13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Jónsson:

Ég get sem flm. þessa frv. vottað samnm. mínum í landbn. þakkir fyrir, hvað vel þeir hafa tekið í þetta mál, einkum hv. frsm., því þó við höfum komið okkur saman um að gera dálitlar takmarkanir á þeim útgjöldum, sem frv. gerir ráð fyrir, þá hefir hann þó fallizt á aðalatriði þess.

Ýmsir góðir bændur hafa haldið fram, að það mundi spara allt að 1 kr. á hvern hest af þurru heyi, að hafa hlöður fyrir allan heyfeng sinn. Ef það er rétt, sjá allir, hvað hér er um mikilsvert mál að ræða. En eins og hv. frsm. sýndi fram á, er hinsvegar svo dýrt að byggja hlöður, að það er eðlilegt, að margir bændur reyni að hliðra sér hjá því, og margir geta ekki lagt í svo dýrar framkvæmdir, þó þeir sjái, hvað arðvænlegar þær eru. Einmitt þegar þannig stendur á, er þörfin mest aðkallandi á því, að ríkið hlaupi undir bagga og hvetji menn til framkvæmda.

Ég held menn geri allt of mikið úr því, hvað framlögin, sem frv. gerir ráð fyrir, geti orðið þungbær fyrir ríkissjóðinn. Eftir síðustu búnaðarskýrslum er allur ársheyafli landsmanna ekki nema 2 millj. hestburða. Eftir reynslu bænda kemst allt að 2 hestum í 1 teningsm. rúm í hlöðum. Ef teningsm. er metinn 2 dagsverk, verða því dagsverkin lítið fleiri en heyhestarnir. Nú mundi eftir till. n. ekki verða greiddur styrkur fyrir nema hluta af þeim hlöðum, sem reistar verða á stórbúum, þar sem ekki á að veita sama manni hærri upphæð en 750 kr. Þess vegna yrði að öllum líkum ekki framlág ríkissjóðs nema 1–1½ millj. kr., þó reistar væru hlöður yfir allan heyfeng landsmanna í einum rykk.

Hv. 4. landsk. benti á, að ef árleg styrkgreiðsla ríkissjóðs til hlöðubygginga væri bundin við ákveðið hámark, þá gætu einhverjir orðið alveg útundan sum árin, sem ættu þó sama rétt til styrksins og þeir, sem fá hann. Þetta er alveg rétt. Þeir yrðu þá að bíða til næsta árs, og myndu þá sitja fyrir öðrum. Framlög ríkissjóðs dreifðust þá á lengri tíma, en væru ástæður hans einhverntíma venju fremur góðar, sé ég ekkert á móti, að hann greiddi nokkru meira það árið.

Mér finnst ekki rétt hjá hæstv. fjmrh., að þetta frv. stefni að því að binda nokkuð af tekjum ríkissjóðs um ófyrirsjáanlegan tíma. Þó miðað væri við það, að byggðar yrðu hlöður yfir allan heyfenginn, tæki ekki meira en 15–20 ár að greiða til þeirra þann styrk, sem hér er um að ræða, ef 75 þús. ,væru greiddar á ári. Það kalla ég ekki ófyrirsjáanlegan tíma.

Hæstv. fjmrh. hélt fram, að ef þetta frv. væri samþ. þyrfti að afla einhvers tekjuliðar á móti. Það ætti þá eins að þurfa þess í hvert skipti, sem ákveðnar eru einhverjar greiðslur úr ríkissjóði. Við bundum t. d. ríkissjóði þunga bagga um daginn með afgreiðslu bankamálsins; þá var ekkert talað um, að útvega þyrfti tekjustofn á móti. Og hæstv. fjmrh. bar hér fram frv. um að hækka laun yfirsetukvenna án þess að minnast nokkuð á nýja tekjustofna. Mér finnst ekki meiri ástæða til að krefjast nýrra tekjustofna nú heldur en endranær, þegar samþ. eru aukin útgjöld ríkissjóðs.

Mþn. í skattamálum færir líkur að því, að fasteignaskatturinn muni hækka um 50%, við hið nýja fasteignamat. Sá aukni skattur af jörðunum, sem af þessu flýtur, mun því hrökkva langt til að mæta þeim gjöldum, er þetta frv. leggur á ríkissjóð. Hinsvegar má benda á, að auknar framkvæmdir á jörðunum hækka þær mjög í verði, sem verður aftur til að auka gjöld þeirra til ríkisins. Þegar rætt verður um skattalögin, gæti jafnvel komið til mála að hækka fasteignaskattinn, með tilliti til þess, sem ríkið hefir stuðlað að því með jarðræktarlögunum að auka verðgildi jarðanna.

Ég get viðurkennt það, sem hv. 4. landsk. sagði, að miklu er varið til styrktar landbúnaðinum nú, og vona ég, að það beri mjög góðan árangur. En að því er snertir frv. það, sem hann benti á, að Nd. hefði til meðferðar nú, um aðalframræsluskurði, þá held ég, að með því sé ekki heldur verið að binda ríkissjóði útgjaldabagga um ófyrirsjáanlegan tíma vegna landbúnaðarins. Það frv. gerir, eftir því sem mér hefir skilizt, ráð fyrir, að ríkið veiti fé til skurðgröfukaupa, en það er eflaust ekki ótakmarkaður fjöldi af skurðgröfum, sem landsmenn þarfnast, svo að sá gjaldauki getur ekki staðið mörg ár.