15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

91. mál, gagnfræðaskóli

Jón Jónsson:

Það er dálítið einkennilegt, að hv. frsm. nefndarinnar gerir ekki grein fyrir þeim breyt., sem orðið hafa á frv. síðan það fór úr þessari hv. deild. Það er nú svo mikið annríki, að ekki er hægt að búast við, að menn geti fylgzt með, hverjar breyt. hafa á orðið, nema n. skýri það.

Ég sé nú, að hér hefir orðið allveruleg breyt. á frv. í einu atriði. Þetta ákvæði er um það, að ríkisstj. sé heimilað að, taka lán til stofnfjárgreiðslu að sínum hluta, og það ekki eingöngu til þessara skóla, gagnfræðaskólanna, heldur líka til héraðsskólanna.

Ég tel það mjög óheppilegt að setja þetta í lögin. Þótt skólar séu nauðsynlegir, finnst mér ekki ráð að stofna þá svo skjótt, að ekki verði tími til fyrir fjárveitingarvaldið að áætla nægilega upphæð til þess. En þrátt fyrir þetta vil ég þó ekki leggja til, að þetta verði fellt úr frv., þar sem hv. Nd. leggur svo mikið kapp á þetta.

Ég mun því greiða atkv. með frv., en í því trausti, að hæstv. stj. noti þessa heimild mjög varlega.