16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

1. mál, fjárlög 1931

Gunnar Sigurðsson:

Ég verð að taka undir það með hv. frsm. fjvn., að það er alveg ótækt að gera það að reglu að taka við fjárl. eins og hv. Ed. gengur frá þeim, og þótt samtök séu um að gera slíkt nú, þá má slíkt ekki, koma fyrir aftur. En mér finnst höggva nærri því, að hv. frsm. fjvn. gangi á móti sannfæringu sinni er hann leggur til, að fjárl. verði samþ. óbreytt.

Ég vildi beina hér nokkrum orðum til hæstv. forsrh., ef hann er við. Það má vera, að ekki eigi við að ræða um það atriði í sambandi við fjárl., en ég nota tækifærið af því að nú eru síðustu forvöð. Ég ætlaði að minnast á járnbrautarmálið. Ég er neyddur til að tala um þetta, af því að stj. hafði lofað að vegamálastjóri útvegaði skýrslu um málið, sem lögð yrði fyrir samgmn. En þótt ég sem form. samgmn. hafi þráfaldlega rukkað um skýrslu þessa, hefir hún ekki lengizt. Ég sá mér ekki fært að gefa út nál. einn. En ég treysti því, að þó að hæstv. stj. hafi ekkert látið í ljósi um það enn, hvort hún sé hlynnt járnbrautarmálinu eða ekki, þá komi það fram á næsta þingi. (SE: Stj. vill snjóbíl). Það er fjarri því, að ég álíti að bætt verði úr samgönguþörfinni með því móti. Ég mun taka járnbrautarmálið upp á næsta þingi, og það ætti að geta orðið sterkur leikur, þar sem málið er á stefnuskrá. Framsóknarflokksins. Ég óska, að hæstv. forsrh. svari mér, hvað dvalið hefir skýrsluna.

Ég hefi flutt hér brtt. um lítinn ritstyrk til Odds Oddssonar. Þessi maður hefir sýnt ágæta rithöfundarhæfileika og hefir verndað margt merkilegt frá gleymsku úr menningarsögu þjóðarinnar, svo sem um fiskveiðar, ferðalög, kolagerð o. fl. Þessar greinar hans hafa sýnt afburða fræðimanns- og höfundarhæfileika, og vona ég, að þó að þessi brtt. kunni að falla nú, þá verði hún samþ. á næsta þingi.

Ég mun láta hv. 3. þm. Reykv. um að mæla með till., er við flytjum saman um styrk til Kvenfélagasambands Íslands. Er mikil nauðsyn á, að þingið veiti þessu sambandi einhvern styrk, því að ekki eru svo margir, sem skipta sér af högum húsmæðra hér á landi. Þyrfti þó að veita þeim ýmsa fræðslu og leiðbeiningar, m. a. í garðrækt og matartilbúningi, eins og að vísu þegar hefir verið gert í smáum stíl.