05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

369. mál, héraðsskóli

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Menntmn. hefir öll orðið sammála um að mæla með þessu litla frv. á þskj. 369. Hún telur það í alla staði sanngjarnt, að einn héraðsskóli komi á þessu svæði. Þessi fyrirhugaði ungmennaskóli á Reykjum í Hrútafirði mundi liggja fyrir sókn af svæðinu milli Núpsskóla að vestan og Laugaskóla að austan, en á því svæði er enginn venjulegur unglingaskóli, nema aukadeildin við skólann á Hólum.

Allt virðist mæla með því, að á Reykjum verði einnig lögfestur unglingaskóli. Allar líkur benda til þess, að staðurinn sé vel valinn, bæði vegna samgangna og jarðhita þess, sem þar má nota; ennfremur er hann svo í sveit settur, að auðveldlega verður til hans náð úr mörgum héruðum.

Ég ætla ekki að sinni að fjölyrða frekar um þetta mál, enda hygg ég, að flestum hv. þdm. sé eigi óljúft að styðja það og greiða götu þess út úr þinginu.