12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég býst við því, að hv. þm. hafi þótt nál. fjvn. nógu skýrt, því að minnsta kosti nokkuð mikill meiri hluti hv. þdm. virðist ekki hirða um að afla sér frekari fræðslu um brtt. þær, er fyrir liggja. Það sýna hin mörgu auðu sæti. Ég verð þó að fylgja þeirri venju að láta nokkur orð frá hálfu fjvn. fylgja brtt. hennar.

Það er ætlazt svo til, að ég byrji á 14. gr. fjárlfrv. Verður þá fyrst fyrir brtt. 25 á þskj. 229. Er hún um það, að laun biskups séu talin 8.800 kr. í stað 8.600, eins og það er í frv. Það er þó ekki meining fjvn. að fara að hækka laun biskups um 200 kr., þótt þess væri máske full þörf. Heldur er þetta leiðrétting á misritun, sem átt hafði sér stað.

Þá er það 26. brtt., við 14. gr. A. b. 6. Nýr liður: Til byggingar Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, fyrsta greiðsla af þremur, 3.000 kr. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefir á undanförnum árum verið unnið að því að safna fé í því augnamiði að reisa kirkju í Saurbæ, sem helguð sé Hallgrími Péturssyni, sálmaskáldinu góða og nafnkunna. Hefir safnazt í þessu skyni um 23 þús. kr. Er í ráði að hefja þessa byggingu næsta sumar og er ráðgert, að kirkjan muni kosta 45 þús. kr. Nú hefir þess verið farið á leit, að þingið veitti til þessa 10 þús. kr. Fjvn. vildi verða vel við þessari beiðni og vildi fyrir sitt leyti leggja til, að veittar yrðu 9 þús. kr., og væri greiðslunni skipt niður á þrjú næstu árin, eða 3.000 kr. á ári.

Þá kemur næst til skjalanna gamall kunningi, þar sem 27. brtt. er, 1.000 kr. til kennslu í söng við háskólann. Þessi fjárveiting hefir um hríð verið veitt, enda þótt stj. hafi aldrei fengizt til að taka hana upp í frv. sitt. Fyrir þessa upphæð fer fram kennsla vegna prestefna í tóni og söng. Þessi kennsla er talin nauðsynleg, og ég hygg, að flestir verði að viðurkenna það, að hátíðlegra sé, að prestar séu færir um að tóna. Árangur af þessari kennslu er sagður mjög góður.

Þá kemur enn nýr liður, 5.000 kr. til N. P. Dungals til forstöðu á rannsóknarstofu háskólans. Eins og kunnugt er, þá er Dungal dócent við háskólann, en hefir einnig búið sig undir að veita rannsóknarstofu háskólans forstöðu og hefir gegnt því starfi í nokkur ár. Upphaflega var hann ráðinn svo, að hann fengi borgun eftir taxta fyrir þetta. En eftir stjórnarskiptin síðustu varð sú breyt. á, að hann gæfi 20% afslátt af þeim taxta. Nú hefir staðið í nokkru þófi um samninga um borgun fyrir þetta starf milli heilbrigðisstj. og Dungals, og var ekki föst niðurstaða fengin, þegar þing kom saman. Dungal sendi því erindi til fjvn. um þetta, ásamt meðmælum frá háskólaráði og læknadeild háskólans. Þetta erindi var svo sent landlækni til umsagnar, og lagði hann eindregið til, að þessari beiðni væri sinnt. N. tók því þetta upp hér um bil óbreytt. Aðeins setti hún 5.000 kr. í stað þess, að beðið hafði verið um 6.000 kr. Er það einróma álit fjvn., að þetta beri að veita. Starf rannsóknarstofunnar er svo mikilsvert, að það má ekki að neinu leyti niður falla. Sömuleiðis er Dungal talinn vel fallinn til að standa fyrir stj. hennar.

