29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

369. mál, héraðsskóli

Flm. (Hannes Jónsson):

Ég held enginn hafi skilið þá löggjöf, sem sett var í fyrra um héraðsskóla, á þá leið, að það ætti ekki að breyta neinu um héraðsskóla frá því, sem þá var samþ. Og ég vil benda á það, að þegar þetta mál var á ferð í fyrra, þá var það vitað, að mikill áhugi var um slíka skólastofnun bæði í Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu. En það, sem vantaði til þess að skóli þeirra yrði upp tekinn í löggjöfina, var það, að ekki var búið að ákveða skólastaðinn frá hálfu þessara héraða. En nú hefir svo giftusamlega tekizt, að sýslurnar eru báðar orðnar sammála um það, hvar skóli þeirra sé bezt settur. Og þessi staður er einmitt fundinn þar, sem ríkið á nokkurt land, sem það getur lagt til skólans. Ég hefi líka minnzt á það, að á stóru svæði þar nyrðra er alveg héraðsskólalaust, og langt til næstu héraðsskóla, annaðhvort norður í Þingeyjarsýslu eða vestur í Ísafjarðarsýslu, eða þá á Suðurlandi. (PO: Suður í Borgarfjörð er örstutt. Það má þjóta þetta á þremur tímum í bíl). Vera má, að hv. þm. Borgf. mæli á móti frv. af því, að hann óttist minni aðsókn að skólanum, sem er í Borgarfirði. Það er ekki nema virðingarvert, þótt hann vilji draga sem mest fram hlut þess skóla, en þó finnst mér hann verði að taka tillit til þeirra, sem vilja efna til skóla hjá sér fyrir norðan. Sérstaklega hefir þetta orðið brennandi áhugamál Strandamanna um langan tíma. Þeir hafa jafnvel verið að hugsa um að byggja skóla norður í sýslu. En af því að svo vel gekk samvinna við Vestur-Húnavatnssýslu, eru þeir afhuga því, enda er skólinn prýðilega settur á takmörkum sýslnanna, við gnægð af heitu vatni og sléttum völlum.

Þegar nú báðar þessar sýslur taka svona höndum saman, þá sé ég ekki annað en það sé skylda þings og þjóðar að mæta þeim, alveg á sama hátt og öðrum héruðum, þar sem þörf var á skóla. Það væri annað mál, ef farið hefði verið fram á að reisa héraðsskóla rétt við hliðina á öðrum slíkum. Og ég get fullvissað hv. þm. Borgf. um það, að hans skóli mun áreiðanlega fá næga aðsókn, þótt þessi skóli rísi þarna fyrir Húnvetninga og Strandamenn. (PO: Þeir eru margir að norðan nú á Hvítárbakka). Þangað fer vitanlega fjöldi þeirra ungu manna, sem sækja mundu skólann nyrðra, ef hann yrði reistur. Að undirbúningur þessa skóla sé skemmra á veg kominn en skólamál Rangæinga, get ég enganveginn fallizt á. Enda er hér um að ræða endurreisn á gömlum skóla fyrir Strandamenn, sem Vestur-Húnvetningar vilja einnig gera að sínum skóla, og jafnvel Austur-Húnvetningar líka.

Úr því að ósk hefir komið fram um, að frv. gangi til n., þá er ég því samþ., en með allt öðrum forsendum en hv. 1. þm. Rang. Ég tel sjálfsagt, að frv. sé vísað til menntmn. og treysti því, að hún muni mæla með framgangi þess.