26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Hv. 3. landsk. minntist á till. mína um breyt. á niðurfellingu á skólagjöldum í kaupstöðum og lýsti yfir því, að hann væri mótfallinn þessari brtt. Mér var kunnugt um það. En ég færði þær ástæður fyrir brtt. minni, að þar sem um unglingaskóla væri að ræða, þ. e. a. s. nemendurnir væru 13–16 ára unglingar, þá væru þeir á engan hátt færir um að leggja með sér þau skólagjöld, enda þótt þau væru ekki há. Og þar sem ríkissjóður og bæjarsjóður eiga að kosta þessa skóla, þá teldi ég ekki nema rétt, að bæjarsjóður kostaði skólann að öllu því leyti, sem ríkissjóður ekki kostar hann. Þetta var aðalástæða mín, að ég ekki taldi þessa nemendur færa um að greiða skólagjöld.

Ég býst ekki við, að þessi kenning mín hafi mikinn byr í þessari hv. d., ekki af því, að ég álíti hana ekki rétta, heldur af því, að þessari sanngirniskröfu hefir ekki verði tekið vel hér yfirleitt á undanförnum þingum. En þótt ég telji það frekar réttlætandi, að skólagjöld séu við þá skóla, þar sem þroskaðir menn ganga til mennta, þá gegnir allt öðru máli um þessa unglingaskóla.

Hv. 3. landsk. gerði ráð fyrir því, að það gæti orðið samkomulag okkar á milli um það, að ríkið tæki í sínar hendur rekstur verzlunar- og iðnskóla, og byggði það á ummælum mínum, þar sem ég hefði látið í ljós, að ég mundi geta gengið inn á þetta síðar meir. En ég lét það fylgja þeim ummælum, að ég teldi, að það ætti að breyta öllu um ætlunarverk þeirra skóla frá því, sem nú er, og ég get sagt hv. 3. landsk. það, að breytingarnar á þeim grundvelli séu sócíalistískar, og ef hv. þm. vill ganga inn á þetta með mér, sem ég bjóst við, að hann mundi renna grun í að lægi á bak við, þá er ég mjög ánægður með að hafa fengið svo sterkan og einlægan garp samkeppninnar yfir til okkar jafnaðarmanna, að ég gæti vel haldið einhvern dag helgan í tilefni af þessum sigri okkar jafnaðarmanna, og gæti sá dagur heitið Jónsmessa.

Hv. þm. hélt því líka fram, að þar sem nú væri kominn ríkisrekstur á skólamálin yfirleitt í öðru en þessum tveim greinum, væri sjálfsagt að taka ríkisrekstur líka á verzlunar- og iðnkennslu. Þetta er náttúrlega mjög skemmtileg yfirlýsing um það, hvað ríkisrekstur á þessu sviði hefir gengið vel, úr því að hv. þm. telur sjálfsagt að taka þetta úr höndum þeirra öflugu einstaklinga, sem hafa stjórnað þessu, og verð ég að lýsa ánægju minni yfir því, að hv. þm. heldur fram þessari skoðun.

Hv. þm. var að spyrja um það, hvort ég væri ekki iðnaðarmaður. Ég er það að nokkru leyti, en eins og stendur er ég að mestu leyti vinnuhjú nokkuð margra manna, sem hafa með samtökum sínum gert mig að framkvæmdarstjóra fyrir kaupfélagi þeirra. Það er nóg til þess, að ég tel mig meðal alþýðumanna, og ég er þar í vinnuhjúa tölu, þar vil ég vera og vonast til að fá að verða talinn með þeirri stétt, það sem ég á að fá að vera í návist hv. 3. landsk. hér í heimi.

Þá vildi ég segja fáein orð viðvíkjandi lántökunni, sem hv. 6. landsk. var að tala um. Ég held, að það sé hyggilegt að taka dálítið lán til byggingar þessara skóla, af þeirri ástæðu, að það mundi annars komast misjafnlega snemma af stað að stofna þessa skóla á hinum ýmsu stöðum, þar sem nú er fyrir sterk löngun hlutaðeigenda í þessu tilliti. Í raun og veru gerðist ekki annað en það, að í staðinn fyrir að leggja fram í næstu fimm ára fjárl. nokkra upphæð til skólanna, setjum svo, að byggðir væru 1–2 á ári, þú væri hægt að taka lán og byggja fyrir jafnmikið fyrsta árið og byggt væri fyrir á fimm árum. (JónJ: Væri það ekki eins um allar framkvæmdir?). Þetta gæti vitanlega átt við um allar framkvæmdir, en það getur verið jafnheilbrigt fyrir því, þótt það eigi víðar við.