Þá er nýr liður til stúdentagarðs, endurveiting, 25 þús. kr. Það er kunnugt, að stúdentar hafa staðið fyrir því nokkur undanfarin ár að safna fé til stúdentagarðs í Reykjavík. Það hefir gengið vel fram að þessu og er þegar búið að safna hátt á annað hundrað þús. króna. Það er búið að gera teikningu og áætlun um kostnað við byggingu stúdentagarðsins, og er gert ráð fyrir, að hann kosti hátt á 4. hundrað þús. kr. Nú hefir Alþingi áður lofað til þessara framkvæmda 100 þús. kr. Þannig stóðu í fjárlögum 1927 50 þús. kr., 1928 var 25 þús. kr. veiting og sama upphæð í fjárlögum fyrir 1929. En af því að ekki var hafin bygging hússins, þá fór það svo, að þetta fé var ekki hafið, og hefir það þannig misst gildi sitt í fjárlögum, svo að stúdentar eiga engan kröfurétt á því. En form. byggingarnefndar stúdenta skýrði n. frá því, að það hefði orðið að samkomulagi við fyrrv. fjmrh. (Magnús Kristjánsson) að láta þetta fé liggja þarna, þangað til bygging væri hafin og þeir fengju það út í einu lagi. Þess vegna fóru stúdentar fram á, að veittar væru á þessu ári þær 75 þús. kr., sem áður hafa staðið í fjárlögum samtals og þeir hafa rétt til. N. gat ekki orðið við þessari kröfu, en hinsvegar féllst hún á að veita í fjárl. næsta ár 25 þús. kr. Hæstv. fjmrh. mun hafa lofað að greiða út þær 25 þús. kr., sem standa í fjárl. fyrir 1929, og sömuleiðis mun hann hafa dregizt á að borga aðrar 25 þús. fyrir árið 1930, enda þótt það standi ekki í fjárlögum. Þá koma þessi 25 þús., sem gert er ráð fyrir að veita 1931, og eru þá ekki eftir nema ein 25 þús. af þeim hundrað, sem Alþingi lofaði. Þau mundi frekar hægt að láta bíða til ársins 1932, þar sem þessar 75 þús. kr. yrðu áður komnar í hendur stúdentanna, sem fyrir byggingunni standa. Ég held, að þetta sé miðlunartill., sem una megi við.

Þá eru námsstyrkir samkv. till. menntamálaráðs. Eins og hv. þm. muna, var sú regla tekin upp á síðasta þingi, að í staðinn fyrir það, að ýmsum einstökum stúdentum hafði áður verið veittur námsstyrkur, bundinn við þeirra nöfn, var það fært út af fjárl. og menntamálaráði fenginn réttur til að úthluta þessum styrkjum. Í núgildandi fjárl. er þessi styrkur 12 þús. kr. Stj. hefir ekki gert ráð fyrir nema 10 þús. kr. En eftir bendingu frá menntamálaráði féllst n. á, að ekki væri hægt að komast af með minna en síðastl. ár; því að það má segja, að styrkurinn sé fastur. Þeir, sem einu sinni fá hann, hafa hann, þangað til þeir hafa lokið sínu námi.

Þá kemur hér nýr tölul. við 14. gr. B. VI. b. 3., til áhaldakaupa fyrir stýrimannaskólann. Forstöðumaður skólans kom á nefndarfund og bar upp sína kveinstafi, að stýrimannaskólinn væri mjög á eftir tímanum um allan útbúning og kennslutæki. Hann gerði n. nokkuð ljósa grein fyrir, að svo mundi vera, því að þar er víst nokkurskonar forngripasafn af kennslutækjum. N. féllst á, að svo mætti ekki búið standa, að þessi þarfa og merkilega menntastofnun sjómannastéttarinnar væri látin verða jafnlangt á eftir tímanum og nú er í þessu efni. Við undirbúning þeirra manna, sem þar læra undir sitt ábyrgðarmikla starf, eru góð kennslutæki bráðnauðsynleg. Forstöðumaðurinn færði fjvn. lista yfir þau áhöld, sem helzt þyrfti að kaupa, og hún féllst á að veita helming þeirrar upphæðar, sem hann fór fram á, 10 þús. í staðinn fyrir 20 þús. kr. Eitt áhaldið, sem er til þess að prófa skekkju á áttavita og kostar helming alls þess, sem farið var fram á, 10 þús. kr., álitum við nefndarmenn að frekar yrði að bíða, ef skólinn fengi öll hin.

