01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vildi láta í ljós mjög mikla ánægju yfir því, að þetta mál mun nú fá afgreiðslu. Eins og hv. frsm. gat um, hefir málið verið á döfinni í mörg ár, en nú loks hefir tekizt að fá samkomulag. Ég vona, að það verði til að uppfylla mikið af þeim vonum, sem menn hafa gert sér um þennan sjóð. N. hefir að vísu gert allmiklar brtt. Fyrst og fremst stafa þær af breyttum kringumstæðum, og ég geng glaður inn á þessar brtt., bæði vegna breyttra kringumstæðna og til þess að styðja n. til. að koma málinu fram á þessu þingi.

Svo vil ég lýsa ánægju minni yfir því, hvernig n. ætlar að leysa hnútinn um sjóveðin með 6. brtt., við 7. gr. Með því að stofna þennan sérstaka sjóð er hvorttveggja unnið, tryggt, að sjómenn verði ekki sviptir þeim rétti, sem þeir hafa í öðrum lögum og ákaflega sorglegt hefði verið að þurfa að taka af þeim, og hinsvegar er sjóðurinn sæmilega tryggður gegn óhöppum.

Einmitt þessa dagana, sem við ræðum um þennan sjóð hér í hv. deild, hittist svo á, að verið er á öðrum stað hér í bænum að stofna bankann, sem á að taka við stj. hans og starfrækslu. Ég óska og vona, að þetta tvöfalda átak megi verða til mikillar farsældar.