16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1931

Benedikt Sveinsson:

Ég er fyllilega sammála þeim hv. ræðumönnum, sem hafa látið í ljós óánægju sína yfir framkomu hv. Ed., og vil segja, að það sé alrangt, að þannig sé gengið framhjá þessari hv. d. um úrslit fjárlaga. Það er vitanlegt, að hún er höfuðdeild þingsins og á samkv. stjórnarskránni að hafa aðalvald yfir fjárl., og þótt ekki sé beint hægt að segja, að þetta háttalag hv. Ed. sé brot á þingsköpum, þá stappar það þó nærri, því að þessi upptekni háttur er ofríki, ókurteisi og ranglæti gagnvart Nd.

Mér liggur við að segja, að það sé hrein óhæfa að láta Ed. vaða svona uppi. Mun þó varla verða rönd við reist að þessu sinni, því að svo rammlega mun um hnútana búið og hrossakaupin svo staðfastlega gerð bak við tjöldin. En mér koma í hug orð ættjarðarkvæðisins Íslendingabrags, sem Jón Ólafsson kvað hér á árunum:

„En þótt lútum vér lyddnanna valdi, lútum aðeins nauðugir samt“.

Má svo lengi brýna deigt járn, að það bíti, og mundi því tími til kominn að Nd. hristi þetta ok af sér, áður en hún kiknar frekara undir því, og virðist það vesalmennska, ef vér látum rótfestast þær óvenjur, er draga lögskipað og réttmætt vald úr höndum deildarinnar.

Þegar ég lít á frv. sjálft, þá verð ég að segja, að það hafi tekið litlum bótum, eins og hv. frsm. komst svo hnyttilega að orði, því að inn í það hefir verið bætt allháum útgjaldaliðum og tekjuáætlunin hækkuð upp úr öllu valdi til að jafna hallann. Virðist lítil fjármálaspeki í þessari aðferð hv. Ed., því að það hefði verið leikur einn fyrir hvern þm. að bera fram háar brtt. og hækka áætlunina jafnframt, svo að ekki bæri á tekjuhalla á pappírnum.

Mér þykir leitt, að enginn hæstv. ráðh. er við, því að mig langaði til að beina orðum mínum að þeim, og þá helzt að hæstv. fjmrh.

Þar sem hæstv. fjmrh. kemur í þessu í deildina, vil ég taka það upp, að ég var að minnast á, að mér hefði ekki þótt frv. taka miklum breyt. til bóta í hv. Ed., og ég liti svo á, að með öllu þessu atferli með afgreiðslu fjárl. sé þessari hv. deild lítill sómi sýndur, og ekki rétt að láta slíkt viðgangast. Eins og hv. frsm. minntist á, hafa verið þurrkuð út heil héruð, og að þeim breytingum og ráðabruggi munu einnig einhverjir hv. þm. úr Nd. standa. Hinsvegar lít ég svo á, að það sé ekki rétt, að Suður- og Vesturland hafi orðið þyngst úti, því að t. d. Norður-Þingeyjarsýsla hefir engan styrk fengið í þessum fjárl., eins og frá þeim er gengið í Ed.

Um persónustyrkina er það að segja, að hv. Ed. hefir skorið þá alveg niður og breytt þar í anda hæstv. fjmrh., en mér virðist það óviðunandi og röng aðferð, sem þar er beitt, að setja þá alla á sama bekk, í stað þess að taka, hvern einstakan til athugunar. Því er nú svo farið, að þetta fátæka land á ekki marga styrktarsjóði til að hjálpa þeim, sem maklegir eru stuðnings, en margt af efnilegum mönnum, sem mikils má af vænta, ef eitthvað er fyrir þá gert.

Hæstv. fjmrh. hefir þó ekki verið svo þingríkur í Ed., að hann gæti með öllu útrýmt þessum styrkjum, því að svo má segja, að nýtt höfuð hafi vaxið á hvern þann strjúpa, sem eitt var af höggið, og vafasamt, hversu mjög slíkt mælir með samþykkt frv. óbreytts. Það er nú svo með þessa persónustyrki, að dæma verður hvern einstakan þeirra, til að ganga úr skugga um, hvort þeir muni koma landinu að gagni eða ekki. Hvað t. d. sjúkrastyrkjum viðvíkur, þá er það að segja, að í ýmsum tilfellum eru þeir beint nytsamlegir, ef þeir geta leitt til bata, því að landinu er þyngri baggi bundinn með því að sjá fyrir sjúkum mönnum til æfiloka þeirra heldur en ef þeir mættu ná fullri heilsu fyrir lítilsháttar styrk í eitt skipti fyrir öll.

Það er þýðingarlaust að hóta hv. þdm. með því, að ef þeir breyti frv., muni það lengja þingið um 10 daga, enda virðist ástæðulaust að óttast það, þar sem þessu máli skyldi flýtt svo mjög í gærkvöldi, að þá skyldu afbrigði veitt. Mætti hraða málinu gegnum þingið á þann hátt. Hinsvegar fæ ég ekki skilið, að þessari hv. d. beri að gleypa fjárl. óköruð, þótt hv. Ed. hafi farið um þau höndum, enda er ég mjög trauður að taka aftur þær brtt., sem ég hefi fram borið, og mun greiða jákvæði með því, að frv. verði breytt.