Þá kemur verkleg fræðsla. Fyrir 4 þús. komi 5 þús. Þar af á eitt þús. að ganga til Jóns Sigurðssonar stúdents, til að læra nýjustu aðferðir við járnbenta steinsteypu. Þessi liður hefir staðið í fjárl. undanfarið og jafnan verið veittur ýmsum iðnaðarmönnum til framhaldsnáms erlendis. Nú hefir þessi maður, sem er sonur Sigurðar fyrrv. fangavarðar, tekið upp nám í þessari grein fyrstur Íslendinga, sem sé sérnám við járnbenta steinsteypu. Og eins og kunnugt er, þá er það þetta byggingarefni, sem nú er langmest farið að nota hér á landi á síðustu árum í stórhýsi, brýr og við ýmis önnur fyrirtæki, svo að full nauðsyn virðist, að landsmenn reyni að fylgjast vel með öllum nýjungum á þessu sviði. Og þær skemmdir, sem fyrir hafa komið í stórbyggingum hér í Reykjavík, benda okkur í þá átt, að það sé full nauðsyn að vanda betur til þeirra bygginga, sem reistar eru úr þessu efni.

Þá koma hér tveir liðir, við 14. gr. B. XII. 1. b. og 2. a. Það eru fjárveitingar til kvennaskólanna í Reykjavík og á Blönduósi. Styrkurinn til þessara tveggja skóla er aðeins hækkaður upp í það, sem hann er nú og hefir verið undanfarið. N. barst erindi frá báðum um hækkun, og meiri hl. féllst á, að ekki væri sanngjarnt að skera þetta niður, úr því að það hefir verið í fjárl. undanfarið.

Þá kemur nýr liður, til gagnfræðaskóla Reykjavíkur, 3 þús. kr. Allir þekkja þennan skóla, svo að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um málið. Í núgildandi fjárl. hefir skólinn 2 þús. kr., en stj. hans fór fram á hækkun upp í 4 þús., en n. féllst á 3 þús. kr. Skólinn starfar í fjórum deildum, og nemendur eru 85. Kenndar eru allar sömu námsgreinar og í gagnfræðadeild menntaskólans. Þegar á allt þetta er litið, virðist ekki ósanngjarnt, að ríkið styrki skólann með þessari upphæð, sem hér er farið fram á. Hún er ekki nema lítill hluti af því, sem skólinn mundi kosta, ef þessir nemendur hans tilheyrðu allir gagnfræðadeild menntaskólans.

Þá koma hér tveir liðir, sem ég vil taka saman, til húsmæðrafræðslu á Hallormsstað, B. XV. 1, og B. XV. 4, sem er styrkur, er ætlaður var frú Sigrúnu Blöndal. N. leggur til, að sá síðari liður falli burt. Það er þannig til komið, að Sigrún Blöndal hefir undanfarið haft með höndum húsmæðrafræðslu í Mjóanesi og fengið 1.500 kr. styrk á yfirstandandi ári. Stj. hefir tekið þann sama styrk upp í fjárlagafrv. En svo barst fjvn. erindi þar að austan um það, að veittur væri frekar styrkur til húsmæðrafræðslu á Hallormsstað. En þann skóla var byrjað að byggja í sumar, og verður haldið áfram að byggja, þannig að skólinn geti tekið til starfa á næsta hausti. Sigrún Blöndal er ráðin þar forstöðukona, svo að styrkur hennar fellur niður, en flyzt yfir til húsmæðrafræðslunnar á Hallormsstað.

Þessi skóli er alveg hliðstæður húsmæðraskólanum á Laugum, bæði um byggingu og rekstur. Ríkið leggur fram helming byggingarkostnaðar þessara skóla og 5 þús. kr. rekstrarfé til húsmæðrafræðslunnar á Laugum. Þess vegna er ekki nema sanngjarnt, að húsmæðraskólinn á Hallormsstað njóti þess sama styrks, sem hinum skólanum er ætlaður í fjárl. fyrir 1931.

