05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

369. mál, héraðsskóli

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki fyrir mér frv. um þessa símalínu, sem hv. þm. V.-Húnv. er að tala um. Ég man ekki, að það sé á dagskrá. (Forseti JörB: Nei; það er ekki á dagskrá). Nei, ég átti von á því. Ég held, að ég hafi skilið nóg í hjali hv. þm. V.-Húnv. til að fá að vita, að ég eigi að hafa lofað flokksbróður mínum norður í Húnavatnssýslu að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkv. með nýrri símalínu norður þar. Það er ekki venja í Sjálfstæðisflokknum, að einn maður geti gert þannig samning, að allur flokkurinn skuli greiða atkv. á tiltekinn hátt. Hv. þm. V.-Húnv. hefir því farið með staðlausa stafi, hvort sem það er vísvitandi eða ekki.