Þá vil ég víkja að einstökum brtt., sem ég hefi tekið hér upp að þessu sinni. Till. þessar höfðu allar mikið fylgi í þessari hv. d., og bar ég eina þeirra fram sjálfur, en aðrar ekki, þótt ég stæði að vísu að sumum þeirra.

1. brtt. mín er við 12. gr. 5 og er þess efnis, að Jóni Kristjánssyni nuddlækni skuli veittur 1.000 kr. styrkur, til að halda uppi nuddlækningum fyrir fátækt fólk ekki sjaldnar en 4 sinnum í mánuði hverjum, og gefi síðan skýrslu um þær lækningar. Þessi till., svo sem hún er orðuð, gefur nú raunar ekki nógu ljósa hugmynd um þær kvaðir, sem á lækninum hvíla, ef hann fær þennan styrk, en nú er því svo farið, eins og fjvn. er kunnugt, að J. Kr. hefir kennt læknaefnum ókeypis nuddlækningar 4 sinnum í mánuði og veitt fátækum mönnum ókeypis lækningu, alveg eins og sérfræðingar í t. d. háls-, nef- eða eyrnasjúkdómum gera. Munurinn er hinsvegar sá, að J. Kr. hefir eigi laun fyrir þessa kennslu, sem læknaefnum er nauðsynleg og á hinn bóginn kemur fátæku fólki vel. En það virðist fullkomlega réttmætt, að þessi læknir fái einhverja þóknun eða viðurkenningu fyrir þetta starf, eins og aðrir læknar, enda hefir hv. Nd. fallizt á það. Sé ég eigi, hverja ástæðu hv. Ed. hefir til þess að níðast á þessum manni öðrum fremur. Menn hafa talað um, að Alþ. hafi þegar gert vel til hans, en ég vil þá beina athygli þeirra að því, að þessi læknir hefir aðeins fengið lán til að setja upp lækningastofu sína, en er ekki heimtufrekari en það, að hann fer fram á að mega láta þennan styrk ganga upp í greiðslu af láninu. Hv. þdm. verða einnig að athuga það, að fjöldi manna á við þrautir að búa sökum meiðsla eða gigtar, en þá má lækna með nuddi, svo að þessu fé væri ekki á glæ kastað, þar sem þar með er greitt fyrir lækning þeirra. En hitt er misskilningur, sem komið hefir fram, að farið sé fram á styrkinn til þess að veita ókeypis lækning fjórum sinnum á mánuði. Styrkveitingin á einmitt að vera þóknun fyrir kennslu læknisefna, þótt sjúklingar njóti og góðs af. Vil ég benda þeim ágætu mönnum, er misskilið hafa till., á það, að þeir, sem marizt hafa eða beinbrotnað á togurum, og fjöldi gamalla, gigtveikra manna ganga ekki aðeins til læknisins þessa 4 daga í hverjum mánuði, heldur hvern einasta dag, og ýmsir þeirra fá ókeypis lækningu hjá honum sakir göfugmennsku hans og góðvildar. Ég vil því vona, að Alþ. níðist ekki á þessum manni eða sé svo starblint fyrir því, sem vel er unnið, að það sýni ekki lit á viðurkenning sinni fyrir hönd þjóðarinnar, og ég áfellist hv. Ed. þunglega fyrir lélega framkomu í þessu máli.

Þá hefir Ed. lagt til, að styrkurinn til Unnar Vilhjálmsdóttur verði felldur niður, en ég vil fastlega mælast til, að svo verði ekki gert. Þessi kennslukona hefir getið sér ágætan orðstír við kennslustörf um mörg ár, en missti heilsuna og sigldi til að leita sér heilsubótar. Heilsuna fékk hún aftur, en er heim kom og hún tók til starfa, veiktist hún af landfarsótt og varð fyrir áfalli, svo að hún hefir ekki náð sér, en hefir vonir um að ná fullum bata, ef hún fær að njóta hvíldar sumarlangt.

Ég er ekki vanur að hlutast mikið til um styrkbeiðnir hv. þm., en þó get ég lýst yfir því, að ég mun greiða atkv. með styrknum til Odds Oddssonar, sem er ritsnillingur mikill og margfróður.

Þá hefir Ed. felldan niður styrkinn til Benedikts Björnssonar, og þar verð ég að segja, að hv. Ed. hefir farizt ærið ómaklega. Þessi maður hefir nú um langt skeið haldið uppi skóla í Húsavík og kennt þar fjölda manns, sem látið hafa mjög af hæfileikum hans. Auk þess hefir hann gefið út kennslubækur, því að hann er bæði fjölfróður og að öllu einkar sýnt um að skýra efnið ljóst og skipulega. Þessi maður varð fyrir því óhappi í æsku, að hann missti annað augað, en nú er hinu hætta búin, vegna langrar og mikillar áreynslu við lestur og skriftir. Ég býst við því, að hv. þdm. vilji launa honum vel unnið starf í þágu þjóðarinnar og veita honum styrk þennan, enda er það í fullu samræmi við það, sem þessi d. hefir áður gert.

