01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það hafa engin mótmæli komið fram, aðeins nokkrar góðlátlegar aths., sumpart við niðurstöður n. og sumpart við framsöguræðu mína. Ég þarf ekki að firtast við þær aths. og skal ekki svara þeim mörgum orðum.

Það var aðeins ein setning hjá hv. þm. Borgf., sem ég held, að honum hafi annars orðið óvart að segja. Hann sagði, að samkomulagið í n. hefði ekki náð lengra en það, að við höfum orðið sammála um stofnun stofnlánadeildar Fiskveiðasjóðsins. Þetta er að því leyti ekki rétt, að við vorum allir sammála um það, að æskilegast væri að geta fengið báðar deildir sjóðsins lögfestar, en af praktískum ástæðum þótt ráðlegra að fresta ákvörðunum stofnun rekstrarlánadeildar við sjóðinn en að stofna öllu málinu í hættu.

Virtist oss einnig að nokkru leyti vera bætt úr rekstrarlánaþörf útvegsmanna, í bráð a. m. k., með stofnun sjávarútvegsbankans, og hinsvegar gerum við ráð fyrir, að þegar Fiskveiðasjóðnum vex fiskur um hrygg, þá verði hann þess megnugur að taka að sér rekstrarlánastarfsemi jafnframt lánastarfseminni til bátakaupa.

Mér fannst verða vart dálítils misskilnings hjá hv. 4. þm. Reykv., þegar hann fór að taka framsöguræðu mína til athugunar. Hann var sem sé að tala um, að þó Fiskveiðasjóðurinn væri stofnaður og gerður tiltölulega sterkur, þá girti það ekki fyrir það, að margir yrðu að leita sér atvinnu við sjávarútveginn, án þess að geta sjálfir átt bát. Ég veit þetta mjög vel. En færri verða þá til að keppa um atvinnuna, þegar bátaeigendurnir eru orðnir fleiri. Ég álít ekkert athugavert við það, þó allmargir, sem utan við útgerðarfélagsskap standa, þurfi að fá sér atvinnu við útgerðina. Það hefir löngum verið svo, að margir ungir menn, sem eru að ryðja sér braut til sjálfstæðrar stöðu, vinna fyrst hjá öðrum og búa sig þannig undir sjálfstæðan atvinnurekstur.

Vel má vera, að mér hafi ekki tekizt í framsögu að taka nógu ljóslega fram þann erfiðleikamun, sem er fyrir unga menn við sjó að komast í sjálfstæða stöðu móts við þá, sem í sveitum búa. Að sjálfsögðu er oftast róðurinn þyngri fyrir þá, sem við sjóinn búa, þegar um það er að ræða að komast að sjálfstæðum atvinnurekstri. Þess vegna eru sumir þeirra, sem við sjávarsíðuna búa, ekki eins ánægðir með kjör sín sem skyldi. Þeim mönnum ætti Fiskveiðasjóðurinn talsvert að geta hjálpað til að ná takmarkinu. Einn aðalkostinn við að hafa lánsstofnun sem þessa tel ég það, að hún getur mörgum hjálpað til að verða sjálfstæðir atvinnurekendur, sem ekki gætu orðið það ella.

Hv. þm. Borgf., hv. þm. Vestm. og hv. 4. þm. Reykv. lögðu nokkra áherzlu á það, að eftir frv. væru útlán Fiskveiðasjóðs miðuð við of smá skip, þar sem hámarkið væri sett 35 smálestir. Út af því vil ég aðeins benda á það, að enn er allt yfirborð fiskiflotans undir þessari stærð.

Þegar haft er fyrir augum að hjálpa sem flestum einstaklingum til að stofna til sjálfstæðs atvinnurekstrar, þá eru það í flestum tilfellum smærri bátarnir, sem hafa verður fyrir augum, að einstaklingarnir geti eignazt. Stærri skipin koma frekar til greina fyrir félagsskap þeirra efnaðri.

Hinsvegar er gert ráð fyrir í 4. gr. frv., að lána megi til stærri skipa en 35 smálesta, þegar sjóðurinn er orðinn svo öflugur, að hann hefir nægilegt fé fyrir hendi til þess. Og ef samþ. verður næsta mál á dagskrá, frv. um fiskveiðasjóðsgjald, þá ætti Fiskveiðasjóðnum tiltölulega fljótt að safnast talsvert fé.

Það er engin von til þess, að lög þessi verði gerð svo úr garði nú, að það líði á löngu áður en breyttar ástæður í landinu gera nauðsynlegt að breyta þeim. Nú eru atvinnuvegirnir í svo hraðri breyt., að það er ekki við því að búast, að við getum gert lög í dag, sem gilt geti óbreytt um langan tíma, enda er þess ekki þörf.

Annað, sem fundið var að framsöguræðu minni, finnst mér ekki svo mikilsvert, að ég vilji tefja tímann þess vegna.

Vil ég aðeins óska, að þetta mál fái góða afgreiðslu hér í hv. deild, og svo fljóta, að ekki sé hætta á, að það dagi uppi.