05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

369. mál, héraðsskóli

Hannes Jónsson:

Þegar núv. hv. þm. Dal. var fyrst í kjöri í Dalasýslu, sagði einn sterkasti stuðningsmaður hans, að íhaldið væri alveg eins og sótugur eldhússtrompur. Íhaldmennirnir eru nú að skríða út úr þessum eldhússtrompi og eru að vonum jafnþrifalegir og aðrir þeir, er við slík störf fást. (HK: Var strompurinn ekki skotinn niður?). Jú, íhaldsstrompurinn var skotinn niður við síðustu kosningar og kemur aldrei upp aftur að eilífu. Mér þótti hv. þm. Borgf. vera ærið stórorður og óþarflega, þótt ég svaraði því, sem á mig var yrt. En hann fer sjálfur með algerlega ósatt mál, og það gegn betri vitund, þegar hann segir, að ég hafi greitt atkv. móti öllum vegalagabreyt. í kjördæmum andstæðinga minna. Ég greiddi t. d. ekki atkv. móti vegum í Skagafirði, og eru þó þm. þess kjördæmis áreiðanlega ekki flokksmenn mínir. Hv. þm. getur því gjarnan notað á sjálfan sig þann ósannindastimpil, er hann vildi setja á mig. Hv. þm. ætti sem minnst að tala um bryggjurnar í sambandi við hafnargerðir, því sú ósanngirni, sem hann og ýmsir flokksmenn hans hafa sýnt þeim héruðum, sem vilja hlífa ríkissjóði við óhóflegum fjárframlögum með því að láta sér nægja bryggju í staðinn fyrir höfn, verður seint af honum skafin. Ef hv. þm. hefði getað bent á, að ég hefði verið á móti fjárframlögum til bryggjugerða í önnur héruð en mitt, þá hefði hann getað með fullum rétti ásakað mig fyrir hlutdrægni, en það gat hann ekki og því eru ummæli hans einskis verð og honum einum til vansæmdar.

Vegna þess að hv. 2. þm. G.-K. bar mér það á brýn, að ég færi með ósatt mál, þá vil ég reyna að róta dálítið upp í minni hans og vita svo, hvort hann ber mér á brýn, að ég fari með ósannindi. Í fyrra, þegar búið var að fella brtt. mína og ég sá, að hv. 2. þm. G.-K. hefði greitt atkv. gegn henni, þá gekk ég til hv. þm. og sagði ósköp kompánlega við hann: „Heldur þú ekki, að Eggert Levy þakki þér fyrir þetta“. Þá sagði hv. þm.: „Ja, hver andskotinn! Ég hélt, að ég hefði lofað að vera á móti því!“ — Ég sé, að hv. þm. hristir höfuðið. En hann má gjarnan hrista það yfir þessu, þangað til það dettur af honum, því þetta, sem ég segi, er satt. Ég vil nú alls ekki segja, að það hafi verið rétt af hv. þm. að lofa neinu, en fyrst hann gerði það, þá átti hann líka að efna loforð sitt.

Það er einnig alrangt, að ég berjist eingöngu fyrir fjárframlögum til míns kjördæmis, en sé á móti þeim til allra annara kjördæma. Fyrir mitt eigið kjördæmi hefi ég einmitt verið mjög hæverskur um fjárkröfur. (Forseti: Athugasemdin er búin!). Já, hún er búin, en þegar á mig er ráðizt með óskammfeilni og ruddaskap, þá verð ég að bera af mér sakir. En það má um þessa hv. þm., einkum hv. 2. þm. G.-K., segja, að af gnótt hjartans mælir munurinn. Óskammfeilni, ruddaskapur og ósannindi eru hans innsta eðli. Og þau orð, sem hann mælir til að skerða mannorð annara, falla á hann sjálfan. (Forseti: Hv. þm. verður að hætta!). Já, þm. mun hætta. En ég hefði getað síðað hv. 2. þm. G.-K. það sem eftir er fundartímans, og hann hefði haft gott af því.