26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (2948)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

* Ég vil byrja með að þakka hv. form. menntmn., 2. þm. N.-M., fyrir þá viðurkenningu á stefnu minni í þessu máli, sem hann lét í ljós, bæði nú í ræðu sinni og í nefndinni.

Það getur vel verið, að það sé ekki alvenjulegt að skýra svo frá því, sem fram kemur í nefndum. En mér fannst sérstök ástæða til þess að þessu sinni. Ég er yfir höfuð ekki spar á að segja það, sem ég álít rétt að segja, en ég gæti þess eftir beztu vitund og getu að segja satt. Og það gladdi mig að heyra viðurkenningu hv. 2. þm. N.-M., að svo hafi ég gert í þetta sinn, þó að ég raunar þyrfti hennar ekki með.

Ég þarf lítið orðakast að eiga við hv. þm. Ak. Hann sagði á einum stað í ræðu sinni, að hann væri samþykkur því, að ríkið tæki að sér iðnmenntunina og verzlunarmenntunina. (EF: Ég sagðist vel geta gengið inn á það seinna meir). Já. Þá tel ég ekki, að neinn ágreiningur sé okkar á milli í þessu máli, sem vert er að gera að umtalsefni. Ég hefi ekki farið lengra en það, að ég hefi borið fram sem mitt álit, að ríkið ætti að styrkja og styðja þessa kennslu nokkru ríflegar en það hingað til hefir gert. En við hv. þm. Ak. getum eflaust mætzt einhversstaðar að því er snertir framlag ríkissjóðs til þessa, úr því að við erum sammála um höfuðatriðið. (EF: Ég vildi breyta allmiklu í kennslunni). Já, hvernig farið er að kenna, því ræður hver tími fyrir sig. Hver tími fullnægir þörfinni á þann hátt, sem hann álítur beztan. Og yfir höfuð er ég ekki sérlega hrifinn af því að setja í skólalöggjöf ítarleg ákvæði um það, hvað kenna skuli.

Hv. þm. reyndi að hrekja þetta með því að minna á framtak einstaklingsins, en um það er nú ekki hægt að tala í þessu sambandi, því að ríkið er nú farið að taka að sér skólana og reka þá alveg eins og póst og síma. Þegar svo er komið, að aðalþungi þessara mála hlýtur að hvíla á ríkissjóði, þá er það ljóst, að einstaklingurinn getur ekki keppt við alla þá skóla, sem ríkið rekur, án þess að fá til þess styrk frá því opinbera. Ég get látið mér það í léttu rúmi liggja, að hv. þm. sagði, að orð mín hefðu ekki sannfært sig, en ég vil þó vona, að við getum átt samleið síðar, þegar þessi mál koma næst til umr.

Ég vil ekki fara að stríða hv. þm. með því að fara að tala um alþýðuna og hverjir það séu, sem má kalla alþýðumenn, en mér kom það dálítið einkennilega fyrir sjónir, þegar hv. þm. fór að tala um, að iðnaðarmenn gætu ekki talizt til hennar, því að ég hélt, að hann væri sjálfur iðnaðarmaður. (EF: Hann er nú fleira en það).

Út af ræðu hæstv. dómsmrh. þarf ég ekki að eyða mörgum orðum, en vil þó segja það, að hafi maður verið í nokkrum vafa um, að hann væri ekki líklegur til að leggja gott til þessara mála, þá hlýtur sá vafi að vera horfinn, eftir að menn hafa heyrt ræðu hans. Hann heldur því fram, þrátt fyrir brtt. mína, að ég vilji útvega Reykjavík meiri fríðindi, en eins og hv. þdm. er kunnugt, hefi ég leitazt við að leysa málið á þann hátt, að útgjöld ríkisins aukist ekki sökum þessa.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri sökum pólitískrar andstöðu gegn sér, að bæjarstj. vildi ekki byggja, og að ég hefði sagt það. Þetta er auðvitað með öllu rangt, því að ég hefi aldrei hugsað þetta, hvað þá heldur að ég hafi sagt það. Hitt sagði ég, að hæstv. ráðh. væri svo ósamvinnuþýður, að menn kysu heldur að bíða eftir ráðherraskiptum eða stefnubreytingu hjá honum. Það er ekki af neinum pólitískum ástæðum, sem ég mæli gegn þessu frv., heldur af því, að ég álít það byggt á skökkum grundvelli, eins og ég hefi greinilega sýnt fram á.

Þá kom hæstv. ráðh. með ofurlítinn sjálfshólskafla að vanda, og sagðist hafa unnið miklu betur að skólamálunum en ég hefði gert, en til þess er því að svara, að það er engin furða, þótt hann hafi haft meiri afskipti af þeim málum en ég, þar sem hann hefir nú um alllangt skeið verið kennslumálaráðh., en það hefi ég aldrei verið. Hinsvegar skal ég benda á það, að hæstv. ráðh. hefir nú engum ósköpum að grobba af, þótt hann hafi verið viðriðinn stofnun unglingaskóla, að því er hann sagði. Ég hefi sjálfur stuðlað að því, að fjölmennasti unglingaskólinn á landinu var stofnsettur, en þar á ég við Iðnskólann.

