05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

369. mál, héraðsskóli

Jón Sigurðsson:

Ég sé ekki neinar upplýsingar um þetta í nál., en ég vildi þó benda á, að hér er um ekki alllítið fjárhagsmál að ræða fyrir ríkissjóð. Og það er því meiri ástæða til að vekja athygli á þessu, að varla er nokkurt mál, sem til útgjalda horfir, rætt svo, að flm. þessa frv., hv. þm. V.-Húnv., spretti ekki upp úr sæti sínu eins og stutt sé á fjöður til að mótmæla. Það eru ekki alllítil gjöld, sem koma til að hvíla á ríkissjóðnum vegna þessarar lagasetningar. Reynslan, sem fengin er um byggingarkostnað þessara skóla, er sú að Laugaskóli hefir kostað ríkissjóð um 80 þús. kr. og Suður-Þingeyjarsýslu annað eins, eða samtals um 160 þús. kr. Til Laugarvatnsskóla er, eftir því er ég bezt veit, búið að borga beint úr ríkissjóði h. u. b. 200 þús. kr., og þó er sagt, að mikið sé þar enn ógert. Ég veit að vísu ekki, hvað þessi skóli, er hér um ræðir, er hugsaður stór, því um það sjást engar upplýsingar. En ég get búizt við, samkv. fenginni reynslu, að framlög ríkissjóðs verði ekki undir 100 þús. kr. Ég er ekki þar fyrir að leggjast á móti þessu frv., en ég tel réttara, fyrst nefndin hefir látið það ógert, að benda á, að það er ekki alveg nóg að samþykkja slíkt frv., heldur útheimtir það allmikla fjárgreiðslu úr ríkissjóði á sínum tíma.