Þá er einn kvennaskólinn enn. Kvenfélagið Ósk á Ísafirði hefir haldið þar uppi allmyndarlegri húsmæðrafræðslu, og eins og hv. þm. muna, sækir fjöldi kvenna af Ísafirði þangað menntun sína. Þessi skóli hefir notið 5 þús. kr. ríkisstyrks undanfarið, eins og hinir skólarnir, sem ég talaði um áðan. Skólinn varð fyrir því óhappi fyrir tveimur árum að missa húsnæði sitt til kennslu, og hefir síðan verið í algerðu húsahraki til kennslu. Það hefir verið óskað um styrk, og nú liggur fyrir þinginu beiðni um styrk til að byggja skólahús fyrir kvennaskólann. En n. gat ekki sinnt þeirri nauðsyn nú. Hinsvegar þótti henni sanngjarnt, þar sem svona stóð á, að veita í þessum fjárl. sérstakan styrk vegna þessara húsnæðisvandræða, bæta einu þúsundi við rekstrarstyrk skólans. Það virðist ekki hægt að taka þennan skóla alveg út úr. Þar sem sérstakur byggingarstyrkur hefir verið veittur á Laugum og á Hallormsstað, en ekki er hægt að styrkja þennan skóla til að byggja skólahús nú, þá verður ekki hjá því komizt að styrkja hann nokkuð sérstaklega vegna húsnæðisleysisins.

Þá er nýr liður við 14. gr. B. XX., til Íþróttasambands Íslands, 6 þús. kr. Hefir þessi styrkur staðið í fjárl. undanfarið, og öllum komið saman um, að hann skyldi standa. En nú hefir hann fallið niður af vangá, eins og hv. atvmrh. benti nefndinni á.

Þá kem ég að 15. gr. Er þar fyrst nýr liður við 3. e, til Hóladómkirkju, til endurbóta. Þetta er sömuleiðis gamall kunningi. Í tvö ár hefir þetta verið sett í fjárlög, og nú vill n. gera það í þriðja sinn. Ég þarf ekki að lýsa Hóladómkirkju fyrir hv. þm., því að þeir þekkja hana nóg til þess að vita, að hún er eitt hið allra merkasta hús, sem þjóðin á. Og menn vita líka, hvernig hún hefir verið rúin af fegurð sinni á síðari árum, bæði tekin málverk og flutt hingað og kirkjan sjálf fremur skemmd en bætt með ýmsum lagfæringum. Nú hefir þó verið starfað nokkuð lengi að því að færa hana aftur í sitt upphaflega horf, og enn er sú starfsemi í fullum gangi. Sérstaklega vantar það, að fengizt hafi eftirlíkingar af hinum gömlu, frægu myndum, sem teknar voru úr kirkjunni og flestar eru nú geymdar á forngripasafninu. Það var einróma álit n., að þessi styrkur eigi að haldast þangað til búið er að koma kirkjunni til fyrra horfs að fullu.

Þá koma 4 nýir liðir við 15. gr. 15. Fyrst til Sigurðar Skúlasonar til rannsókna í menningarsögu þjóðarinnar. Þá er til Benedikts Björnssonar kennara, til ritstarfa, til Margeirs Jónssonar og til Odds Oddssonar. Sigurður er ungur maður, norrænufræðingur frá háskólanum hér og efnilegur fræðimaður. Hann vinnur nú að því að safna gögnum að menningarsögu, og til þess verður hann að sækja heimildir í söfn bæði innan lands og erlendis, og kostar sú rannsókn mikið fé og fyrirhöfn. Hann fór fram á að fá til þessa 2 þús. kr. styrk, sem n. gat ekki lagt til að veita. Þó að maðurinn kunni að vera hinn efnilegasti, þá er hann ungur og óreyndur, og þykir n. rétt að hvetja hann til starfa með því að veita honum 800 kr. styrk. Síðar mun sjást, hvers hann er maklegur.