Þá á ég brtt. um fjárframlag til Kópaskersbrautar, og er hún tekin hér upp vegna þess, að vegur þessi er ekki kominn enn í þjóðvegatölu, þótt hann eigi að vera það, svo sem ég hefi margsinnis sannað og hv. d. hefir einnig fallizt á. En nú virðist full tvísýna á, að vegalögin nái að komast í gegnum Ed., því að þar mun allt ganga hrossakaupum og braski. Hinsvegar hefði fé til þessa vegar átt að vera veitt fyrir löngu, en þar hefir staðið á réttmætum lagfæringum vegalaganna, sem allir vita, hversu eytt hefir verið þing eftir þing. Till. mín er því sett til varúðar, svo að eitthvað verði gert við þennan nauðsynlega veg, sem enginn neitar, að rétt sé og sanngjarnt. Nú á að halda styttra þing en dæmi eru til á síðari árum, og verður því margt nytjamála í útideyð. Tek ég því þetta ráð upp til vara. Í þetta hérað munu nú komnar 7–8 bifreiðar, og eins og mönnum er kunnugt, breyta þær mjög búnaðarháttum til batnaðar. Vegurinn er í sjálfu sér góður frá náttúrunnar hendi í þurrviðrum, en ef hann blotnar, verður þar ótræði ófært bifreiðum.

Nú heyri ég í þessu, að frv. muni gengið í gegnum Ed., og mun það valda mikilli gleði í Ísrael, þ. e. a. s. meðal hinnar íslenzku þjóðar, að þurfa ekki að standa lengur á þessari veglausu eyðimörk. Þess vegna getur það verið, að ég vísi þessari brtt. til stj., auðvitað í fullu trausti þess, að vegamálastjórnin láti ekki úr hömlu dragast að leggja fram nægilegt fé til þessarar vegagerðar, sem svo lengi hefir setið á hakanum.

Það hefir verið minnzt hér á kröfur þær, sem Páll Torfason færði fram í fyrra, og þá var flutt till. um greiðslu eftirstöðvanna af 24 flm. úr báðum deildum. Tillöguna dagaði uppi, en meiri hl. þm. úr báðum deildum ritaði undir áskorun til hv. fjmrh. sama efnis. Honum þótti þó bresta heimild til þessarar greiðslu, meðfram vegna þess, að ekki var nefnd föst fjárhæð, en það höfðu flm. ætlazt til, að ráðherrann mundi rannsaka. Nú var málið enn borið fram öndvert þing, og fjallaði fjhn. um það. Lagði hún til, að P. T. yrðu greiddar 10 þús. króna. Þessu til stuðnings hafa 27 þm. úr báðum deildum, 19 úr Nd. og 8 úr Ed., ritað undir áskorun um þessa greiðslu. Þótti það, úr því sem ráða var, handhægra heldur en að þæfa málið hér á þingi. Hefði annars kostar orðið að prenta fjölda fylgiskjala, sem kynni að þykja „viðkvæmt mál“ í sumum stöðum.

Vænti ég nú, að hæstv. fjmrh. verði vel við, þar sem hann hefir svo mikið og aukið fylgi til framkvæmdar málinu og fjárhæðin er ákveðin, Mun hann láta þess við getið, ef honum þykir á bresta lengur.

Páll Torfason á mikla skuld ógreidda úr ríkissjóði og hefir þar á ofan verið mjög grátt leikinn af félögum sínum í Khöfn um skipti þóknunar þeirrar, er greidd hefir verið fyrir töku enska lánsins.

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. fjmrh. þetta skjal, sem ég skal þó, með leyfi hæstv. forseta, lesa fyrst í heyranda hljóði, þar sem ég veit, að hæstv. ráðh. er kærara, að það komist orðrétt í þingtíðindin með undirskriftum öllum. Það hljóðar svo:

„Undirritaðir alþingismenn skora á hæstv. fjármálaráðherra að greiða hr. Páli Torfasyni 10.000 — tíu þúsundir — króna fyrir næstu mánaðamót.

Alþingi, 14. apríl 1930.

Benedikt Sveinsson, Ólafur Thors,

Jóh. Þ. Jósefsson, Jón Ólafsson,

Jörundur Brynjólfsson, Einar Jónsson,

Hákon Kristófersson, Ásg. Ásgeirsson,

Sveinn Ólafsson, Sig Eggerz,

Jón A. Jónsson, Lárus Helgason,

Bjarni Ásgeirsson, Bernh. Stefánsson,

Magnús Jónsson, Þorleifur Jónsson,

Magnús Torfason, Björn Kristjánsson,

H. Steinsson, Ingibjörg. H. Bjarnason,

Gunnar Sigurðsson, Jónas Kristjánsson,

Héðinn Valdimarsson,

enda sé þetta síðasta greiðsla úr ríkissjóði til hans, og legg ég eingöngu með þessu vegna þess, hvernig með hann hefir verið farið af félögum hans við lántökuna, sérstaklega J. Svbj.

Ingvar Pálmason, Jóh. Jóhannesson,

Jón Baldvinsson,

með sömu aths. og og H. V.

Erlingur Friðjónsson,

með sömu aths. og H. V. og Jón Baldvs. Þá verð ég að víkja nokkrum orðum að máli, sem minnzt var á við 3. umr. fjárlaganna hér í hv. Nd. um daginn, en ég hafði ekki tækifæri til að svara þá máli, sem að nokkru leyti var beint að mér, a. m. k. eftir því, sem skýrt er frá ræðu hv. þm. N.-Ísf. í Morgunbl. 1. þ. m. Við 3. umr. fjárl. fór hv. 2. þm. Árn. nokkrum orðum um sambandslögin frá 1918 og viðskipti Dana og Íslendinga síðan í sambandi við þann samning, er í þeim lögum er fólginn. Kom það fram í máli hans, að honum þótti lítil eða engin hætta standa lengur af jafnréttisákvæðum 6. gr., og í annan stað virtist brydda þar á þeirri nýstárlegu skoðun, að Íslendingar hefðu ekki staðið við samningana við Dani með skipulagi því, sem sett var um kosningarrétt á Íslandi með stjskr. 1920.

