25.03.1930
Efri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

* Ég bjóst við því í fyrstu, að ég gæti orðið samferða hv. meiri hl. um afgreiðslu þessa frv., eins og um frv. um menntaskóla Reykjavíkur og Akureyrar. En samkomulagið strandaði, því miður, á afarlitlu atriði, sem gerð er grein fyrir í nál. mínu á þskj. 335. Það er sem sé alveg ljóst, þegar þetta mál er athugað, að þetta frv. felur ekki í sér neina verulega úrlausn. á alþýðuskólamálum Reykvíkinga. Það getur í mesta lagi skoðazt sem byrjun á úrlausn þeirra mála. Og þá væri óhjákvæmilegt skilyrði fyrir frekari úrlausn, að sú byrjun, sem ráðgerð er, hindri ekki framgang þess, sem verður að fást. Það hefir komið fram hvað hina kaupstaðina snertir, að bæjarstjórn Akureyrar hefir risið öndverð gegn því, að gagnfræðaskólinn á Akureyri verði gerður að ungmennaskóla. Bæjarstjórinn þar hefir sent mótmæli gegn þessu, samþ. með atkv. allra flokka í bæjarstj. Þeir mótmæla 19. gr. frv., sem er sérlöggjöf fyrir skólann á Akureyri. Og þegar Akureyringar geta ekki sætt sig við ákvæði frv., þarf engan að furða, þótt ákvæði frv. séu ófullnægjandi fyrir bæ eins og Reykjavík er, sem hefir áttfalt fleiri íbúa en Akureyri. Það er alveg auðséð á grg. frv., að hvað Reykjavík snertir, þá er sá hundavaðsháttur á undirbúningi málsins, að slíks munu fá dæmi, og það jafnvel í sögu síðustu þingára, og er þá mikið sagt. Er naumast leyfilegt að láta sumt slíkt frá sér fara og þar stendur. Þar er sagt m. a. — og er það næsta kátlegt —, að enginn alþýðuskóli hafi verið til í Reykjavík fyrr en „Ingimars“skólinn var settur á fót. Ég hefi í nál. mínu birt skrá yfir þá skóla, sem ýmist eru jafngamlir Ingimarsskólanum eða eldri. Og það er ekki nærri því 8. hluti af nemendum, sem sækir þann skóla, sem hæstv. stj. telur vera þann eina skóla hér. Það stendur að því leyti líkt á fyrir Reykjavík og Akureyri, að síðan 1904–1905 hefir Reykjavík haft sína gagnfræðadeild eins og Akureyri hafði sinn gagnfræðaskóla. Það er vitanlegt og sannað með tölum, sem legið hafa frammi, meðal annars af hæstv. dómsmrh., að gagnfræðadeild menntaskólans hefir á síðustu árum fyrst og fremst orðið gagnfræðaskóli fyrir íbúa Reykjavíkur, sem bezta aðstöðu hafa haft til að sækja skólann. Ég fyrir mitt leyti hefi ekki í meðferð þessara mála viljað halda í þá tilhögun, að þessu héldi áfram. Ég hefi a. m. k. eins snemma og aðrir og eins ákveðið bent á þann galla, að með þessu teygjast fleiri ungmenni Reykjavíkur inn á stúdentabrautina en æskilegt er. Það er síður en svo, að ég vilji halda í það fyrirkomulag. En það er jafnmikil ástæða hér og á Akureyri að gera þær kröfur um gagnfræðakennslu, er komi í staðinn og standi henni jafnfætis. Út í þetta hefi ég þó ekki farið í brtt. mínum. Ég hefi viljað fara svo vægilega, að aðeins byrjunin stefndi í rétta átt, og sú átt er einungis sameiginlegt húsnæði. Ég færði þau rök fyrir því máli í nál. mínu, sem hv. frsm. meiri hl. reyndi ekki að hagga við. Hér eru hátt upp í 400 dagskólanemendur og á fjórða hundrað kvöldskólanemendur, sem eru í húsnæðisvandræðum. Og að leysa það húsnæðisspursmál kostar tvöfalt erfiði, ef leysa skal það sérstaklega fyrir hvern aðilja. En sé byggð sameiginleg bygging fyrir alla, þá þarf ekki að byggja fyrir fleiri en sem dagnemendum svarar, því kvöldskólanemendur geta notað sama húsnæði. Ég hefi leitt rök að því í nál. mínu, að ef byggt er sérstaklega fyrir hverja tegund skóla, þá þarf að byggja yfir 700 nemendur alls. En ef sameiginlegt hús er byggt yfir þessa námsmenn, þá má komast af með húsrúm yfir 400 nemendur. Það er engum vandkvæðum bundið að nota sömu kennslustofur