25.03.1930
Efri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Það er einkennilegt með samkomulag menntmn. Ágreiningur virðist lítill, enda eru litlar breyt. bornar fram. Samt eru brtt. fluttar á 3 þskj. Í aðalatriðunum var n. sammála og óskaði, að frv. næði fram að ganga. Brtt. meiri hl. eru nær eingöngu leiðréttingar, en engin efnisbreyt. Aftur á móti flytur minni hl. á þskj. 336 verulegar breyt, við frv., og skal ég síðar koma að þeim.

Fyrsta brtt. meiri hl. er við 4. gr., að orðin „sbr. þó 17. gr.“ komi í stað orðanna „sbr. þó 16. gr.“, því að það er í samræmi við efni frv.

Önnur brtt. er við 5. gr., að heimila og ákveða aneð reglugerð próf í einstökum námsgreinum sem inntökuskilyrð. Meiri hl. n. hefir gengið of skammt í þessari brtt., því að tilgangurinn með henni er sá, að þetta gildi eingöngu við inngöngu inn í 1. bekk, þó að það sé ekki skýrt tekið fram í gr. Minni hl., hv. 3. landsk., kom með brtt. viðvíkjandi þessu, og geri ég ráð fyrir, að meiri hl. fallizt á hana, þar sem tilgangur brtt. við 5. gr. næst, þó að hún sé samþ.

Þá sá meiri hl. ástæðu til að bæta inn í 6. gr. kennslu í sögu, þar sem taldar eru upp þær námsgreinar, sem kenna á. Það virðist hafa fallið úr eða gleymzt við samningu frv. að taka fram, að saga skuli kennd.

Meiri hl. n. áleit, að betra væri að orða 11. gr. eins og hann leggur til í brtt. sinni. Hann vill, að í staðinn fyrir orðin „og fastir kennarar ráðnir í samráði við skólastjóra og skólanefnd“ komi: „Fasta kennara ræður kennslumálaráðuneytið, að fengnum tillögum skólanefndar og skólastjóra“. Nefndin leit þannig á, að það væri tilætlun þess, sem samdi frv., að kennslumálarn. réði fasta kennara, en þótti gr. ekki nógu skýrt orðuð hvað það atriði snertir.

Þá er brtt. við 12. gr. Í 16. gr. er tekið fram, að með reglugerð fyrir gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum megi ákveða námstíma skemmri en 6 mánuði árlega, en þó skulu próf þaðan vera hin sömu og við aðra gagnfræðaskóla, enda sé samanlagður kennslutími til prófs þar jafnlangur og í öðrum hliðstæðum skólum. Þetta stendur í frvgr. Af þessu er það auðséð, að það er óheppilegt að ákveða styrkinn úr ríkissjóði og bæjarsjóði eins og gert er í frv., nefnilega að miða styrkinn við árið. Réttara væri að miða styrkinn við mánuð en ár, þar sem skólatími getur orðið mislangur í kaupstöðum. Breyting n. er í því fólgin, að í staðinn fyrir að ákveða 100 kr. úr ríkissjóði á hvern reglulegan nemanda á hverju skólaári, gegn 150 kr. lágmarksframlagi úr bæjarsjóði, sé ákveðið 16 kr. á mánuði fyrir hvern reglulegan nemanda, gegn 24 kr. lágmarksframlagi úr hlutaðeigandi bæjarsjóði. Þessar mánaðargreiðslur gera líka upphæð og ákveðin er í 12. gr.

Brtt. n. við 17. gr. er aðeins breyting á orðalagi.

Þá flytur n. till. um það, að 19. gr. falli niður. Ástæðan fyrir þessari till. n. er sú, að gr. fjallar eingöngu um gagnfræðaskóla Akureyrar, og n. finnst óhagkvæmt að hafa þau ákvæði í þessum lögum, en álítur réttara, að sérstök lög og reglur séu settar um Akureyrarskóla, hvernig kennslu skuli háttað í gagnfræðadeild þeirri, er við menntaskólann starfar. Þessi brtt. er gerð í samráði við fræðslumálastjóra, og þegar menntmn. Nd. vissi, að þessi till. var hér á ferð, þá flutti hún breyt. við frv. um menntaskólann á Akureyri, sem var í því fólgin, að ákveðið yrði í reglugerð um fyrirkomulag gagnfræðadeildar menntaskólans. Og nái sú till. fram að ganga, þá eru þar komin í lög þau ákvæði, sem 19. gr. þessa frv. felur í sér.