Því næst tók til máls hv. þm. N.-Ísf. og drap á helztu atriði ræðu hv. 2. þm. Árn. Hefði hann byrjað á að lýsa yfir því, að hann hefði verið andvígur sambandslögunum 1918 vegna jafnréttisákvæðisins og því hefði hann ásamt núverandi forseta þessarar deildar greitt atkv. gegn þeim. En svo hefði þessi þm. snúið við blaðinu og nú reynt að sannfæra deildina um það, að jafnréttisákvæðin væru ekki hættuleg. Danir hefðu ekkert gert síðan til þess að reyna að „vinna“ landið; sé því hættulaust, þó að Danir hafi þennan rétt áfram. Í sambandi við þessi ummæli vék hv. þm. N.-Ísf. máli sínu til hæstv. forsrh. og mín og mælti á þessa leið:

„Ég vona, að þessi orð hv. þm. standi fyrir hans eiginn reikning, en séu ekki töluð fyrir munn hæstv. ríkisstjórnar. Ég vænti þess, að hæstv. forseti geti gefið þá yfirlýsingu, að þetta sé ekki mælt að hans vilja“.

Þar sem hér er fram komin áskorun til mín að láta í ljós afstöðu mína um þetta efni, þá vil ég ekki láta úr hömlu dragast að birta mína skoðun, svo að enginn þurfi að efast um hana. og skal því leyfa mér að skýra málið að nokkru.

Það er öllum kunnugt, að það voru aðeins tveir þm., sem greiddu atkv. gegn sambandslögunum 1918. Var það hv. 2. þm. Árn., sem þá var þm. Ísaf., og svo þm. N.-Þ., sem hér stendur.

Hv. 2. þm. Árn. tók það fram um daginn, að hann hefði einkum óttazt jafnréttisákvæði 6. gr. og talið þau hættuleg sjálfstæði landsins. En nú var að heyra, að hann teldi, að Danir hefðu komið svo fram síðan, að alls engin hætta stafaði af jafnréttisákvæðinu. Hann gat þess einnig, að nokkrir danskir stjórnmálamenn hefðu nýlega látið í ljós við sig, að þeir hefðu þótzt sviknir og táldregnir af Íslendingum í framkvæmd sambandssamningsins, með fyrirkomulagi því á kosningarrétti, er sett var í stjórnarskránni árið eftir (1919) og náði fullnaðarsamþykki Alþingis og staðfesting konungs 1920. Virtist hann sjálfur fallast á þessa undarlegu skoðun, þótt hann léti annars í ljós, svo sem vænta mátti, að hann vildi fylgja fram kröfum þjóðarinnar, þegar um það mál væri að ræða, þótt ekki féllist hann á aðferð núverandi sjálfstæðismanna.

Hv. þm. N.-Ísf. virtist ekki hafa allskostar fulla vissu um skoðun mína á þessu máli, og því mun hann hafa beint þessu til mín, enda vissi hann, að ég var andvígur sambandslögunum 1918. Skal ég nú fullvissa hann um það, að ég var að engu leyti hikandi í þessu máli 1918 og hefi aldrei verið síðan. Skal ég og taka það fram afdráttarlaust, að ég var ekki einungis vegna þess andvígur sambandslögunum, hve alóhæf eru jafnréttisákvæði 6. gr., heldur og af mörgum öðrum missmíðum og herfilegum ákvæðum laganna, svo sem berlega kom fram í brtt. mínum við frv. 1918 og í umr. við meðferð málsins á sambandslagaþinginu þá um haustið. Skírskota ég um þetta til Alþ. 1918 og sérprentanar þeirrar, er nefnist: „Sambandslögin. Þingskjöl málsins og meðferð þess á Alþingi“, og út kom sama haust.

Það er síður en svo, að mér þyki hin minnsta ástæða til að líta nú mildari augum á sambandslögin heldur en 1918. Gallar þeirra verða því augljósari, sem þau eru betur athuguð. Þetta kemur og berlega fram af því, hversu fylgi þeirra er gersamlega upprætt í landinu á einum áratug.

Danir vissu vel, hvað þeir voru að fara með jafnréttisákvæðum 6. gr. Í þeim tryggðu þeir sér svo fullkominn rétt á Íslandi, sem framast var unnt. Þeir lögðu og afarríkt á um það í aths. við 6. gr., að jafnréttisákvæðunum verði að fylgja út í yztu æsar, án allra undantekninga. Nefndu þeir, að afnema þyrfti „mismun þann á kosningarrétti, sem fram kemur í 10. gr. stjórnskipunarlaga Íslands frá 19. júní 1915“.

Skilyrði þau fyrir kosningarrétti á Íslandi, sem hér er vísað til, voru þau, að annaðhvort þurfti maðurinn að vera fæddur á Íslandi, eða hafa verið hér búsettur síðustu 5 árin áður kosning færi fram. Þeir, sem hér voru fæddir, en fluttust úr landi, öðluðust því kosningarrétt í landinu aftur eftir eins ár dvöl, en þeir eftir 5 ára dvöl, sem erlendis voru fæddir. Þessu vildu fulltrúar Dana fá breytt, svo að þessi mismunur væri afnuminn og var eigi nánara til tekið, hversu þessu skyldi hagað.