Þá er Benedikt Björnsson skólastjóri á Húsavík. Hann hefir alla sína æfi stundað barnakennslu og unglingafræðslu, en samt lagt stund á ritstörf í hjáverkum og farið fyrirlestraferðir um landið. Það er sammála álit allra, sem til þekkja, að maðurinn sé afbrigðavel gefinn og vel til þess fallinn að skrifa alþýðleg rit. Hann er nú orðinn aldraður og heilsulítill, sérstaklega vegna sjóndepru, sem lengi hefir sótt á hann. En hann hefir orðið að vinna fyrir sér á sumrin með útistörfum, en þau störf hafa sérstaklega ill áhrif á hans eina heila auga, svo að mikil hætta er á, að hann missi sjónina að fullu, ef hann verður að stunda þau störf áfram. Hann sótti um það til n., að sér væri veittur nokkur ritstyrkur til að vinna að ýmsum sögum sínum, sem hann hefir safnað gögnum að og langar til að koma út. N. var sammála um þennan styrk. Mann á hans aldri og kringumstæðum er annaðhvort að styrkja nú eða ekki til þess að koma á framfæri þeim hugsunum, sem hann býr yfir.

Þá koma þeir Margeir Jónsson og Oddur Oddsson. Þeir eru báðir vel kunnir alþýðuhöfundar, og láta fræðimenn mikið af því þarfa starfi, sem þeir inna af höndum. Það er óhætt að segja, eins og Jón gamli Þorkelsson sagði um sig, að þeir vinna „mest við það að marka og draga á land“. Það er margskonar vitneskja, sem getur orðið mikils virði, þegar sagnfræðingar fara að vinna úr menningarsögu þessarar þjóðar, en nú er hætta á, að þetta fari í gröfina með þeim og þeirri kynslóð, er þeir tilheyra.

Margeir Jónsson er kunnastur fyrir örnefnarannsóknir sínar. Hann á nú orðið mikið og merkilegt safn af skagfirzkum fróðleik. Það kvað vera heil náma af upplýsingum um störf héraðsbúa á síðustu öldum. Alþingi veitti efnilegum manni styrk í sama skyni, Þorkatli Jóhannessyni, og veit ég ekki betur en að hann vinni nú að atvinnusögu landsins og einnig við að safna örnefnum kringum land. En þó að hann hafi þennan styrk, er vitanlega mjög mikið starf fyrir annan mann, og þar sem það er jafnáhugasamur maður og Margeir er í sinni grein, þá virtist n. rétt að styrkja hann til þessa verks.

Sama er að segja um Odd Oddsson. Hann hefir skrifað í ýms tímarit á síðari árum mjög góðar ritgerðir, sem lýsa alþýðuháttum glöggt og vel. Og þar sem hann er aldraður maður, virtist n. full þörf á að hvetja hann til þess að koma í dagsljósið því, sem hann býr yfir, áður en það er of seint.

29. liður fellur niður, af því að Sighvatur Borgfirðingur, þessi merki maður, er látinn.

Þá koma síðast tveir nýir liðir við 15. gr. 33, til menningarsjóðs og þjóðleikhúss. Þetta er í raun og veru ekki annað en að fært er til jafnaðar á móti tekjuliðum 5. gr. fjárl. En ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. fyrri kaflans hafi gert grein fyrir þeim, þegar hann talaði um 5. gr.

Þá byrjar 16. gr. og kemur fyrst hækkun á styrk Búnaðarfélags Íslands úr 240 þús. í 250 þús. kr. Starfsemi þess eykst með ári hverju. Það, sem sérstaklega eykur kostnað þess nú, er styrkur til ýmissa félaga og umbótastarfsemi, þar sem ákveðinn hluti er greiddur af kostnaði þeirra, eftir föstum reglum um þá starfsemi. Þegar félögin færast í aukana, vaxa útgjöld Búnaðarfélagsins „automatiskt“ að sama skapi. Nú var fjvn. send fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 1931, og af henni sást, að félagið mátti gera ráð fyrir, að hin nauðsynlegu gjöld þess færu upp í 280 þús. kr. á árinu. Meiri hl. n. gat ekki orðið við því að veita svo mikið, en bætti við l0 þús., svo að upphæðin yrði alls 250 þús.

