26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

91. mál, gagnfræðaskóli

Páll Hermannsson:

Ég hefði viljað minna á brtt. frá hv. þm. Ak. á þskj. 295. Hún er við 13. gr. þessa frv. og er um skólagjöld, að þau falli niður í gagnfræðaskólum fyrir íbúa þeirra bæja, sem skólarnir standa í. Á þetta atriði var minnzt í n., en ekki var fallizt á skoðun tilllögumanns eða röksemdir um þetta.

Það er nú svona með þessa skóla, að þeir eru bornir upp að nokkru leyti af ríkinu, en þó líklega að meira leyti af bæjunum sjálfum. Þess vegna þurfa þeir að sjálfsögðu á allmiklu fé að halda árlega. Þó að það gæti litið svo út, að það komi nokkuð í sama stað niður, hvort aðstandendur þeirra ungu manna, sem skólann sækja, greiði kostnaðinn með hluta af sínum útsvörum eða greiði skólagjöld fyrir sín börn, þá hygg ég, að undir sumum kringumstæðum yrði nokkur munur á þessu. N. er alveg sammála um, að sjálfsagt væri, að þeir fátækustu væru lausir við skólagjöld. Enda gerir frv. ráð fyrir, að alltaf verði helmingur nemenda undanþeginn skólagjöldum. Ég verð nú að álíta aðstöðumun þeirra, sem skólann sækja, svo mikinn, að þó að það sé ekki nema réttlátt að lofa sumum að losna við skólagjöld, þá sé líka réttlátt og sanngjarnt að láta þá, sem betur eru stæðir, greiða þau. Mér hafði nú dottið í hug að koma með breyt. einmitt um það að hækka ögn skólagjöldin. Nú er í gr. gert ráð fyrir, að skólagjöld innanbæjarnemenda verði 20 kr. fyrir stúlkur, en 40 kr. fyrir pilta. Þetta finnst mér það allra lægsta, sem hægt er að stinga upp á. En vegna þessa skoðanamunar í n. féll ég frá því, svona til samkomulags, en lét mér nægja það, sem stóð í frv. En hvað sem upphæð skólagjalds liður, þá finnst mér það liggja í hlutarins eðli, að það geti talizt fyllilega réttlátt að láta nemendur frá efnuðum heimilum greiða slík gjöld, enda þótt allir þeir fátækari séu undanþegnir.

Ég skal ekki blanda mér að öðru leyti neitt inn í þær löngu umr., sem fram hafa farið um þetta mál. Mér virðist eiginlega, að að sumu leyti sé gengið út fyrir frv. sjálft.

Ég hafði ekki beinlínis búizt við því, að hv. samnm. minn, 3. landsk., mundi skýra alveg svona nákvæmlega frá atriðum, sem áttu sér stað í n. En af því að rétt er skýrt frá, þá er náttúrlega ekkert við það að athuga. Hann skýrði rétt frá, að ég lét í n. það álit í ljós, að ég féllist á þau rök, sem hann þar bar fram viðvíkjandi því, hvort heppilegast og ódýrast mundi fyrir framtíðina hvað snertir byggingarkostnað að hafa hliðsjón af þeim stóru, almennu skólum, sem eru í Reykjavík. Þegar maður sérstaklega lítur á Gagnfræðaskólann og Iðnskólann t. d., þá virðist mér það augljóst, að þar sem annar er dagskóli, en hinn hlýtur að vera aðallega kvöldskóli, þá muni það að sjálfsögðu verða heppilegasta lausnin á húsnæðisþörf þeirra að taka tillit til þessa, þegar ráðizt verður í að byggja. Þetta virðast mér yfirleitt allir viðurkenna. Hæstv. stj. hefir a. m. k. að nokkru leyti látið þá skoðun í ljós, að svona bæri að líta á þetta. Mér virðist þarna um að ræða fyrirkomulagsatriði, sem ekki eru rannsökuð til fulls. Og ég treysti vel hæstv. stj. til þess að leysa þessi atriði skynsamlega, eftir að hún hefir látið það álit uppi, að þetta ætti að athugast og takast til greina. Ýms atriði í þessu efni hafa ekki komið skýrt fram, t. d. hvort byggja ætti eitt hús eða fleiri á sama stað. Þetta er mér ekki vel ljóst, enda hefi ég ekki beinlínis þurft að taka afstöðu til þess.

Ég fyrir mitt leyti hefði vel getað gengið inn á þá uppástungu, sem hv. 3. landsk. bar fram í n. En sökum þess, að hæstv. stj. hafði að nokkru leyti tjáð sig fylgjandi sömu stefnu, þá fann ég ekki ástæðu til að taka þessa skoðun inn í brtt., ég trúði hæstv. stj. vel til að ráða málinu til lykta. Af þessu leiðir svo aftur það, að ég get ekki fallizt á 3. brtt. hv. þm., þar sem hún gengur nokkuð lengra en uppástunga hans í nefndinni.