15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Forseti (GÓ):

Viðvíkjandi síðustu orðum hv. 4. landsk. skal ég geta þess, að hann hefir haft það til að neita um afbrigði við 3. umr. mála, en samt vill hann heimta afbrigði fyrir mál, sem engin nál. eru komin um, eða a. m. k. ekki frá báðum nefndarhlutum. Venjan hefir verið sú, að bíða hefir þurft eftir nál. í málum, fremur en að þau hafi ekki fengizt tekin á dagskrá. Um þessi þrjú hafnarfrv. er það að segja, að ég geri tæplega ráð fyrir, að þau komi á dagskrá í dag, þó að við höfum annan fund í kvöld.

Hv. 4. landsk. sagði, að það væru 10–20 lög, sem við vildum drífa í gegn með afbrigðum þessa daga, sem eftir eru þingtímans. Þetta er rangt, því að það eru í mesta lagi sjö mál, sem um er að ræða í þessu sambandi. — Annars lítur helzt út fyrir, að hv. þdm. séu þessi mál, sem nú eru á dagskrá, miskær, svo að ég held ég verði að leita afbrigða fyrir hvert málanna um sig. Ég ætla samt að taka 2. umr.- málin sér.