Vér andstæðingar sambandslaganna létum í ljós þann ótta þá þegar, að „mismunurinn“ mundi verða afnuminn með þeim hætti, að búsetuskilyrðið eitt yrði látið nægja og þá fært niður í eitt ár, en af því gæti stafað hin mesta hætta. En fylgismenn sambandslaganna á Alþingi lýstu því þá þegar yfir í ræðu og riti, að ekki þyrfti svo til að haga, haldur mætti láta eitt ganga yfir alla og láta 5 ára búsetuskilyrðið standa í stjskr. Næði það þá jafnt til allra, hvort sem þeir væru fæddir á Íslandi eða ekki, og nægði að fella niður eins ár búsetu forréttindi þeirra, er í landinu væru fæddir. Ef þeir flyttu héðan, svo að þeir misstu kosningarréttar síns, yrðu þeir sem aðrir að vinna sér réttinn með 5 ára búsetu. Því til sönnunar, að þetta sé ekki gripið úr lausu lofti, skal ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa upp úr aths. sambandslaganefndar Alþingis við 6. gr. laganná frá árinu 1918. Þar segir svo:

„Danir verða að fullnægja sömu skilyrðum og sæta sömu takmörkunum, sem sett eru eða sett verða um réttindanautn íslenzkra þegna í hverri grein.*) Til þess að njóta kjörgengis og kosningarréttar þarf maður samkv. löggjöf beggja ríkja að vera búsettur í landinu, og getur hvort ríkið um sig sett þau skilyrði, að hver sá þegn, er sleppt hefir heimilisfangi í ríkinu eða hefir aldrei haft það, skuli ennfremur hafa verið þar heimilfastur óslitið ákveðinn tíma, áður hann megi neyta téðra réttinda, t. d. að hver maður verði að hafa átt fast heimili 5 ár í Danmörku til að njóta þar kosningarréttar og kjörgengis, hvort sem hann væri danskur þegn eða eigi. Mundi íslenzkur þegn verða að sæta því, að hann fengi sama rétt í þessu efni, að uppfylltum sömu skilyrðum sem danskir þegnar. Öldungis samsvarandi gildir um hitt ríkið“.

Undir þessa yfirlýsing hefir öll sambandslaganefnd Alþingis 1918 ritað athugasemdalaust, nema einn maður. Hvað er hægt að fá skýlausara um það, hvern skilning Alþingi lagði fyrirfram í ákvæðin um ráðstöfun kosningarréttarins samkv. 6. gr.?

Auk þessa skal ég taka fram, að annar helzti flm. sambandslaganna hét því þá þegar hér í hv. deild, að með þessum hætti skyldi „mismunurinn“ af numinn, en ekki með eins árs búsetuskilyrði fyrir alla, og þetta efndi hann árið eftir.

Það var því beint með þessu skilyrði — 5 ára búsetuskilyrði fyrir kosningarrétti til Alþingis — sem þjóðin var talin á, og meiri hluti hennar lét teljast á, að samþykkja sambandslögin haustið 1918!

Nú kom til þess árið eftir að breyta stjskr. Jón heitinn Magnússon hafði samið frv. til hinnar nýju stjskr. En þótt hann væri maður vitur, þá kynni að mega segja um hann líkt og Jón Arason sagði um Þorlák prest Hallgrímsson á Staðarbakka, föður Guðbrands biskups:

„Aldrei var hann í orustu frægr,

ýtum þótti ráðaslægr;

sótt hefir jafnan sína vild í svörunum hægr“.

Hann tók nú þann kostinn, þar sem tveir voru, er hann hugði Dönum geðþekkari, og setti búsetuskilyrði fyrir kosningarrétti eitt ár. Mun honum hafa þótt þeir hliðra nokkuð til áður fyrir hans tillögur. Sigurður Eggerz var þá í stjórn, en var að engu við samning stjskrfrv. riðinn og vissi ekkert um þessa breyting fyrr en hún var fram komin, svo sem hann hefir lýst yfir áður og vitað er og viðurkennt, enda vann hann gegn þessu ákvæði, er til Alþingis kom, og vildi láta standa við það, sem heitið var á þingi og þjóðinni boðað áður hún samþykkti sambandslögin haustið áður. Vildi því láta 5 ára búsetuskilyrðið standa, því að með þeim skilningi og skilmálum höfðu Íslendingar fallizt á samninginn, eins og áður var sagt.

Annars var þessu augljósa efni öllu snúið öfugt í blöðum stjórnarinnar og barið blákalt fram, að þeir, sem vildu standa láta 5 ára búsetuskilyrðið, væru að fitja upp á „nýju ákvæði“, sem ekki hefði þekkzt áður, og þau töldu ekkert fylgi hafa meðal þjóðarinnar. Eru það firn mikil, þegar menn leyfa sér jafnvel að ljúga til um það, sem stendur í stjórnarskránni, sem þó er í gildi, en svona var málið sótt þá.

Nefndir voru kosnar í báðum deildum Alþingis til þess að fjalla um stjskr.frv. 1919; unnu nefndirnar saman og gáfu út sameiginlegt álit. Við hv. núverandi 2. þm. Árn. vorum í n. og kom okkur þar að öllu leyti vel saman um það atriði, sem hér um ræðir, enda báðir verið sammála um það árið áður, þegar deilt var um 6. gr. sambandslaganna.