Í fjárlagafrv. eru áætlaðar 30 þús. kr. til sandgræðslu, en undanfarið hafa það verið venjulega 40 þús. kr. og síðasta ár 50 þús., en af þeim var 10 þús. ráðstafað á sérstakan hátt í fjárlagafrv. sjálfu. Því er þessi hækkun n. ekki nema upp í það, sem styrkurinn hefir venjulega numið. Og það er óhætt að segja, að fáu fé sé betur varið. Því að allir hljóta að falla í stafi við að sjá þá breytingu, sem víða hefir orðið á 1–2 árum, þar sem landið hefir verið girt og friðað og einhverjar varnir gerðar til að hefta sandfok. Landið er algrænt yfir að líta. Og það er alveg óhætt, meðan núverandi sandgræðslustjóri hefir umsjónina, að kasta peningum í sandinn gegnum hendurnar á honum.

10. liður b. er hækkaður úr 10 þús. í 16 þús. kr. Hjá skógræktarstj. liggja fyrir umsóknir um styrk til skógræktar og skógargirðinga, samkv. lögum frá 1928, og nema þær um 60 þús. kr. Það varð ekki hjá því komizt að hækka þennan lið, og þykist n. hafa farið mjög hóflega í sakirnar með því að bæta við einum 6 þús.

Þá kem ég hér að brtt., frá n. á þskj. 260, um hækkun á styrk til Fiskifélags Íslands úr 75 þús. í 90 þús. kr. Þessi tillaga var samþ. með hinum, en hefir fallið niður úr nál. Starfsemi þessa félags eykst, eins og Búnaðarfélagsins, og þá vitanlega kostnaður um leið. Beiðni lá fyrir frá forseta félagsins um að hækka þessa fjárveitingu upp í 90 þús. kr., og n. fór algerlega eftir till. hans.

Þá eru 6 þús. kr. til mjólkursuðuverksmiðjunnar Mjallar. Þetta stendur í núgildandi fjárl., en féll niður í frv. stj.

Það er kunnugt orðið um þetta fyrirtæki, að það hefir átt erfitt og alls ekki gengið eins vel og æskilegt væri. En það er í raun og veru skömm fyrir landsmenn alla, ef ekki er hægt að láta eitt slíkt fyrirtæki þrífast, jafnmikið og flutt er hér inn af niðursoðnum mjólkurafurðum og jafntilfinnanleg og markaðsþörfin er fyrir sveitir landsins. Þetta fyrirtæki kann nú að breytast á einhvern hátt, og er þá letri von um velgengni félagsins.

Ég gæti trúað því, að utan um þetta fyrirtæki ætti eftir að myndast sterkt mjólkurbú í Borgarfirði, en tel þó með öllu óforsvaranlegt, ef ríkið kippti að sér hendinni um þennan styrk.

Þá kem ég að 16. gr. 25. Þar leggur n. til. að við verði bætt nýjum lið, þess efnis, að Guðmundi Einarssyni myndhöggvara verði veittur 5.000 kr. styrkur, til þess að setja hér upp leirbrennsluverksmiðju.

Guðmundur kom á fund n. og skýrði henni frá fyrirætlunum sínum. Stofnkostnaður slíkrar verksmiðju, sem hér er um að ræða, er um 10 þús. kr., og hefir Guðmundur þegar tryggt sér helming þeirrar upphæðar, en vantar þessar 5.000 kr., sem n. hér leggur til, að honum verði veittar. Hefir Guðmundur þegar verið sér úti um ýmis hin nauðsynlegustu tæki til leirbrennslu, svo sem leirbrennsluvél, hnoðara og rennibekk, og veit ég ekki betur en að hann sé þegar búinn að fá þessi tæki hingað upp, í þeirri von, að honum myndi takast að afla fjár til fyrirtækisins.

