03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram 3 brtt. á þskj. 402 við frv. um Fiskveiðasjóð Íslands. 1. brtt. er við 3. gr. og gengur í þá átt, að aftan við gr. bætist heimild fyrir ríkisstj. að taka lán til kaupa á handhafavaxtabréfum þeim, sem heimilað er að gefa út til að afla sjóðnum tekna. Ennfremur er þar ákveðið, að svo skuli haga tímalengd útlána og verði bréfanna, að ríkissjóður verði skaðlaus af, en honum er heimilt að kaupa bréf fyrir allt að 1½ millj. kr.

Það hefir gengið treglega að afla sjóðnum tekna, og því hefir orðið að grípa til þeirra ráðstafana að gefa út handhafavaxtabréf til að auka tekjurnar. Þar sem þessi 1½ millj. kr. yrði verulegur hluti af því fé, sem sjóðurinn fengi yfir að ráða, vona ég, að hæstv. stj. geri sitt til að afla sjóðnum nægilegs fjár til að styrkja menn til bátakaupa.

2. brtt. er við 4. gr. og gengur í þá átt, að í stað þess, sem gert er ráð fyrir í lögunum, að mönnum verði veittur styrkur til að kaupa skip, sem eru allt að 35 smál., komi 50 smál. Mér virtist, sem skilyrðið fyrir lánveitingu væri of þröngt, einkanlega þar sem menn eru nú farnir að stunda hér sjó á stærri bátum, t. d. hér við Faxaflóa. Ég geri að vísu ráð fyrir, að fá svo stór skip verði keypt, og auðvitað alls ekki nema nægilegt fé sé fyrir hendi, en þó þótti mér hentugra að hafa þetta svo.

3. brtt. er við 5. gr. og er hún í tveimur liðum, a og b. — Samkv. 5. gr. er ekki heimilt að veita hærri lán en 20 þús. kr., en hinsvegar er það eðlileg afleiðing af fyrri brtt. minni, að þetta hámark verður hærra í samræmi við það, að styrkur er veittur til kaupa á stærri skipum. Hefi ég því lagt til, að hann verði hækkaður um 1/3, eða upp í 30 þús. kr. B-liðurinn er um það, að í staðinn fyrir „35 þús.“ í 3. mgr. komi 40 þús. Þessi breyt. kemur til af því, að þetta hámark hefir reynzt of lágt, og því hefir verið erfitt að koma upp lýsisbræðslum og verksmiðjum til að vinna úr fiskúrgangi. Hinsvegar eru þetta orðnar töluverðar tekjulindir, og því ástæða til að veita mönnum hærri styrk.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um þetta, en vona, að hv. deild taki vel í þessar brtt. mínar.