26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

91. mál, gagnfræðaskóli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það eru ekki nema tiltölulega fá orð, sem ég þarf að beina til hv. 3. landsk. Við erum víst sammála um meginhluta frv. Það er aðeins 3. brtt. hv. meiri hl., sem okkur greinir á um.

Ég vildi aðeins spyrja hv. þm., hvað hann telur unnið við að fella niður það ákvæði 4. gr. frv., að leyfi kennslumálastj. þurfi til að hafa 3. bekk í gagnfræðaskólunum; ég hefi ekki tekið eftir, að hann hafi minnzt á það atriði. Ég tel þetta að vísu ekki skipta sérlega miklu máli; það er dálítið kostnaðaratriði fyrir ríkissjóð, hvort hafðar eru 3 ársdeildir í skólum eða ekki. (JÞ: Ég talaði um þetta atriði í gær; hafi hæstv. ráðh. ekki heyrt það, get ég skotið því að honum utan fundar).

Aðalatriðið er það, að hv. 3. landsk. fellst á það almenna skipulag, sem í frv. felst, nema að því er snertir Reykjavík; fyrir hana vill hann fá meiri fríðindi. Þar vill hann láta ríkið binda sér á herðar skyldur við skóla, sem áður hafa verið á einstakra manna höndum. Eftir hans till. er alveg óbundið, hvað mikið aðrir aðilar geta krafizt, að ríkið leggi fram til þessara skóla. Ríkið yrði eftir þeim að leggja fram fé til Verzlunarskólans og Iðnskólans, þó ekki kæmi nema 10% annarsstaðar frá. Ef ekki væri látið að kröfum aðstandenda þessara skóla, væri gagnfræðaskólabyggingunni siglt í strand eftir 3. brtt. hv. 3. landsk. Hv. 3. landsk. hefir líka játað, að þetta væri pólitík gegn mér; andstæðingar mínir vildu ekki, að neitt væri lagt til skólabyggingarinnar fyrr en annar maður er kominn í kennslumálaráðh.sæti. Er það einkennileg ástæða hjá hv. 3. landsk., sem veit, að ég hefi verið miklu hlynntari skólamálum Reykvíkinga og gert miklu meira fyrir þau en hann sjálfur, þegar hann var ráðh. Ég hefi unnið að umbótum á þeim tveimur ríkisskólum, sem hér eru, og ég hefi komið í gegn frv. um eina eiginlega aþýðuskólann, sem hér er.

Sundhallarmálið hefi ég neyðzt til að berja fram gegn andstöðu margra flokksmanna hv. 3. landsk., sérstaklega meiri hl. bæjarstj. Ef litið er á skólamál Reykvíkinga, má segja, að aðaleinkenni á vinnubrögðum forráðamannanna hafi verið vanræksla og áhugaleysi. Hv. 3. landsk. datt ekki í hug að láta Menntaskólann hafa svo mikið sem skuggamyndavél, þegar um var beðið í hans ráðherratíð, og fóru þó tekjur ríkissjóðs það ár 8 millj. kr. fram úr áætlun. Barnaskólinn hefir verið yfirfyllur. Þar er ekkert bókasafn. Kennsluáhöld yfirleitt svo lítil, sem hugsazt getur, og öll aðbúð barnanna léleg. Þennan skóla hafa nú vinir hv. 3. landsk. haft undir sinni hendi.

Það, sem hv. 3. landsk. getur ásakað mig fyrir, er aðeins það, að ég hefi ekki verið eins sofandi gagnvart skólamálunum og íhaldið. Ég vil koma hér upp stórum gagnfræðaskóla fyrir pilta og stúlkur, og að sá skóli geti vaxið eftir þörfum bæjarins. Það virðist hv. 3. landsk. ekki vilja, því hann er nú búinn að játa, að hann vilji koma þessum fleyg inn í frv. til þess að stöðva skólabygginguna, a. m. k. í bili. Þurfti brtt. þó ekki skýringar við, því gr. skýrir sig sjálf.