Guðmundur hefir lagt mikið erfiði í að vinna að framgangi þessa máls og lagt fram fé til þess af sinni fátækt. Hefir hann sýnt mjög virðingarverðan áhuga og dugnað við athugun á leirnámum hér á landi, og látið framkvæma rannsóknir á íslenzkum leirtegundum í Þýzkalandi. Hefir niðurstaða þessara rannsókna orðið sú, að sumar ísl. leirtegundir standi ekki að baki beztu leirtegundum erlendum til ýmiskonar iðnaðar, og að til séu hér óþrjótandi námur af nothæfum leir til brennslu.

Guðmundur Einarsson er einn af okkar vinsælustu og fjölhæfustu listamönnum, sem hefir lítils sem einskis opinbers styrks notið á sinni löngu og erfiðu listamannsbraut, og vænti ég þess því, að enginn hv. þm. hiki við að greiða þessari till. atkv. sitt, svo stórmerk tilraun, sem hér er um að ræða.

Guðmundur ber aðallega fyrir brjósti að gefa ísl. listamönnum tækifæri til þess að móta ýmsa skrautmuni úr leir. Tók ég með mér ýmsa muni hingað á fundinn, sem Guðmundur hefir mótað, sem sýnishorn þess, hvað gera má úr hinum íslenzka leir. Geta hv. þdm. fengið að sjá þessa muni, ef þeir vilja. Hér er t. d. forkunnarfagur bikar, sem Guðmundur hefir gert. En það er fleira, sem gera má úr hinum íslenzka leir, t. d. þakhellur á hús, venjulegan borðbúnað (Guðm. hefir þegar gert sér sjálfum einn, fallegan í mesta máta), og svo mætti lengi telja. Yfirleitt má segja það, að með þessari tilraun Guðmundar frá Miðdal sé verið að skapa möguleikana fyrir fullkominni iðngrein á því sviðinu, sem við áttum enga áður. Vænti ég þess því fastlega, að hv. þdm. sýni skilning á þessari till. og samþ. hana.

Þá kem ég að 17. gr. Upp í hana hefir n. tekið að nýju nokkra liði (a.–f.) til styrktar- og sjúkrasjóða, sem felldir hafa verið niður úr fjárlfrv., en eru í núgildandi fjári. N. var það að vísu ljóst, að þessir styrkir til einstakra félaga eru neyðarúrræði, en þar sem ekki er í annað hús að venda en til Alþingis fyrir þessa aðilja, á meðan allt er í öngþveiti um almennan styrktarfélagsskap hér á landi, sá n. sér ekki annað fært en að leggja til, að í þessu skyni yrðu veittar svipaðar upphæðir og í fyrra.

Þá er það 18. gr. Er þar fyrst II. b. 25, nýr liður, styrkur til Hrefnu Einarsdóttur, ekkju Kristmundar heitins læknis Guðjónssonar. Hún er eignalaus en gengur með ólæknandi sjúkdóm, sem dregur hana til dauða fyrr eða síðar. Hún á fyrir einu barni í ómegð að sjá. N. álítur óhjákvæmilegt að hlaupa eitthvað undir bagga með þessari konu, og geri ég ráð fyrir; að hv. deild líti sömu augum á það mál.

Næsta brtt. n. við þessa grein (II c. 9. a. og b.) fjallar um að veita þeim séra Þórði Ólafssyni og séra Páll Stephensen viðbót við lögmælt eftirlaun þeirra, þannig að þau nemi alls 1.000 kr. Er orðin regla að gera svo við alla uppgjafapresta.

Um þrjár brtt. n. við þessa gr. er hið sama að segja (II. c. 10, II. d. 12. og II. f. 3). Hlutaðeigandi styrkþegar eru dánir, og fellur því sá styrkur, sem þeim hefir verið veittur, af sjálfu sér niður.

Þá leggur n. til, að Ástu Magnúsdóttur, ekkju Tómasar Jóhannssonar kennara á Hólum, er dó síðastliðið sumar, sé veittur 200 kr. styrkur. Hún á fyrir tveim börnum í ómegð að sjá, og varð það að samkomulagi í n. að leggja til, að henni yrðu veittar 100 kr. með hvoru barni hennar. Þó að lítið sé, er það betra en ekkert.

