13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Baldvinsson:

Ég hefi nú ekki skorið mig alveg út úr í þessu máli. Ég hefi fylgzt með í sama nál., þótt ég sé mjög í vafa um, hvort rétt sé að fylgja þessu máli áfram.

Eins og nú er búið að leggja til í fjárlögum, eru talsvert mikil fjárframlög þegar komin til búnaðarins, bæði samkv. jarðræktarlögunum og á annan hátt. Gjöld samkv. jarðræktarlögunum eru nú sennilega nærri ½ millj. kr., til Búnaðarfélagsins ¼ millj. og nokkuð veitt á annan hátt. Ég er ekki að segja, að þetta sé of mikið fyrir búnaðinn, því að hann er alls góðs maklegur. En hitt er annað mál, hve mikið sé hægt að leggja í þetta án þess að leggja stein í götu annara, kannske ennþá nauðsynlegri framkvæmda.

Hér liggur fyrir brtt., sem dregur ofurlítið úr þessu frv., að því er virðist í fljótu bili. En við nánari athugun sýnist mér, að þótt fjárhæðin verði takmörkuð við t. d. 75 þús. kr., þá sé eftir eðli málsins varla annað sýnilegt heldur en að aðeins sé þar um áætlunarfjárhæð að ræða; því að ef nú koma svo og svo margir menn, sem eiga rétt á styrk, og þessar 75 þús. kr. endast ekki til, verður annaðhvort að nema staðar og bíða eftir næsta árs fjárveitingu, eða taka það, sem á vantar, upp sem aukafjárveitingu. En ef það verður geymt til næsta árs á eftir, getur vel farið svo, að 1 eða 2 árgangar af styrkþegum verði á eftir, svo að þeir, sem ætla að ráðast í nýjar framkvæmdir, verði að bíða í 3–4 ár.

Það er líka dálítið dregið úr þessu á annan hátt, með því að færa greiðslustyrk ofan í 75 aura fyrir dagsverk. En ég held nú, að svo sé ástatt í landinu, að ódæmamargir, kannske meginhluti allra bænda í landinu, þurfi að byggja hlöður, og komast þannig inn undir þetta. Ég álít sem sagt bráðnauðsynlegt, að þessar framkvæmdir komist á, en hitt er annað mál, hvort ríkið geti lagt út í þetta.

Þetta eru nú þær aths., sem ég vildi vekja máls á. Ekki er heldur úr vegi að geta þess, að fyrir Nd. liggur einnig frv. til stuðnings búnaðinum, með fastri árlegri greiðslu úr ríkissjóði, um 150 þús. kr., sem hv. þm. Mýr. og hv. 3. þm. Reykv. bera fram, og er um starfrækslu á skurðgröfu. Eftir grg. þess frv. er hér um að ræða byrjun á afskaplega miklu verki, sem búast má við, að þurfi árlega fjárveitingu í stórum stíl. Ef það frv. gengur fram, og þetta líka, sem vel getur verið, þar sem þeir flokkar, sem að þeim standa, geta komið þeim áleiðis, þá er þetta geysimikill hluti af tekjum ríkissjóðs.

Ég vildi fyrir mitt leyti ekki telja þetta eftir handa landbúnaðinum, en vildi hinsvegar vekja máls á, hversu þungur baggi þetta getur orðið. Það gæti orðið svo mikið, að alveg yrði að skera það niður, vegna þess að ríkissjóður gæti ekki risið undir því. Ríkissjóður verður þó alltaf að geta hlaupið undir bagga með atvinnuvegunum, þegar þeir virkilega bregðast, t. d. í vondu árferði, og má hann því ekki vera búinn að binda sig svo í föstum útgjöldum, að allt fari þá í kaldakol.

Þótt ég hafi mælt heldur í gegn þessu frv., býst ég ekki við að greiða atkv. á móti því. Ég get látið það afskiptalaust við þessa umr., en álít a. m. k. rétt að bíða með það hér í Ed., þangað til séð verður fyrir um forlög þess frv., sem liggur fyrir Nd.

Það er nú verið að ræða um ýmsar framkvæmdir við sjóinn; heilan dag hefir verið talað um framlög ríkisins til hafnargerða. Það eru ekki nema takmarkaðar fjárhæðir, og þó heyrðist mér ýmsir bændur telja talsvert úr því, að hægt væri að leggja þetta fram til hafnargerða. Þó er ekki hægt að neita því, að mikið af því fé, sem varið er til landbúnaðarins, kemur sem tekjur frá sjávarútveginum. Ég er ekki þar með að álasa landbúnaðinum, því að mikill hluti þjóðarinnar hefir uppeldi sitt af honum. En beinu peningarnir koma frá sjávarútveginum.

Þótt þetta frv. verði látið fljóta til 3. umr., er betra að geyma það og sjá, hvernig fer um önnur mál, er fara fram á mikil útgjöld, og meta þá, hvað helzt ætti að ganga fyrir.