14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Halldór Steinsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, af því að mér þykir frv. eins og það nú er ganga allt of skammt. í Nd. voru tvö frv. lögð fram um þetta efni. Annað var frá mönnum í Framsóknarflokknum, en hitt frá mönnum úr Sjálfstæðisflokknum. En bæði voru frv. áþekk. Í báðum var gert ráð fyrir tveimur lánadeildum. Önnur deildin, sú sem nú er eftir í frv., átti að lána til skipakaupa og iðnaðarstofnana. Hin deildin, sem tekin var burt úr frv. í Nd., átti að veita útgerðinni rekstrarlán. Auk þess eru þau lánin gerð óaðgengilegri, sem eftir standa, svo afleiðingin er sú, að þessi lán eru orðin hálfgert kák. Þessi lánsstofnun er nú byggð upp á þann hátt, að til hennar rennur Fiskveiðasjóðurinn gamli, sem mun vera 500–600 þús. kr. Úr ríkissjóði á að koma 1 millj. kr., sem á að borgast á 10 árum. Og í þriðja lagi á sjóðurinn að fá 1/8% af verðmæti allra útfluttra sjávarafurða. Ef verðmæti þeirra verður líkt því, sem hefir verið undanfarið, þá má búast við, að það nemi 90–100 þús. kr. á ári. Þarna er þá komið allt það fé, sem sjóðurinn hefir til að starfa með. Í 3. gr. frv. er að vísu gert ráð fyrir því, að hann megi selja vaxtabréf, en engu er hægt um það að spá, að hvaða gagni það kann að koma til þess að afla sjóðnum veltufjár. Það er því ekki hægt að fullyrða neitt um það, að sjóðurinn fái meira starfsfé en að framan getur.

Nú er það í ákvæðum frv., að Fiskveiðasjóðurinn megi lána út á skip, sem eru 50 smál. að stærð og minni, allt að 30 þús. kr. út á hvert þeirra, og auk þess má lána til iðjufyrirtækja allt að 35 þús. kr. í hvern stað. Er því sýnt, ef lánað er nálægt hámarki á hvern stað, að ekki verða margir, sem njóta þeirra hlunninda að fá lán úr skipalánadeildinni. Ef 20–30 menn, sem hafa 50 smálesta skip, eða þá atvinnufyrirtæki, sem verðskulda hámarkslán, þá er sjóðurinn búinn með stofnfé sitt. Er þá ekki leyfilegt að spyrja: Hvað verður þetta fyrir allt landið? — En auk þess er það svo, að Fiskveiðasjóðurinn gamli er í lánum nú og er því ekkert hægt að lána úr honum fyrst í stað. Þegar því á þetta allt er litið, þá er ekki hægt annað að segja en að þetta sé hálfgert, eða jafnvel algert kák. En þó svo sé, þá er þetta þó spor í áttina, og því höfum við ekki viljað leggja á móti því, að frv. verði samþ. En ég verð að segja, að það var leitt, að rekstrarlánadeildin var tekin úr frv. eins og það var upphaflega. Hún átti að hafa ½ millj. kr. og auk þess hluta af gjaldi, sem þá var gert ráð fyrir að væri ¼%. Hefði sú deild þá haft þegar í byrjun 600–700 þús. kr. til sinnar starfsemi, hefði það verið talsverður stofn og ólíkt sterkari deild en skipakaupadeildin, þó sama fjármagn hafi. Hefði það komið miklu fleiri smáútgerðarmönnum að notum, auk þess, að sú upphæð hefði orðið tiltæk til útlána á hverju ári, þar sem öll slík lán áttu að greiðast aftur árlega. Fé skipakaupadeildarinnar má þar á móti gera ráð fyrir, að verði allt orðið fast eftir svo sem 3–4 ár. Er því ekki að gera ráð fyrir miklum árangri af þessu.

Ef rekstrarlánadeildin hefði verið samþ., þá gat frv. orðið til verulegra bóta fyrir smærri útgerðina. En þetta frv., þótt ég játi, að það sé spor í áttina, kemur ekki að verulegum notum.