Þá koma nú nokkrar ljósmæður upp á gamlan og góðan kunningsskap. Mætti svipað segja um þær og þegar sagt er, að menn séu betur þokkaðir dauðir en lifandi. Ljósmæðurnar eigá mjög erfitt uppdráttar hér í þinginu, á meðan þær eru í fullu fjöri, eins og saga launakrafna þeirra bezt sýnir, en þegar ljósmæðurnar eru orðnar gamlar og gráhærðar, þá hefir þeim venjulega verið tekið tveim höndum. Hér eru nú á ferðinni þrjár ljósmæður, og er ein þeirra, Oddný Guðmundsdóttir júbilljósmóðir, einhver hin elzta ljósmóðir á landinu. Skipunarbréf hennar liggur hér fyrir og er gefið út af Magnúsi Stephensen landshöfðingja, svo að menn sjá að hún er komin til ára sinna, gamla konan, enda hefir hún gegnt ljósmóðurstörfum í 52 ár. N. taldi sjálfsagt, að svo gamalli og ekta júbilljósmóður yrðu veitt hæstu eftirlaun, 500 kr. Hinum tveim ljósmæðrunum, Margréti Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur, leggur n. til að verði veittar 200 kr. hvorri. Báðar þessar ljósmæður hafa orðið að láta af störfum sakir aldurs og þreytu; þær eru komnar á áttræðisaldur og hafa gegnt ljósmóðurstarfinu í 20 og 30 ár.

Þá leggur n. til, að Susie Briem verði veitt 300 kr. eftirlaun. Þessi kona er ekkja Halldórs Briems bókavarðar, sem dó síðasti. ár. Sótti hún um 1.200 kr. eftirlaun, en n. sá sér ekki fært að fara lengra. Sömuleiðis leggur n. til, að hinni háöldruðu ekkju síra Steindórs Briems í Hruna, Kamillu Briem, verði veittur 170,57 kr. viðbótarstyrkur, þannig að hún fái alls 300 kr.

Þá kem ég að 23. gr. Við þá gr. hefir n. tvær brtt. að gera. Sú fyrri er um það, að eftirlaunin til Björns Sigurðssonar falli niður, þar sem hann er dáinn. Síðari brtt. er þess efnis, að stj. heimilist að greiða Þóru Beck, ekkju Þórólfs Becks skipstjóra á „Esju“, eftirlaun eftir svipuðum reglum og Eimskipafélag Íslands greiðir ekkjum skipstjóra sinna, og sé upphæðin færð á útgerðarreikning „Esju“.

Þórólfur sál. var lengi starfsmaður hjá Eimskipafélaginu, en allir starfsmenn þess hafa eftirlaunarétt hjá félaginu fyrir sig og ekkjur sínar. Þegar Þórólfur fór úr þjónustu Eimskipafélagsins og gekk í þjónustu ríkisins, missti hann þennan eftirlaunarétt. Stendur ekkja hans því uppi með tvær hendur tómar og á við þröngan kost að búa, eftir því sem kunnugir menn segja. Barst n. erindi um að taka hana upp í 18. gr. fjárl. með 500 kr. styrk, auk 100 kr. handa hverju barni hennar. N. áleit ekki rétt að fara þá leið, en taldi hitt réttara, að veita þessa heimild til að greiða ekkjunni af útgerðarkostnaði „Esju“ svipaða fjárhæð og hún hefði notið, ef maður hennar hefði verið starfsmaður Eimskipafélagsins. Virðist ekki nema sjálfsagt í alla staði, að sömu reglur gildi um eftirlaunarétt starfsmanna ríkisútgerðarinnar sem starfsmanna einstakra fyrirtækja, eins og Eimskipafélagsins.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. n. við þennan kafla fjárl. Það hefir komið fram moldviðri af brtt. frá einstökum þm., en ég mun þó ekki fara út í þær að sinni, heldur geyma mér þær, þar til hlutaðeigandi þm. hafa gert grein fyrir þeim og n. í heild sinni er búin að taka afstöðu til þeirra.