26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

91. mál, gagnfræðaskóli

Jón Jónsson:

Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem ég sagði í gær, enda viðurkenndi hv. 3. landsk., að þetta mætti laga með lipurð á báða bóga, enda vona ég, að full samvinna fáist um skólamálin og byggingu handa skólunum.

Ég verð að segja það, að mér finnst það dálítið hæpið hjá hv. 3. landsk., að bæjarstj. Reykjavíkur vilji ekki semja við þann ráðh., sem nú situr við völd. (JÞ: Það sagði ég aldrei). Því hæpnara finnst mér þetta, þar sem þessi ráðh. hefir sýnt mjög mikinn áhuga fyrir skólamálum, og nú er von um, að samningar náist um beztu lausn málsins. Hinsvegar virtist hv. 3. landsk. vera hissa á því, hvað bæði ég og aðrir værum tómlátir um hag verzlunarstéttarinnar, einkanlega þar sem sú stétt væri næstfjölmennasta stéttin hér í bæ. Ef það er satt, að hún sé svo fjölmenn, þá verð ég að segja, að það er ákaflega sorglegt, og kostnaður við þennan verzlunarrekstur miklu meiri en þörf krefur. Þetta segi ég ekki af því, að ég vilji ekki, að verzlunin sé frjáls, en ég kýs samvinnuna frekar, því að eins og hæstv. dómsmrh. sagði, gefst hún yfirleitt betur. Hvað þeirri menntun viðvíkur, sem verzlunarmönnum er gefinn kostur á, þá verð ég að segja, að hún má teljast góð handa smásölum, en hinsvegar þurfa þeir haldbetri menntun, sem heildsalar eru og hafa mikil viðskipti við útlönd. Til þess er sérmenntun nauðsynleg, en þótt ég viti ekki, hvernig því er farið með heildsala, veit ég um hitt, að samvinnufélögin hafa veitt slíkum mönnum kost á frekari menntun, og hafa því öðlazt færa menn í þeirri grein. Hinsvegar getum við ekki veitt heildinni betri menntun eins og sakir standa, og því er sjálfsagt fyrir ríkið að njóta þess, að verzlunarskólarnir eru nú reknir sem einkafyrirtæki, og get ég því ekki fallizt á, að við höfum sýnt neitt tómlæti viðvíkjandi menntun þessarar stéttar, heldur þvert á móti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í gær, að það er eitur í mínum beinum, að ríkið sé að taka lán á lán ofan, svo að segja til hvers smáræðis, því að fjárhagsafkoman er það, sem allt veltur á. Slíkar lántökur mega ekki eiga sér stað nema í brýnni nauðsyn, og þá helzt þegar um arðberandi fyrirtæki er að ræða, og þegar ekki er nema um tiltölulega lítil útgjöld að ræða, sem vel má leggja fram, ef vel áraði, þá get ég ekki séð, að slíkt megi ekki bíða enn um stund. Mér virðist ekki hundrað í hættunni, þótt allir þessir skólar rísi ekki upp á einu og sama árinu, en er þakklátur hæstv. dómsmrh. fyrir áhuga þann, sem hann hefir sýnt í þessum málum.

Það er lagður grundvöllurinn og það er örugglega stefnt að því að koma þessu í framkvæmd, eftir því sem geta ríkissjóðs leyfir, og það finnst mér vera mjög heilbrigður grundvöllur. — Ég er frekar mótfallinn þessari lánsheimild, en ef fram kæmi, t. d. við 3. umr.; till. um einhverja ákveðna upphæð og sýnt fram á nauðsyn hennar, gæti ég kannske verið með henni.