Kom nú upp deila meðal nefndarmanna og fór svo, að nefndin klofnaði um búsetuskilyrðin. Vil ég um þetta merkilega mál vísa til álits n. og umr. í Alþingi 1919. Er nóg að rifja það upp hér, að allur þorri nm. vildi eindregið halda 5 ára búsetu stjskipunarlaga frá 1915, þar sem áherzla hefði verið lögð á það atriði við samþykkt og meðferð sambandsmálsins, enda alveg nauðsynlegt til öryggis þjóðinni, en á hinn bóginn óhæfa að bregðast þeim heitum, er henni voru bundin, ef hún samþykkti sambandslögin.

Örfáir nm. fylgdu þó fram afnámi 5 ára búsetu, víst af þægð við forsætisráðherra. En þótt þeir teldu mega hlíta við eins árs búsetu til kosningarréttar, tóku þeir það skýrt og afdráttarlaust fram, að það væri engin lagaskylda og kæmi 5 ára skilyrðið ekki í bága við 6. gr. sambandslaganna.

Segja þeir svo í sínum hluta fyrrnefnds álits (Alþt. 1919, þskj. 514), — með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hl. n. er meiri hl. fyllilega samdóma um það, að vér höfum lagalegan rétt til þess að setja svo langt búsetuskilyrði, sem oss sýnist, í stjórnarskrána fyrir kosningarrétti og kjörgengi til Alþingis, og eins hitt, að bryggja beri Íslendingum rétt og vald yfir málum sínum“.

Ég hefi hvergi heyrt því haldið fram meðan á þessum málum stóð, að Íslendingar hafi brotið lög né gengið á samninga við Dani með núgildandi skipan kosningarréttarins. Ekki heyrðist orð um það 1919, né 1920, þegar stjskrfrv var borið undir þjóðina við nýjar kosningar og á ný undir samþykki Alþingis, að nokkur maður héldi þessu fram. Það er nú fyrst, fyrir örskömmum tíma, mig minnir síðastl. haust, að kvis fer að koma á það, að einhverjir Stórdanir telji sig hafa verið svikna eða brögðum beitta í þessu máli. En það er hégómi einn og skrök, og hefi ég nú með rökum hrundið þeim brigzlum af Alþingi og Íslendingum.

Um jafnréttisákvæði 6. gr. sambl. er nú fyrir löngu orðið svo augljóst, hversu stórhættuleg þau eru Íslendingum, að óþarft virðist að fara að þrefa um það efni að þessu sinni. Margir menn í Danmörku, sem bera gott skyn á það mál, hafa verið svo hreinlyndir að kannast við þetta orðskviðalaust. T. d. hefir dr. Knud Berlin margsinnis kannazt við það hreinlega. Hefir hann bæði fyrr og síðar rökstutt það mjög áþreifanlega, að jafnvel þótt Íslendingar hafi fengið viðurkennt fullveldi sitt af Dönum, þá hafi Íslendingar þó gert mjög viðsjárverðan og hættulegan samning, þar sem þeir hafi samþ. ákvæði 6. gr.

Hann sagði í einni ritgerðinni, að einu sinni hefði komið til mála milli Norðurlandaþjóða, að þær hefðu sameiginlegan borgararétt, en hann taldi það mjög varúðarvert; sagði hann, að jafnframt sameiginlegum borgararétti þessara þjóða, mundi ekki komizt hjá að hlaða ýmsa múra til öryggis hverri þjóðinni fyrir sig, til þess að afstýra hættu og óþægindum. Gæti þá vel komið til mála, að vel mætti svo fara, að nauðsynlegt þætti að tryggja hverja þjóð með löngum búsetuskilyrðum fyrir kosningarrétti, t. d. 5, 10, 15 eða jafnvel upp í 25 ár! Hann vék að þessu aftur nú á síðastl. hausti og benti á það, að ekki myndi Dönum þykja mjög hyggilegt að gera þegnasamband við þjóð, sem væri álíka fjölmenn gagnvart Dönum eins og Danir eru gagnvart Íslendingum, og stæðu Danir þó betur að vígi en vér, þar sem þeir væru ríkari miklu og ættu fullræktað land. — Jafnframt hefir dr. Kn. B. bent á það, að Dönum mundi ekki þykja mjög fýsilegt að gera fullt þegnajafnrétti milli Þýzkalands og Danmerkur, og standa þau lönd þó á líku stigi um atvinnuvegi og að öðru leyti líkt setin.

Þótt bent sé á, hversu óhæfileg og háskasamleg jafnréttisákvæðin séu, þá er ég þó ekki þar með að halda því fram, að Danir hafi sýnt oss ágang í skjóli þeirra þessi síðustu 12 ár, að neinu ráði. Þó hafa þeir augljóslega haft meiri hag af jafnréttisákvæðunum en vér, og þarf ekki annað en nefna fiskveiðarnar. En hér er ekki að miða við augnablikið eitt, heldur það fyrirkomulag, sem er fyrir hendi meðan ákvæðin standa. Vér erum berskjalda gagnvart miklu ríkari og fjölmennari þjóð, hvenær sem henni sýnist. Verður því ekki í móti mælt, að slík tilhögun sem þessi á sér hvergi stað í víðri veröld milli fullvalda ríkja, og jafnvel ekki meðal nýlendna innan sama þjóðríkis. — Það vildi svo einkennilega til, að í ágústmánuði 1918, sama sumarið, sem fjallað var um sambandslögin, var haldin brezk ríkisráðsstefna í Lundúnum með fulltrúum frá öllum nýlendum Breta. Skýrir Times Weekly frá samningnum, er nýlendurnar gerðu með sér á fundi þessum, og eru þar gerólík ákvæði þeim, er í sambandslögunum standa, og eitthvað öruggari og tryggilegri. — Vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa ályktun þá, er þar var gerð:

