03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vildi aðeins lýsa afstöðu minni til þessara brtt. á þskj. 402, en skal vera fáorður. Um þá 1. er það að segja, að hún er nauðsynleg, ef ákvæði 3. gr. eiga að koma að notum. Þetta atriði kom fram í n., en hún lagði að vísu ekki mikið upp úr því, svo að það varð af, að hún bar þetta ekki fram, og því gleður það mig, að hv. frsm. þykir þetta nauðsynleg breyt. nú. —. Um 2. brtt. er það að segja, að hún er í fullu samræmi við fyrirvara minn, en ég miðaði að vísu við gufuskip, er ég vakti athygli á, hvort ekki væri ráð að veita styrk til kaupa á stærri skipum. Þessum skipum hefir farið mjög fjölgandi nú síðustu árin, og ég hefi betri trú á, að menn geti frekar bjargað sér á þeim heldur en smáu skipunum. Ég mun því fylgja 2. brtt. um það að hækka þetta upp í 50 smálestir.

Þá kom nokkur ótti fram hjá hv. frsm. um, að sjóðurinn mundi ekki ná sínu eiginlega takmarki, ef að þessu ráði yrði hnigið. Nú er það vitað, að það er á valdi stj. sjóðsins á hverjum tíma, til hvaða stærðar skipa þeir veita lán. Því liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að setja einskorðaðar reglur um það, til hvaða skipa eigi að veita lán.

Við 2. umr. var bent á, að það væri hart að útiloka frá möguleikunum til að fá lán þá tegund skipa, sem mynda þó allmikinn skipastól hér. Við Faxaflóa er mikill hluti skipa 40–50 smálestir, á Ísafirði er meiri hlutinn af stærri bátum líklega yfir 40 smál., og mörg af þeim skipum, sem gerð eru út frá Norðurlandi til þorskveiða, munu vera yfir 35 smál.

Hv. frsm. sagði, að skilgreining milli skipa og báta væri miðuð við vissa stærð. Ég hefi nú ekki heyrt það, og mér finnst afaróljóst hugtakið um nafn skipa. Það eru yfirleitt kallaðir mótorbátar, þótt það séu 30–40 smálesta skip. Ég hygg, að í fleiri tilfellum séu hinir eiginlegu bátar þá nánast miðaðir við 12 smálestir, eða þá stærð, þegar þeir eru ekki skráningarskyldir. En ég held, að ómögulegt sé að binda þetta við neina ákveðna stærð, þótt ég slái þessu fram.

Eins og þegar er tekið fram, er 3. brtt. afleiðing af hámarkinu um stærð skipanna, því að sú upphæð hlýtur þá að hækka, sem lána má, eftir því sem skipin verða stærri og dýrari. — Ég mun því geta fylgt þessum brtt.; þær eru í fullu samræmi við þá skoðun, sem ég lét uppi við 2. umr. og sem fyrirvari minn benti til.