. vandann og veiti það fé, sem við verður komið.

Að endingu vil ég vekja athygli á því, sem kom fram síðast í ræðu hv. þm. Vestm., að hann vonaði, að um einstök atriði, sem hann nefndi, mætti takast samvinna í n. Þessari ósk vil ég eindregið beina til hv. n., að hún sinni þessu máli svo vel og svo fljótt, að ekki þurfi að verða hætta á, að það strandi enn einu sinni.