16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það hefir orðið að samkomulagi meiri hl. fjvn., allra nema eins. hv. þm. Ísaf., að leggja til, að fjárlögin verði samþ. óbreytt að þessu sinni. Að vísu sé ég, að einn nm., hv. 3. þm. Reykv., hefir borið fram brtt., en ég get sagt það eftir viðtali við hann, að ef ekki verður búið að samþ. neina brtt., sem fyrir liggur, áður en kemur að hans till., mun hann taka hana aftur og standa með nm. um að breyta fjárl. ekki.

Þó að þetta hafi nú orðið að samkomulagi í n., lýsi ég yfir því, að það er alls ekki af því að hún áliti, að Ed. hafi meiri rétt til þess að ráða síðustu niðurstöðu fjárl., og ekki heldur af því, að n. vilji viðurkenna, að allar þær breytingar, sem hafa orðið í Ed., séu réttmætar, heldur af því, að mikill hugur er kominn í menn að flýta þinginu og það hefði mikinn drátt í för með sér, ef farið yrði að raska fjárl. á annað borð. Breytingarnar, sem n. hefði viljað gera, eru ekki það stórvægilegar, að hún telji borga sig að stofna til þeirrar tímatafar, sem það hefði í för með sér að koma þeim í gegn.

Þá skal ég minnast á nokkur atriði fjárlagafrv. frá sjónarmiði fjvn., sem hún er ekki ánægð með, þó hún sjái sér ekki fært að leggja til, að þeim sé breytt.

Í 12. gr. er veittur sérstakur styrkur til Hróarstungulæknishéraðs, til byggingar læknisbústaðar með sjúkrastofu. Eins og kunnugt er, hefir mörg undanfarin ár verið veittur styrkur til sjúkraskýla og læknisbústaða, og er það orðinn fastur liður í fjárl. Hefir honum verið úthlutað eftir föstum reglum, og hefir þetta hérað fengið styrk til sjúkraskýlis eins og önnur. Það er því brot á þeirri reglu, sem fylgt hefir verið í þessu efni, að veita Hróarstungulæknishéraði nú sérstakan styrk. Þetta verður n. að átelja. Sést ekki, að nein sérstök ástæða sé til að veita þennan styrk með tilliti til annara héraða, enda hefir það ekki einu sinni verið borið undir landlækninn.

Þá vil ég, fyrir hönd nokkurs hluta af n., minnast á nokkra liði, sem felldir voru niður í hv. Ed. Er það styrkur til Lúðvígs Guðmundssonar, styrkur til Hallgrímskirkju af 14. gr., rekstrarstyrkur til Mjallar í Borgarfirði af 16. gr. og styrkur til byggingar á Húsafelli af 13. gr. Með því að fella niður þessa 4 liði, hafa svo að segja allar fjárveitingar, sem ætlaðar hafa verið Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, verið þurrkaðar út. Hefir hv. fjvn. Ed. því gert vel hreint fyrir dyrum að því er þessar sýslur snertir. Virðist mér kenna nokkurrar hreppapólitíkur, nokkurs norðlenzks og austræns anda, í meðferð fjárl. í hv. Ed., þó hvergi hafi verið gengið eins langt í að ráðast á eitt hérað og þarna. Veit ég ekki til, að við hv. þm. Borgf. höfum neitt unnið til þess að fá slíkt kjaftshögg frá hv. Ed.

Þá hefir verið samþ. brtt. viðvíkjandi rannsóknarstofu háskólans, sem Níels Dungal veitir forstöðu. Er fjárveitingin til hennar aðeins færð á annan lið og ekki veitt á ákveðið nafn. Í nál. er skýrt frá, að ef til vill standi fyrir dyrum að fela sama manni forstöðu rannsóknarstofu ríkisins og rannsóknarstofu háskólans. Út frá því getur n. fallizt á, að þessi breyting sé réttmæt. En hún vill taka það fram, að hún telur Níels Dungal hafa sýnt það í meðferð sinni og rannsókn á alidýrasjúkdómum, að hann hefir mikið til brunns að bera á þessu sviði, og er starf hans þegar farið að bera nokkurn árangur. Leggur því n. áherzlu á, að hann verði látinn halda áfram starfi sínu á þessu sviði, a. m. k. meðan ekki er séð fyrir öðrum betri starfskröftum.

Hér í hv. Nd. var samþ. að veita til laxastiga í Lagarfossi 1/3 kostnaðar, eins og oft hefir áður verið veitt til samskonar framkvæmda. Nú hefir hv. Ed. fært þennan styrk upp í 2/5 kostnaðar. Svipað er að segja um laxastiga í Blöndu; fyrst var tekinn upp í fjárlfrv. 1/3 kostn. við það verk, en síðan var það einnig fært upp í 2/5 hluta. Þarna hefir hv. Ed. aftur virt að vettugi óskráð lög, sem fylgt hefir verið við fjárveitingar undanfarið. Er það illa farið, því í því moldviðri af styrkbeiðnum, sem fyrir Alþ. er lagt árlega, er ekki vanþörf á að hafa eitthvað af föstum reglum við að styðjast, ef nokkurt samræmi á að vera í fjárveitingunum og réttlæti milli þeirra aðila, sem eins stendur á um.

Þá hefir hv. Ed. tekið upp í 22. gr. heimild fyrir ríkisstj. til að láta reisa hressingar- og vinnuhæli fyrir berklasjúklinga á Reykjum í Ölfusi, og að taka til þess allt að 50 þús. kr. lán. N. er ekki kunnugt um, að neinn undirbúningur hafi farið fram, eða að þetta mál hafi verið nokkuð verulega athugað, og geta því ekki sumir af hv. nm. falizt á, að réttmætt sé að taka þessa lánsheimild upp í fjárl. nú.

Þá hefir hv. Ed. fellt niður talsvert af persónulegum fjárveitingum. Það er að vísu nokkur sparnaður, en hún hefir þá komið ýmsum öðrum svipuðum styrkjum inn í staðinn. Virðist þar hafa ráðið meiru um ýmiskonar hrossakaup en réttlætistilfinning. Hv. þm. í Ed. hafa þannig notað aðstöðu sína til að koma inn í fjárl. styrkjum til sinna skjólstæðinga, á kostnað þeirra, sem hv. þm. þessarar d. hafa borið fyrir brjósti. Verður n. að átelja það harðlega.

Þá reyndi hv. Ed. að jafna tekjuhalla fjárlagafrv. með því að hækka tekjuáætlunina. Er ekki hægt að telja það annað en hálfgerða hrossalækningu. Enda fer vel á því, að þar sem hrossakaup tíðkast, séu einnig viðhafðar hrossalækningar.