Ályktun hinnar brezku ríkisráðsstefnu í Lundúnum (Imperial Conference). (Times Weekly, 2. ágúst 1918):

„Það heyrir tvímælalaust undir valdssvið stjórnar hvers einstaks lands innan brezka ríkisins að ákveða ein, hverjir séu íbúar í landinu með hömlum á innflutningi frá hinum löndunum. Brezkum borgurum, sem búsettir eru innan einhvers lands í brezka ríkinu, skal heimilt að koma til annara landa brezka ríkisins í heimsókn sér til skemmtunar eða í verzlunarerindum, svo og að setjast þar að til bráðabirgða í því skyni að leita sér menntunar, en réttur þessi nær ekki til heimsóknar eða bráðabirgðaaðseturs í því skyni að leita sér atvinnu né til að taka sér bólfestu“.

Dr. Knud Berlin hefir einnig bent á þá fjarstæðu, sem leitt gæti af jafnréttisákvæðinu, þar sem þeir þegnar, sem kynnu að setjast hér að og fá hér kosningarrétt, héldu áfram að vera borgarar annars ríkis.

Það er alveg rangt að líta svo á, að Íslendingar séu að amast við því, að einstakir danskir þegnar komi hingað og setjist hér að. Margir þeirra, er hingað hafa komið á síðari tímum, hafa. verið nytsemdarmenn og komið sér vel í alla staði. En með 6. gr. sambandslaganna er heilli þjóð veittur réttur til þess að vaða inn í annað land, geta sezt þar að löglega og ráðið þar lögum og lofum að vild sinni. Þótt hinum gömlu, tryggu leifum Heimastjórnarmanna þætti nógar skorðúr við slíkri hættu reistar með eins árs búsetuskilyrði fyrir kosningarrétti til Alþingis, þá er þó auðsætt, að með slíkri skipan gat önnur þjóð verið orðin drottnandi í landinu eftir tvö ár, án nokkurs hernaðar eða ofbeldis gegn lögum.

Með 5 ára búsetuskilyrði er dálítið meira viðnám sett í bráð. Og án þess að taka til greina þá hættu, sem ég minntist nú á, þá sýnist það í alla staði réttmætt og sjálfsagt, að þeir menn, sem fara með kosningavald í landinu og ráða þar með lögum og lofum, séu svo kunnugir landi og lýð, lögum og landsháttum, að þeir megi bera gott skyn á það, hvað landi og þjóð er fyrir beztu. En slíka þekking öðlast menn varla á skemmri tíma en 5 árum, og væri þessi ástæða ærin ein til þess að hafa búsetuskilyrði sízt skemmri.

Með ákvæðinu er engu jafnrétti hallað, því að búsetuskilyrðið kemur eins niður á Íslendingum sjálfum, þeim er úr landi flytja til langdvala, svo að þeir missi hér heimilisfangs.

Það kemur því í einn stað niður, hversu sem menn velkja fyrir sér þetta mál, að engin rök eru til þess að áfellast Alþingi fyrir skilyrði þau, er það hefir sett fyrir kosningarrétti. Það hefir hvorki brotið loforð né jafnréttisákvæði. Og skilyrðin fyrir kosningarrétti eru sízt of ströng, né heldur fulltrygg til öryggis þjóðinni fyrr en svo skammt er eftir samningstímans, að nemi 5 árum. Allt þangað til má svo að orði kveða, að „oss hangi hjörr yfir höfuðsvörðum“. En þótt hann hangi í veikum þræði, þá er að vísu ekki þar með sagt, að hann falli á háls vorn þessi ár, sem eftir eru samningstímans.

Annars vita nú allir, að sambandslögin hafa aldrei hrifið Íslendinga, þótt einstakir menn hefðu um þau mikinn fagurgala í fyrstu. Þeir hinir sömu urðu að viðurkenna, að þeim hefði verið tekið fálega. Og ekki er því að gleyma, að nokkuð hart viðnám fengu þau þegar í upphafi, þótt ekki yrði nema þúsund manna, sem atkv. greiddi þá gegn þeim. En minna vil ég á hinn harða og rökstudda dóm, sem skarpvitur lögfræðingur, hr. Magnús Arnbjarnarson, kvað þá yfir þessum lögum.

Síðan eru nú senn liðin 12 ár og hefir skilningur alþjóðar á lögum þessum hneigzt mjög í eina átt síðan. Berlega kom þetta fram á Alþingi 1928 og þá ekki síður þegar laganna var minnzt víðsvegar um land í blöðum og á málfundum 1. desember sama árið.