Það er munur á því, hvernig Vestfirðingar hlynna að skólanum á Núpi, hvað Borgfirðingar, Þingeyingar og Árnesingar hafa lagt til sinna skóla, og svo aftur deyfðinni og svefninum gagnvart skólanum hér, þar sem íhaldið er í meiri hl. Ég hefi heyrt haft eftir borgarstjóranum hér og hv. 3. landsk., er hann var í bæjarstjórn, að allur þorri manna þyrfti ekki aðra fræðslu en að læra skrift og lestur. Það getur verið, að þessi ummæli séu eitthvað afbökuð, en þau eru í góðu samræmi við það, sem hv. 3. landsk. sagði um stefnu íhaldsmanna í fræðslumálum í Lögréttugreininni 1908. Ég sé, að hv. þm. brosir. (JÞ: Ég brosi að þeirri andlegu fátækt, sem lýsir sér í endurtekningunum). Það er eðlilegt, að umbótamenn leggi dálítið upp úr því, sem einn af helztu íhaldsheimspekingunum segir um sína eigin stefnu, er þeir játa opinberlega sekt sína og andlega fátækt. En það var svo sem ekkert í þessum ummælum hv. 3. landsk. um íhaldið, annað en það, sem allir vita; það er viðurkenndur sannleikur, að íhaldið hefir unnið hvarvetna á móti alþýðumenntun öldum saman.

Þessi eilífi sannleikur, sem hv. 3. landsk. tók upp eftir öðrum 1908, stendur óhaggaður enn. Með brtt. þeirri, sem hv. 3. landsk. flytur nú, og þeim ræðum, sem hann hefir látið fylgja henni, sannar hann enn einu sinni, að íhaldsmenn kæra sig ekki um alþýðuskóla. Þeir vita, að þeir kosta dálítið. Og ég veit ekki, hvort þeir álíta aukna alþýðufræðslu nokkra bót fyrir þá andans stefnu, sem þeir fylgja.

Í stuttu máli sagt: brtt. hv. 3. landsk. miðar að því, að ekki verði byggt yfir þann skóla, sem samþ. var fyrir 2 árum að stofna hér í Reykjavík.

Við hv. 3. landsk. erum víst ekki svo mjög ósammála um iðnfræðsluna í sjálfu sér, en ég tel, að Iðnskólinn hér í Reykjavík, Iðnskólinn á Akureyri og Iðnskólinn í Hafnarfirði eigi að fylgjast að. Mér finnst engin sanngirni í því að setja Iðnskólann hér skör hærra en hina. Mér þykir einkennilegt, að hv. 3. landsk. skuli halda því fram, að svo ólíkar ástæður séu hér í Reykjavík og á Siglufirði eða á Norðfirði, að ekki geti gilt sömu lög um almenna fræðslu hér og þar. Slíkt er ekki annað en höfuðstaðargorgeir, sem fellur um sjálfan sig, ef reynt er að rökstyðja hann. Það er eins og ef Englendingar segðu, að ekki mætti hafa samskonar barnafræðslu í London og Rochdale. Slíkt væri ekki annað en fjarstæða. Börnin eru eflaust lík í Reykjavík og á Siglufirði. Og járnsmiðir t. d. vinna víst mjög líka vinnu í Reykjav. og á Norðf. Á þessum stöðum eiga að vera alveg eins góðir skólar og hér. Ég veit vel, að hér í Reykjavík er mjög margt af svo skynsömu fólki, að því dettur alls ekki í hug, að það standi neitt ofar öðrum mönnum, og kærir sig ekki um nein hlunnindi fram yfir aðra landshluta.

Hv. þm. Ak. hrakti flestar þær ástæður, sem hv. 3. landsk. taldi til þess, að ríkið ætti að taka við verzlunarmenntuninni að svo stöddu. Ég held hann hafi þó gleymt að drepa á það atriði, hvort þjóðinni er nokkur hagur að því, að verzlunum og verzlunarfólki fjölgi í landinu.