Þá hefi ég drepið á brtt. þær, sem meiri hl. n. flytur. Vil ég þá segja örfá orð um brtt. hv. minni hl. á þskj. 336. Ég hefi nú þegar minnzt á 2. brtt. hans í sambandi við 2. brtt. á þskj. 294, og þarf því ekki að orðlengja meira um hana. Ég fellst á hana og býst við, að hv. meðnm. minn í meiri hl. menntmn. geri það líka.

Um fyrstu brtt. vil ég segja, að mér finnst það skipta litlu máli, hvort þarf leyfi kennslumálastj. til að mega hafa þriðju ársdeildina við gagnfræðaskólann. Minni hl. vill fella burt það ákvæði, að samþykki kennslumálastj. þurfi, en mér finnst, að það hafi ekki mikla þýðingu að fella þau orð niður, af því að í sömu gr. er talað um, að fyrirkomulag þessarar deildar skuli ákveða með reglugerð.

Þá vill hv. minni hl. gerbreyta 18. gr. frv. Þar er farið fram á þá breyt., að sambygging verði yfir Iðnskólann, Verzlunarskólann og gagnfræðaskólann í Reykjavík. Hér kemur samskólahugmyndin hjá hv. minni hl. Meiri hl. vill ekki fallast á þessa breyt. og álítur, að það muni tefja fyrir framgangi málsins að setja það í sambandi við annað stærra og umfangsmeira mál, sem gerir það þyngra í vöfum. Ég veit ekki með vissu, hvort hv. samnm. minn í meiri hl. lítur á þetta eins og ég, en ég er þeirrar skoðunar, að skólar eins og Iðnskólinn og Verzlunarskólinn eigi ekki svo mikla samstöðu með gagnfræðaskólanum, að hentugt sé að reisa eina byggingu yfir þá alla. Ég skal að vísu taka það fram sem mína skoðun, að ég álít Iðnskólann og Verzlunarskólann svo hliðstæðar stofnanir, að vel mætti setja þá á sama bekk, en ég álít enga ástæðu fyrir ríkið að fara að taka þá nú algerlega að sér, þar sem þeim hefir verið haldið uppi af Iðnaðarmannafélaginu og Verzlunarmannafélaginu. Og þar sem segja má, að Iðnskólinn og Verzlunarskólinn séu nær því að vera sérskólar en alþýðuskólar, þá sé ég enga ástæðu til að setja þá í samband við framgang gagnfræðaskólamálsins.

Að endingu vil ég minnast á brtt., sem ég flyt einn við þetta frv. Sú brtt. er við 13. gr. frv. Í þeirri gr. er heimild til að setja skólagjöld, ef ástæða þykir til, á nemendur gagnfræðaskólanna. En ég er því mótfallinn. Ástæðan til þess er sú, að þessir gagnfræðaskólar eru í raun og veru áframhald af barnaskólunum. Gagnfræðaskólinn tekur 13 ára nemendur, þ. e. a. s. nemendur, sem eru á barnaskólaaldri. Mér virðist því, að það sé engin ástæða til að láta þá fremur borga skólagjald, sem kosta nemendur í gagnfræðaskóla, en barnaskóla. Það hljóta allir að sjá, að það er enginn eðlismunur á því að kosta barn í barnaskóla eða kosta það í gagnfræðaskóla. Þess vegna álít ég, að ekki eigi að leggja skólagjald á nemendur slíkra unglingaskóla, sem þessir gagnfræðaskólar verða í reyndinni. Það er reynsla fengin fyrir því, að foreldrum, sem þurfa að kosta börn sín til náms, verður það eftir því erfiðara, sem börnin verða eldri, upp til 18 ára aldurs. Þar eftir fer máske að verða léttir að vinnu þeirra fyrir heimilin. Ég sé því enga réttmæta ástæðu fyrir því að vera að taka skólagjald af börnum á aldrinum frá 13–18 ára. Ég hefi því lagt til í brtt. 295, að skólagjöld falli niður fyrir innanbæjarnemendur. Aftur á móti hefi ég ekki séð mér fært að láta þetta líka gilda fyrir utanbæjarnemendur af því að þegar er ákveðið með lögum um héraðsskóla, að þar skuli tekin skólagjöld. Það er líka ekkert aðalatriði. Kaupstöðunum er líka naumast skylt að borga skólahald fyrir utanbæjarnemendur. Mér er að vísu ekki ljúft að ganga inn á þá braut, en sé mér þó ekki fært að leggja til, að það verði fellt niður.

Ég hefi þá ekki ástæðu til að mæla fleira að sinni. Fæ líka máske tækifæri til að taka til máls síðar.