Ég ætla aðeins að lesa hér, hvað lögfræðilegur ráðunautur núv. hæstv. landsstjórnar, Ólafur prófessor Lárusson, segir um samninginn á 10 ára afmæli hans. Orð prófessorsins eru prentuð í Stúdentablaðinu 1. des. 1928 og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslenzku þjóðinni hefir aldrei boðizt jafngott tækifæri til þess að fá fyllstu sjálfstæðiskröfum sínum framgengt eins og árið 1918, og þess getur orðið langt að bíða, að annað eins tækifæri bjóðist. Sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna var þá á hvers manns vörum, og vér gátum verið fyrstir allra til að reyna, hver alvara fylgdi því máli. Afstöðu vorri til stórþjóðanna var svo varið, að engin þeirra gat haft ástæðu til að traðka þessum rétti vorum, og enn voru þá eigi þau úrslit orðin á styrjöldinni, að sigurvegararnir gætu gengið í berhögg við þessa hugsjón, er þeir þóttust bera svo mjög fyrir brjósti. Danir urðu allt til að vinna að fá Suðurjótland. Og síðast en ekki sízt: Samband Íslands og Danmerkur var í rauninni ekki nema nafnið eitt síðustu ófriðarárin. Ég var á þeirri skoðun, að vér hefðum ekki notað þetta tækifæri eins og skyldi, og greiddi því atkvæði á móti sambandslögunum við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég er enn þeirrar sömu skoðunar. Að vísu vannst oss mikið á við sambandslögin. Vér fengum ótvíræða viðurkenningu Dana á fullveldi voru. En á hinn bóginn bera sambandslögin þess víða vott, hve gjarnt oss er að meta formið meira en efnið. Ég nefni aðeins tvö ákvæði til, jafnréttisákvæðið og uppsagnarákvæðið: Jafnréttisákvæðið mun vera algert einsdæmi í þjóðaréttinum, og í raun og veru jafn ósamboðið báðum þjóðunum, eins og sumir Danir hafa viðurkennt. En hættulegt er það nærri eingöngu fyrir annan aðiljann, oss Íslendinga, þrjátíu sinnum mannfærri og margfalt fátækari en hin sambandsþjóðin. Hvers virði er það fullrétti í raun og veru, sem slíkur böggull fylgir? Uppsagnarákvæðið er svo úr garði gert, að mjög er tvísýnt, að nokkru sinni náist löglegur meiri hluti fyrir samningsslitum. Að minnsta kosti þarf til þess meiri einingu en oss er gefin hversdagslega . . . . “.

(SE: Það er mjög leitt, að maður skyldi ekki fá að vita fyrr en 10 árum síðar, hvernig prófessorinn greiddi atkv. 1918). Satt er það að vísu, en þó er gott að vita, þótt síð sé, álit slíks manns. Próf. Ó. L. tekur það réttilega fram hversu hatramlega er frá uppsagnarákvæðum sambandslaganna gengið. En stundum kemur það fyrir, að oss Íslendingum er gefinn meiri kraftur og eining en hversdagslega. Svo vona ég að fari um þetta mál, enda er þess brýna nauðsyn.

Mér finnst stundum hafa verið beinzt ómaklega að þeim flokki, sem ég er talinn til, og hæstv. stj., fyrir deiga framkomu í sjálfstæðismálinu. Hafa verið gerðar á hana árásir fyrir að segja það eitt úti í Danmörku, að vér myndum heimta endurskoðun sambandssamningsins á sínum tíma. En það er aðeins munur á orðalagi, hvort vér segjumst ætla að heimta endurskoðun eða uppsögn. Það er vitanlega formlega rétt, að vér byrjum á kröfu um „endurskoðun“. þ. e. samningsumleitunum við Dani um það, hvort nokkur leið sé að halda í eitthvað af sambandinu. Þetta er sú eina leið og aðferð, sem lögin sjálf mæla fyrir um, og framhjá henni verður ekki komizt. En verði þeir samningar ekki eins og vér Íslendingar óskum og allir flokkar hafa látið í ljós, að þeir vilji, þá hlýtur niðurstaðan frá vorri hálfu að verða uppsögn. (SE: Uppsögnin er aðalatriðið!). Víst svo! En krafa um „endurskoðun“ verður að ganga á undan. Það er bara til að skemmta skrattanum, eða „dilla danskinum“, svo að ég noti gamallt orðtæki, að vér sýnum sundrung í þessu máli, þar sem hið sama er markmið allra. (SE: Þetta er rangt, sem hv. þm. hefir haldið fram! — MT: Það er rétt!). Höfuðatriðið er það, að vér eigum ekki að fjandskapast í þessu máli, sem allir Íslendingar, eru sammála um í höfuðatriðum. (SE: Vill hv. þm. N.-Þ. verja það, þegar hæstv. dómsmrh. segir, að sjálfstæðismálið sé ekki ofarlega á dagskrá hjá íslenzku þjóðinni? — Forseti: Ég vil biðja hv. þm. Dal. að vera ekki alltaf að grípa fram í). Ég hefi aldrei heyrt hæstv. dómsmrh. halda því fram, að vér ættum ekki að skilja að fullu og öllu við Dani. (SE: Hv. þm. N -Þ. hefir einhverntíma verið kröfu-harðari í sjálfstæðismálinu en nú!). Þetta eru hrein ósannindi. Ég hefi aldrei verið harðari á því en einmitt nú, að Íslendingar eigi einir að hafa forræði allra sinna mála. Vildi ég helzt kjósa, að fullur skilnaður gæti orðið nú strax í sumar, eins og bending hefir komið fram um nýlega frá hálfu þriggja merkra stjórnmálamanna meðal Dana. Skal ég sízt verða til að bera blak af þeim, sem deigir verða í sjálfstæðismálinu, hvort sem það verða ráðh. eða aðrir.