01.02.1930
Neðri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og fékk góðar viðtökur í báðum deildum. Öll fjhn. í Ed. léði málinu fylgi og 4 þm. í fjhn. Nd. sömuleiðis. En svo slysalega vildi til, að af einhverjum óskiljanlegum orsökum fléttaðist málið saman við ljósmæðrafrv. í Ed., og varð það málinu að fjörtjóni, þrátt fyrir eindregið fylgi þingsins. Nú má því vænta hins bezta um framgang málsins, því fylgi þess er öruggt. Aðalástæður frv. eru þær, að á síðustu árum hefir reynzt torvelt að útvega farkennara í sveitahéruð; sérstaklega urðu mikil brögð að því á síðasta ári, svo að víða reyndist nær ókleift að fá hæfa menn til starfsins. Önnur höfuðástæðan er sú, að farkennarar eru lægst launaði starfsmannaflokkur landsins, og menn láta því oft af þeim starfa áður en þeir vilja. Undir slíkum kringumstæðum reyna skólanefndir einatt að festa sér góða menn með því að gera þá að föstum kennurum, ef unnt er. Ef þannig verður haldið áfram að gera farkennarahéruð að föstum skólahéruðum, hlýtur það að baka ríkissjóði mun meiri kostnað en ef laun farkennara eru bætt nú þegar, eins og farið er fram á í þessu frv. Nú eru launahlutföllin þau, að farkennarar hafa frá 1/3 og upp í ½ af launum fastra kennara, en frv. gerir ráð fyrir 1/3 af hæstu launum og 2/3 af lægstu launum fastra kennara. Það er og höfuðástæða fyrir flutningi þessa frv., að kennsla í sveitum nýtur verri kjara af hálfu ríkisins en í kaupstöðum. Sveitarsjóðir greiða 2/3 af launum farkennara, en ríkið 1/3, þegar allt er reiknað, en við föstu skólana er þetta öfugt; greiðir ríkið 2/3 af þeim, en bæirnir 1/3, ef dýrtíðaruppbót er talin með. Með frv. þessu er reynt að bæta nokkuð úr þessu misrétti, en þó ekki að fullu, því eftir frv. er tillag sveitar til farkennslunnar, þegar fæðiskostnaður er lagður í peninga, 100 kr. hærra en framlag ríkisins. Er þó dregið úr misréttinu til verulegra muna, og mætti ætla, að þeir, er játa sig nokkru skipta hag og velfarnað sveitanna, muni stuðla að framgangi málsins hér í þinginu.

Hið eina, sem frv. þetta er breytt frá því í fyrra, er það, að laun farkennara greiðast í fyrsta sinn eftir þessum lögum fyrir skólaárið 1929–1930. Er með því bætt fyrir þau kynlegu mistök, sem urðu á afgreiðslu þess í fyrra. Virðist þetta bæði sanngjarnt og eðlilegt; enda eru 9 mánuðir skólaársins á þessu ári, og fá farkennarar laun sín að kennslu lokinni. Veldur þetta atriði tæplega ágreiningi. Hinsvegar mælir öll sanngirni með því, að farkennarar séu ekki látnir gjalda þeirra annarlegu ástæðna, er urðu máli þessu að falli í fyrra.