01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætla ekki að fara að deila neitt við hv. 1. þm. S.-M. út af skoðunum hans á réttmæti samtaka verkamanna til að tryggja sér arðinn af vinnu sinni. (SvÓ: Ég var ekkert að tala um þessháttar). Hv. þm. gaf mér tilefni til að fara dálítið inn á þetta efni í framsöguræðu sinni. En ég ætla mér ekki þá dul að fara að kenna honum, svo gömlum manni, þá nýju þjóðhagsfræði, sem a. m. k. margir af hinum yngri hagfræðingum eru farnir að hallast að, að arður framleiðslunnar eigi að dreifast sem jafnast til þeirra, sem að henni vinna, og framleiðslan að öllu leyti að komast í hendur verkamannanna sjálfra að síðustu.

Mér virðist nokkur meiningamunur á milli okkar hv. 1. þm. S.-M. um það, til hvaða tegunda skipa á að lána úr sjóðnum. Ég get tekið undir það með hv. þm. Borgf., að um það atriði séu of þröngar takmarkanir, eins og ég hefi áður bent á, í frv. Árið 1929 var skipaeign landsmanna þannig háttað, að vélbátar innan við 12 rúmlestir voru 363 að tölu, samtals 2.567 rúmlestir. Það eru þau skip, sem hv. 1. þm. S.-M. mun sérstaklega vilja láta njóta lánveitinga úr sjóðnum. Vélbátar yfir 12 rúmlestir að stærð voru 262 og samtals 5.879 rúmlestir. Þeir munu vera af öllum stærðum upp í 60–70 rúmlestir. Til báta af þessari stærð viljum við sumir nm. láta sjóðinn veita lán, enda verða þeir sjálfsagt aðallega notaðir í framtíðinni. Svo eru litlu eimskipin, línuveiðararnir; þeir eru orðnir 44 og fer alltaf fjölgandi. Finnst mér full ástæða til að láta sjóðinn taka tillit til þeirra. Stærri skip þarf víst ekki að telja, því það mun ekki verkefni þessa sjóðs að styrkja togaraútgerð.

Annars álít ég heppilegast að leggja það nokkuð í vald bankastj., sem um sjóðinn annast, hvaða tegundir skipa hún styrkir á hverjum tíma, því það er erfitt að segja um það fyrir löggjafarvaldið, hvað borgar sig bezt þá og þá.

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. Borgf. um kaupdeilur og verkföll. Hann hélt fram, að allir, sem hlut áttu að máli, hafi beðið stórtjón af síðustu kaupdeilunni hér á landi. En það er nú upplýst, að kauphækkunin, sem verkamenn höfðu fram, eykur tekjur þeirra um 500 kr. á ári. Nú eru liðin 2 ár síðan kaupdeilan var, og það mun láta nærri, að á skipunum, sem deilan stóð um, vinni 1.000 menn. Verkamannastéttin hefir því fengið 1 millj. kr. meira á þessum 2 árum til að klæða og fæða af sig og sína heldur en ef kaupkröfurnar hefðu ekki verið gerðar. Útgerðin hefir haft sæmilegan arð eftir sem áður. Þetta kalla ég þjóðarhag. Allir nýrri hagfræðingar eru farnir að viðurkenna, að dreifing fjármunanna sé hagkvæmari en auðsöfnun á fárra manna hendur. Hefi ég nú skýrt frá, hver árangur varð af síðustu kaupdeilunni, sem hv. þm. kallar þjóðarböl.