03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég verð að segja, að mér þykir í sjálfu sér gott, að þessar till. eru komnar fram. Ég varð þess var við 2. umr., að það þóttu dálítið þröng og alleinkennileg takmörk í 4. gr. um þau skip, sem samkv. henni lítur út fyrir, að eigi að ganga fyrir lánum. Þegar þess er gætt, hver tilgangur Fiskveiðasjóðsins er — og honum er lýst í 1. gr. frv. —, þá er í rauninni engin hætta á því, þó að sá rammi, sem stjórn sjóðsins er settur, sé hafður það rúmur, að hún geti án lagabreyt. fylgzt með þeirri framþróun, sem á sér stað í útveginum. En í raun og veru er það ekkert annað en þetta, sem mér virðist farið fram á að því er snertir hámarksstærð þeirra báta, sem fyrst og fremst á að beina fé sjóðsins til.

Ég veit, að hv. frsm. hefir mjög fyrir augum hinn smærri útveg, og það er alveg rétt að taka fullt tillit til hans. En ég sé ekki, að með brtt. sé nokkuð gert til þess að hindra, að sjóðsstjórnin geti tekið fullt tillit til smærri báta. Í því sambandi má benda á ákvæði 16. gr., sem kveður svo á í niðurlagi sínu, að útlánsfé. Fiskveiðasjóðsins skuli skipt sem jafnast eftir bátaútgerð í hverjum hluta landsins. Þetta mundi í framkvæmd ekki þýða annað en það, að veiðistöðvar t. d. við Faxaflóa, sem hafa stærri báta, fengju lánað út á færri skip heldur en þær, sem hafa smærri báta, þar sem ætlazt er til, að sjóðsstjórnin skipti fénu jafnt milli landsfjórðunganna.

Það er alveg rétt, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Reykv. við 2. umr., að þegar tillit er tekið til þess, hversu oft breytingar eiga sér stað í útveginum, þá verður stjórn sjóðsins að hafa nokkuð lausar hendur um lánveitingar, og því er varasamt fyrir löggjafarvaldið að setja of þröngar skorður í þessu efni. — Sem sagt, brtt. gerir þetta rýmra og framkvæmanlegra, og felst ekki í henni hin minnsta hætta á því, að smærri útvegur þurfi á nokkurn hátt að verða útundan, þótt hún verði samþ.

Það eru ekki aðrar brtt. en þessi, sem gerðar hafa verið að deiluefni. Mér skilst hv. frsm. og hv. 4. þm. Reykv. vera fyllilega samþ. 1. brtt., og skal ég því ekki orðlengja um hana, nema segja það, að ég tel hana til stórra bóta fyrir þessa lánsstofnun, sem við allir ætlumst til, að geti komið að góðu og fljótu gagni fyrir þennan atvinnuveg landsmanna.