Þá hældi hæstv. ráðh. sér af meðferðinni á Menntaskólanum og þeim umbótum, sem hann hefði látið gera þar, og það má vel vera, að hann geti talið þeim mönnum trú um, að hann hafi komið þar miklu góðu til vegar, sem ekki þekkja til skólans. Hinsvegar er það nú komið svo, að skólinn mun engin bæjarprýði, enda vil ég og allir þeir, sem vilja skólanum vel, tala sem minnst um ástandið þar eins og það er nú. Hitt er víst, að hæstv. ráðh. ferst ekki að tala mikið um ástandið í barnaskólanum, þegar eins er umhorfs í Menntaskólanum og þar er nú.

Ég hefi ekki komið með neinn fleyg til að stöðva þetta frv., heldur hefi ég aðeins bent á gallana og viljað endurbæta það, svo að það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að bera mér það á brýn, að ég standi á móti alþýðumenntun, en það sé hann, sem berjist fyrir henni á allan hátt.

Ekki hafði hæstv. ráðh. skilið staf af því, þar sem ég bar saman Reykjavík og Siglufjörð. Ég sagði, að það væri bein afleiðing af því, að Reykjavík væri höfuðstaður landsins, að þar hlytu flestir skólar að eiga aðsetur sitt; hitt er auðvitað alveg utan úr þokunni, þegar hæstv. ráðh. vill halda því fram að ég hafi sagt, að barnaskólarnir þurfi ekki að vera eins. Ég hefi haldið því gagnstæða fram, og eins hinu, að æskilegt væri, að unglingaskólar væru sem víðast á landinu, en þessi rangfærsla hæstv. ráðh. er auðvitað gerð í því augnamiði einu, að láta Tímann flytja rangar skýrslur út um sveitir landsins af því, sem gerist hér á þingi, og reyna að telja bændum trú um, að ég standi á móti menntun barna þeirra, en berjist fyrir sérréttindum Reykvíkinga.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að ég hefði sagt, að nauðsyn bæri til, að við fengjum vel menntaða verzlunarstétt, en þar gerði hann sig beran að andúð gegn henni og viðhafði þau orð, að hann kærði sig ekki um að fjölga búðum í Reykjavík. Hæstv. ráðh. getur ekki skilið það, að eftir því, sem menntun verzlunarstéttarinnar eykst, eftir því verða sett strangari skilyrði fyrir því, að mönnum sé leyft að reka verzlun, og því erfiðara verður fyrir menn að fá að setja upp búðarholur í Reykjavík og annarsstaðar, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Hæstv. ráðh. hefir því einnig misskilið þetta gersamlega, en satt að segja hefir hið opinbera ekki gert svo mikið fyrir verzlunarstéttina, að hægt sé að gera miklar kröfur til hennar. Ég veit það líka, að enginn þessara hv. þdm., nema hæstv. ráðh. — af því að hann hugsar öðruvísi en aðrir menn — ætlast til mikils af þessari stétt, sem hið opinbera hefir gert svo lítið fyrir, og þess vegna munu öll þau hnífilyrði, sem hæstv. ráðh, veitir henni, verða tekin sem markleysa ein. Hér er ekki verið að tala um þá menn, sem nú eru uppi, heldur framtíðina, en það er auðheyrt á orðum hæstv. ráðh., að fyrir honum vakir, að verzlunarstéttin sé óþörf, sökum þess, að þegar frjáls verzlun hverfi, muni verða séð fyrir mönnum í einokunarhreiðrin. Þarna er hæstv. ráðh. á sama máli og flokksbræður hans — sócíalistarnir —, en andvígur Framsóknarflokknum og yfirlýstum vilja hæstv. forsrh., sem vill stuðla að frjálsri verzlun, enda þætti mér einkennilegt, ef þessi ummæli hæstv. ráðh. ættu að standa í vegi fyrir menntun heillar stéttar um ókomin ár.

Auðvitað var það vitleysa hjá hæstv. ráðh., er hann sagði, að ég hefði boðizt til að taka við ráðherrastörfum í einn mánuð, en hitt sagði ég, að ég skyldi með ánægju vinna þetta verk fyrir hann, og er það í fullu samræmi við það, að flest þau verk, sem stj. lætur framkvæma, eru unnin í skrifstofum úti í bæ, en minnst af þessum verkum unnin í stjórnarráðinu.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, að ég væri á móti þeim kostnaði, sem 20. gr. felur í sér, en ég er nú ekki farinn að láta neitt uppi um það, heldur spurði ég aðeins, hvað vænta mætti, að sá kostnaður yrði mikill.

Hæstv. ráðh. svaraði því þannig, að alltaf mætti setja ákvæði, sem takmörkuðu útgjöldin, og nú bið ég eftir því, að hæstv. stj. leggi fram till. þess efnis.

Þá held ég, að ég hafi ekki fleira að segja að sinni.