16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Auðunn Jónsson:

Ég flyt hér 3 brtt. einn, og eina ásamt öðrum, og mun ég gera nokkra grein fyrir þeim.

II. brtt. á þskj 562 er í þá átt að hækka liðinn til nýrra símalagninga úr 100 þús. kr. upp í 110 þús. Þetta er gert með það fyrir augum, að hækkunin gangi til að bæta úr hinu hörmulega ástandi, er leiðir af símaleysinu í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þó hefir nú verið lagður sími í einn af þrem hreppum á þessum slóðum. En úr því svo er komið, er stutt að leggja símann yfir í næsta hrepp, Grunnavíkurhrepp, sem þarf svo mjög á síma að halda, að stundum hafa hlotizt slys af að ekki hefir náðst til læknis sökum símaleysis. Landssímastjóri gerði ráð fyrir, að sími þessi myndi kosta 12 þús. kr., en eftir nýjum upplýsingum um, að ekki muni þurfa að leggja jarðsima, mun hann ekki kosta nema 10 þús. kr.

Þá hefi ég flutt ásamt öðrum till. um að veita Þórði Kristleifssyni styrk til söngfræði- og söngkennslunáms. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, var samþ. 1.200 kr. styrkur handa þessum manni hér í Nd., en Ed. felldi hann niður með 8:6 atkv. Till., sem kom fram við 3. umr., um að taka hann upp aftur, féll með 7:7 atkv. Það er því auðsætt, að mikill meiri hl. þingsins er því fylgjandi að veita þennan styrk, enda hefir okkar bezti og kunnasti listamaður á þessu sviði, Páll Ísólfsson, mælt mjög sterklega með honum.

Þá flyt ég á þskj. 562 till. um, að ríkið ábyrgist 4/5 hluta kostnaðar við byggingu raforkustöðvar í Súðavíkurhreppi, allt að 60 þús. kr. Gert er ráð fyrir, að hreppsbúar leggi fram 1/5, sem þeir hafa tryggt sér án þess að taka lán. Áður hefir jafnan verið farið fram á ábyrgð á allri upphæðinni. Ef til vill er það af þeim ástæðum, að Ed. hefir fellt þennan lið niður. Annari ástæðu er ekki til að dreifa. byrgðin er algerlega áhættulaus, þar sem Norður-Ísafjarðarsýsla tekur endurábyrgð á láninu.

Þá flyt ég eina brtt. enn, um að veita manni á Vesturlandi 2.000 kr. upp í tap, sem hann hefir liðið vegna viðskiptabanns, sem afleiðing sóttvarna. Skyldi ég fara allrækilega út í það mál, ef ég hefði von um, að nokkur brtt. næði fram að ganga að þessu sinni. Maður þessi var álitinn taugaveikissmitberi, og var honum því bannað að selja mjólk frá heimili sínu. Hann hefir verið rannsakaður hér í Reykjavík og enginn vottur af taugaveiki hefir fundizt í honum. En þrátt fyrir þetta hefir bannið ekki fengizt upphafið. Skal ég ekki hér fara út í þær ástæður, sem ætla má að valdi.

Þetta viðskiptabann hefir vitanlega valdið manni þessum miklu eignatapi. Hann hefir orðið að leggja niður kúabú sitt og setja upp sauðfjárrækt í staðinn, sem borgar sig langtum verr vegna þess, hve innistöðutími er langur. Hann hefir farið fram á 3.500 kr. skaðabætur. Hér liggja fyrir umsagnir héraðslæknis á Ísafirði og landlæknis um þetta. Landlæknir leggur til, að hann fái 2.000 kr. og þá upphæð hefi ég borið fram í till. minni, enda þótt ég telji víst, að tap hans sé nær 12.000 kr. Þessi maður hefir efalaust aldrei smitberi verið, svo að hér hefir í ógáti verið framið hið herfilegast ranglæti.