fyrir dag-og kvöldskóla. Iðnskólinn þarf að vísu dálítið sérstaklegan skólaútbúnað, en sá útbúnaður getur líka að nokkru leyti komið að notum fyrir hina skólana. Ef ein sambygging er gerð, má komast af með miklu minna húsrúm fyrir alla skólana. Svo er t. d. með húsnæði fyrir íþróttaiðkanir, kennarastofur og dyravarðarherbergi og slíkt. Hin eina skynsamlega ástæða, sem hægt væri að færa gegn þessu, væri sú, að varhugavert væri að hafa svona marga nemendur í einu og sama húsnæði. En sú ástæða kemur þó naumast til greina; þó byggt væri yfir 400 manns í sama skóla, er ekki komið að því hámarki, sem hæfilegt þykir um nemendatölu. Hitt má öllum vera augljóst, að fyrir bæ í jafnhröðum vexti og Reykjavík er, er ekki skynsamlegt að að byggja þrjá tiltölulega smáa skóla. Hvernig fer svo, þegar fólksfjöldinn vex? Þá þarf að stækka. Slíkt má máske gera einu sinni án mikilla örðugleika, en þegar þarf enn að stækka, þá koma fram óyfirstíganlegir örðugleikar. Hitt er betra, að hafa skólann í upphafi hæfilega stóran, stækka hann svo máske einu sinni, en ekki oftar. Ef svo vöxtur bæjarins heldur áfram, þá er að láta næsta stigið vera að byggja skóla annarsstaðar í bænum og gera þá víðtækari skiptingu en í fyrstu. Þetta stendur fyrir mér sem alveg augljóst mál. Með því að byggja fyrst gagnfræðaskóla, en láta allar aðrar skólastofnanir hér bíða, og verða síðar að leysa þær sérstaklega, er byrjuninni stefnt í ranga átt. — Ég var þó ekki kröfuharðari en það í n., að ég lagði til, að stj. yrði veitt heimild til að verja þessu fé til samskólabyggingar, ef samkomulag næðist milli aðilja, og þar á meðal við stj. sjálfa. En án þess að ég vilji segja mikið af þeirri sorgarsögu þessarar meinlausu uppástungu, fór svo, að þetta strandaði á einhverri andúð, sem ég veit ekki nánar um. Vona ég, að hæstv. dómsmrh. upplýsi það, því hann vildi ekki fallast á slíka heimild, þó hún yrði lögð í hans hendur. Hæstv. dómsmrh. hlýtur því að vera þeirri tilhögun svo andvígur, að hann vill ekki láta skína í neinar vonir. Ég sá því enga aðra leið en þá, að reyna að láta löggjafarvaldið taka af skarið, og hefi ég því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 336, sem gerir þó enga breyt. á fjárhæð úr ríkissjóði og bæjarsjóði, sem frv. ætlar til skólabyggingar; aðeins að því fé sé varið til sameiginlegrar skólabyggingar. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að með þessu væri samskólahugmyndinni blandað í þetta frv. Ég álít það ekkert hallmæli, því það er sú ein úrlausn, sem viðunandi er á skólamálum Reykjavíkur, sem enn hefir verið bent á. En hér er þó ekki farið svo langt, heldur aðeins lagt til, að sameiginleg skólabygging sé gerð fyrir þá skóla, er hér þurfa að starfa. Samt sem áður gætu þessir skólar verið með aðgreindri stjórn og aðgreindum kostnaði, en sá kostnaður yrði helmingi minni a. m. k. eftir því, hvort mín leið er farin eða hin. Það er því ekki rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að ríkissjóður yrði að taka meiri þátt í kostnaði við rekstur Iðnskólans og Verzlunarskólans, ef mínar brtt. yrðu samþ. Um það segir ekkert í frv. En þó það væri, þá væri það að vísu alveg rétt, því þessir skólar eru mjög afskiptir um framlag til skólahalds. Til samanburðar er skemmst á að minnast, að fyrir þinginu liggur nú frv. til l. um bændaskóla. Þar þurfa aðiljar ekki að leggja neitt á sig. Fé til þeirra er allt lagt fram úr ríkissjóði. Sama er að segja um Stýrimannaskólann og skólann fyrir vélstjóraefni. Ég held, að það sé naumast neitt teljandi skólahald hér á landi, sem haldið er uppi af öðrum en ríkissjóði og skólagjöldum nemenda.