Um þörfina á stærri skóla en til er nú fyrir kaupmannastétt landsins er það að segja, að til er fjöldi fólks, sem ekki vill vinna að erfiðri vinnu, — þess vegna er kaupmannafjöldinn í Reykjavík langt frá að vera blessun, heldur er það mesta böl Reykjavíkur og eitt stærsta böl landsins að hafa allt of stóra milliliðastétt, langt fram yfir alla þörf, til þess að dreifa vörunum. Það er þess vegna ákaflega langt frá, að verzlanir á Norðfirði og Siglufirði, sem hafa þennan 3. flokks rétt hjá hv. 3. landsk., eigi að borga skatt til þess að koma upp stofnun til þess að fjölga ennþá meir hinum óþörfu búðum í Reykjavík. Það er rétt út af fyrir sig, að þetta sé komið undir því, hvernig sala tekst á afurðum. En álítur hv. þm. kaupmannastéttina svo illa menntaða, að það stafi harðæri af því, að hún geti ekki selt nægilega vel? Við skulum ganga inn á, að hún sé það, og landið skaðist af því. En segjum, að það kæmu 2–3 heildsalar, sem hefðu yfirburðamenntun og seldu betur þess vegna, — myndi gróðinn fyrst og fremst ganga til almennings? Ég held, að hv. þm. hafi ekki verið með á nótunum í sinni ræðu. Því að það er dálítið annað, sem veldur því í landinu, að sannvirði vara kemur fram. Það eru ekki kaupmenn, heldur kaupfélögin. Þau hafa byggt upp allt það, sem gefizt hefir sæmilega í landinu til að tryggja afurðasöluna. Hann veit það kannske ekki, hv. þm., að smásöluverð á Íslandi lækkaði fyrir liðugum 50 árum um 25–30%, þegar kaupfélögin komu. Það voru danskir kaupmenn, sjálfsagt margir vel lærðir af dönskum verzlunarskólum, sem bjuggu svona að fólkinu. Sveitaverzlunin í landinu hvílir algerlega á kaupfélögunum og Sambandinu, sem ekki munu búast við að þurfa að fá menn frá verzlunarskóla kaupmanna til þess að selja fyrir sig. Þau hafa fullkomlega getað haldið á sínu, og meira en það, í þeim efnum. Einn hv. þm. þessarar deildar, ekki lakast menntaður og greindur maður, hv. 1. þm. G.-K., spreytti sig mikið á því hérna á árunum að keppa við kaupfélögin um sölu íslenzkra afurða. Hann sendi m. a. sauði til Englands, og er það eitthvert mesta hneykslið í allri sögu bændaverzlunar á Íslandi. Úr þessu fyrirtæki varð ekkert nema ófögnuður, bændur fengu sama og ekkert fyrir sauðina, og kaupmaðurinn skaðaðist sjálfur.

Nú má nefna annað. Hvernig gekk síldarverzlunin hjá þessum ágætu, sérmenntuðu mönnum? Það var allt í eymd og vesaldómi. Bankar töpuðu milljónum á síldinni, verkafólkið fékk ekki kaupið, útlendingar voru sviknir o. s. frv. Það varð því að gera lög og taka af þessum banka.

Hvað er um saltfisksöluna, stærstu verzlun, sem Ísland rekur nú? Það eru aðallega útlendir leppar, sem hafa hana á hendi. Meiri hl. heildsölunnar er framkvæmd af mönnum, sem ekki geta staðið í skilum með útsvar og eru í margföldum óskilum við bankana. Það er komið það orð á, að það geti enginn maður snert á saltfiski nema hann sé af þessu tægi.

Ég held hv. þm. ætti sannarlega að hugsa um það, hvernig hans stéttarbræðrum hefir gengið að fást við síldina og saltfiskinn, og bera það saman við afkomu sveitakarlanna, sem hjálpa sér sjálfir og hafa ekki þurft að vera upp á kaupmenn komnir um sölu sinna afurða né þurft að leita uppgjafa á sínum skuldum í bönkunum. Sannleikurinn er sá, að þessi stétt, sem hv. þm. er að mæla með sem sérstökum velgerðamönnum þjóðarinnar, hefir valdið megninu af þeirri fjárkreppu, sem er. Og það er alls ekki af því, að kaupmenn séu allir svo illa menntaðir eða heimskir, heldur eru þeir á skökkum vegi. Þeir „spekúlera“, þeir hugsa ekki um annað en að græða sjálfir.

Það var ekki af vöntun á bókfærslu, að Íslandsbanki gaf Copland 1200 þús. kr. Síðan hefir skuld hans vaxið um nokkur hundruð þúsunda. Hér er bara verið að vinna með skökkum aðferðum.

Hv. 3. landsk. skilur þetta víst ekki, enda er hann ekkert að hugsa um að koma á sjálfseignaverzlun fyrir almenning í staðinn fyrir braskið. En það fyrirkomulag mun á sínum tíma gera verzlun með sjávarafurðir heilbrigðari en nú og tryggja gróðann í hendur almennings.

