01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

133. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég þarf ekki mikið um þetta mál að segja. Eftir afgreiðslu síðasta máls má ganga að því vísu, að þetta frv. verði látið renna í kjölfar þess, og þá sennilega með þeirri breyt., sem n. leggur til.

N. vill aðeins breyta einni tölu í frv. og leggur til, að fyrir ¼ úr hundraðshluta komi 1/8. Þegar nú er ekki eftir nema önnur deild Fiskveiðasjóðsins, ætti að mega lækka þetta aukagjald til hans. Eftir frv. eins og það nú er verður sjóðurinn vonandi fljótt starfhæfur og styrkur, þó þessi niðurfærsla verði samþ. Þetta 1/8% gjald af öllum útfluttum sjávarafurðum nemur sennilega um 70 þús. kr. nú, og fer vitanlega hækkandi, eftir því sem sjávarútvegurinn eflist. Þegar við það bætast aðrar tekjugreinar, sem sjóðnum eru ætlaðar, virðist sæmilega vel fyrir honum séð. Eru líkur til, að hann geti fyrstu árin haft til umráða um 200 þús. kr., eða jafnvel meira.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. Í því eru engin þau nýmæli, sem ástæða er til að fjölyrða um.