Ég lít svo á, að með því að samþ. till. mína ákveði þingið ekki neitt annað en það, að ráða vel og hyggilega fram úr húsnæðisvandræðum skólanna hér. M. a. verður þetta miklu hagkvæmara fyrir ríkissjóðinn en sú leið, sem ráðgerð er í frv. Ef Iðnskólinn og Verzlunarskólinn reisa hús, þá verður áreiðanlega krafizt framlags úr ríkissjóði til þeirra bygginga sem annara skólabygginga í landinu. En allar þessar byggingar má framkvæma á miklu ódýrari hátt, með þeirri aðferð, sem ég bendi á.

Afstaða mín til málsins er því sú að þessu sinni, að beina byggingarkostnaðinum inn á skynsamlega braut, en láta svo framtíðina um að leysa úr hinum öðrum vandamálum. Ég get að svo stöddu látið mér nægja að vísa til nál. um þessa aðalbrtt. mína við 18. gr. Ég vil þó um leið drepa á það, að fallið hafa niður úr brtt. orðin „í Reykjavík“, annaðhvort hjá mér eða í prentsmiðjunni. Ég veit, að allir skilja þetta. Má bæta úr því við 3. umr., ef brtt. mínar verða samþ.

Um hinar brtt. mínar er það að segja, að sú fyrsta er lagfæring á frv. Sú málsgr., sem lagt er til að falli niður, er óþörf, þar sem atriðið, sem þar er ákveðið, á að fara eftir reglugerð, sem ráðuneytið setur. Þetta er því bara lagfæring. Hinar skal ég ekki fjölyrða um. Þær eru einnig lagfæringar, og hv. frsm. meiri hl. hefir auk þess mælt með þeim.

Þá er eftir eitt atriði, sem ég vil tala um, þótt ég hafi ekki gert brtt. við það. — Það er um 20. gr. frv. Mér þykir undarlegt, að jafnframt því, sem heimilað er að taka lán til stofnfjárgreiðslu samkv. þessum lögum, þá er og heimild í þessari gr. um að taka lán til héraðsskóla samkv. 1. nr. 37 1929. Mér kemur það nokkuð undarlega fyrir sjónir að sjá í 1. um gagnfræðaskóla heimild til að koma á öðru skólafyrirkomulagi. Þetta verður þó máske skiljanlegt, þegar þess er gætt, að búið er að verja miklu meira fé en heimild var til til þess að byggja á Laugarvatni. Það er sagt, að hæstv. dómsmrh. hafi orðið fyrir því óláni, að hæstv. fjmrh. hafi orðið að grípa fram fyrir hendur hans með fjárgreiðslur til þess skóla.

Mér kemur þetta undarlega fyrir sjónir. Mér þykir sem farið sé að gera fullmikið af því hin síðustu ár að strá lánsheimildum út um alla löggjöfina. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að þetta sé gert með það fyrir augum, að menn taki síður eftir því, ef heimildunum þannig er stráð hingað og þangað, en rumski fremur við það, ef allt er sett á einn stað og nefndar t. d. 12 millj. Ég hefi ekki borið fram neina brtt. í sambandi við þetta, en vil hinsvegar leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvað hæstv. stj., og þá sérstaklega hæstv. dómsmrh., álítur, að mikil upphæð felist í þessari lánsheimild 20. gr., og hversu mikið lán það leiði til að tekið verði, ef gr. verður samþ.

Um brtt. þær, sem hv. meiri hl. n. hefir borið fram á þskj. 294, hefi ég ekki annað að segja en að ég fylgi þeim öllum, nema einni, og hefi tekið þátt í orðun þeirra að meira eða minna leyti. Er það síðasta brtt. n., við 19. gr. frv., sem ég á engan þátt í, og hefi því óbundnar hendur um. Ég tel ekki rétt að fella 19. gr. niður, eins og þessi till. meiri hl. fer fram á, ef 18. gr. á að vera með sama sniði og hún er í stjfrv., eða svipuðu. Ég fæ ekki séð, að Akureyrarbæ sé vandara um í þessu efni en Reykjavík, og mun láta það ráða atkv. mínu að því er snertir 19. gr., hvort samkomulag fæst um lagfæringu á 18. gr. eða ekki.