Nokkur partur af ræðu hv. þm. laut að því, að snilld kaupmanna í að selja skapi árgæzku. Það hefir líka sýnt sig, eða hitt þó heldur. Ætli það sé ekki miklu fremur rétt, sem Jón Jacobson landsbókavörður sagði eitt sinn norður í Skagafirði, að leið Íslendinga til velsældar lægi yfir grafir kaupmanna. Þetta sagði þessi mæti flokksbróðir hv. þm.

Hv. þm. sagði, að bæjarstj. vildi ekkert gera fyrir almenna menntun í bænum, af því að meiri hl. hennar vildi ekki semja við mig. Hv. þm. vili því láta opna ríkissjóð upp á gátt fyrir iðnaðarmenn og kaupmenn alveg ótakmarkað. En samt sem áður mælir hann á móti till., að stj. megi hafa heimild til að taka lán og byggja. Nú eru í alþýðuskólanum hér tæplega 100 ungmenni. Í Reykjavík eru um 400 fermingarbörn. Við skulum rétt gera ráð fyrir, að öll fermingarbörn verði tvo vetur í unglingaskóla, þótt það sé vitanlega of ríflega áætlað, en það eru þá 800 ungmenni í einu. Svo kemur húsmæðrafræðslan í ofanálag, Iðnskólinn og Verzlunarskólinn, en að landið hafi ekki nema 20 þús. kr. í fjárlögum til þess að bæta úr þessari þörf.

Ég verð að segja, að þeir, sem eru með þeirri eyðslu t. d. að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum Íslandsbanka að órannsökuðu máli, þeir eiga ekki að bregða sér við það, þótt stj. hafi leyfi til að nota ca. 200 þús. kr. í skóla, sem eiga að geta staðið í margar aldir og sem knýjandi nauðsyn er að koma upp. Og ég get sagt það, að lítið þakklæti munu þeir þm. fá, sem hægja fyrst og fremst 6–7 kaupstöðum frá að njóta góðs af þessum lögum, og ennfremur Borgfirðingum, Mýramönnum, Vestfirðingum, Strandamönnum og Húnvetningum frá því að hafa gagn af því fé, sem þeir ætla til sinna skóla.

Hvers vegna á ekki að lofa Vestfirðingum að njóta þess, að þeir eru búnir að draga saman 30-40 þús. með súrum sveita? Og sama hafa gert Húnvetningar og Strandamenn, til þess að mennta sín börn. Þessir menn hafa sýnt framúrskarandi áhuga, sem stingur mjög í stúf við áhugaleysið hér í bænum. Væri það nokkur meining, að Alþingi segði, að það sé ekki nægur hemill á stjórnina, að það verður að leggja helming á móti frá bæjum og héruðum? Hv. þm. spurði, hvað það yrði mikil upphæð. Hvað miðar hv. þm. við langan tíma? En ég get sagt það, að þetta fer eftir því, hve mikið héruðin leggja fram. Borgfirðingar og Mýramenn ætla að leggja fram 80 þús. kr. í skóla í sumar. Strandamenn og Húnvetningar hafa lofað 35 þús. kr., Vestfirðingar um 40 þús. kr. Hér höfum við ákveðnar upphæðir, sem allar eiga fyllsta rétt á sér, að mætt verði af ríkisins hálfu. Hafnfirðingar hugsa sér á næsta ári að byrja að endurreisa Flensborgarskóla. Er ekki ósennilegt, að þeir mundu þurfa 30–40 þús. kr.

Ég hefi nú gert ráð fyrir 90 þús. kr. á þremur árum til gagnfræðaskólans hér. En ef till. hv. þm. eiga að ráða og bæta á við öllum mögulegum stofnunum, sem eru einkafyrirtæki og engin áætlun liggur fyrir um, þá er ómögulegt að segja, hvað mikið það kostar. Ég hefi talið upp þá, sem bíða beinlínis með sín framlög, til þess að ríkið rétti sína hönd á móti. En þetta getur komið til á næstu 4–5 árum. En ég álít ekkert góðverk gagnvart alþýðufræðslu landsins að játa þessi fórnfúsu héruð bíða meðan við hinsvegar ausum peningum í að byggja yfir Verzlunarskólann, sem kemur landinu ekkert við, en er atvinnustofnun hinnar fjölmennu kaupmannastéttar hér í bænum.