13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Jónsson:

Hv. þm. Snæf. vildi fara í samanburð á framlagi ríkisins til atvinnuveganna. Ég er náttúrlega ekki við því búinn að gera slíkan nákvæman samanburð; ég átti ekki von á slíkri togstreitu um þessa hluti. Og ég hygg það sé réttast fyrir Alþingi að styðja yfirleitt alla heilbrigða atvinnuvegi landsins, eftir því sem ástæður liggja í það og það skiptið, án þess að vera að metast um það, hvor fái meira þetta og þetta árið.

Það, sem hv. þm. vitnaði aðallega til, var það, að einhver tregða væri sýnd í því að styðja sjávarútveginn. Ekki get ég a. m. k. tekið þetta til mín, því að ég veit t. d. ekki betur en ég hafi stutt hafnarmálin í fyrra nokkurn veginn sæmilega. Og Alþingi hefir þegar tekið upp þá reglu að leggja meiri styrk til hafnargerða heldur en farið er fram á, að lagt verði til þessara framkvæmda. Ég veit ekki betur en lágmarkið sé 1/3 kostnaðar úr ríkissjóði til hafnarbóta, og þar að auki hafa verið ábyrgzt svo og svo mikil lán til þeirra.

Hvað því viðvíkur, að bændur fái borgað hvert dansverk, sem þeir leggja í jarðabætur á sínum jörðum, þá er það ofsagt, a. m. k. ef á að telja það að fullu. Fyrst og fremst vinna þeir miklar jarðabætur, sem ekkert eru styrktar, og svo er það heldur ekki nema örlítið brot af kostnaði, sem þeir fá úr ríkissjóði fyrir hinar.

Dálítið framfaraspor fyrir sjávarþorpin má að sjálfsögðu telja stigið með frv. í fyrra um verkamannabústaði. Og viðvíkjandi bönkum er það að segja, að við höfum á þessu þingi sýnt sjávarútveginum fullan skilning og velvilja. Það er settur upp nýr banki, fyrst og fremst til að styðja sjávarútveginn. Það hlýtur að hafa í för með sér ½ millj. kr. útgjöld á þessu ári og árlega fyrst um sinn. Og það er ekki sérlega lítið móti þeim styrk, sem landbúnaðurinn nýtur. Svo að ég hygg, sannast að segja, að það sé ekki nein ástæða að metast nokkuð um þetta.

Það er rétt, að Alþingi hefir tekið dauflega í að lækka síldartollinn. En mér finnst það alls ekki nema eðlilegt, um sama leyti og ríkið hefir sýnt síldarútveginum mikinn stuðning, með því að setja upp bræðsluverksmiðju og annað slíkt.

Sem sagt, mér finnst þingið hafa sýnt sanngirni á báða bóga. En ég býst við, að því miður sé svo ástatt eins og stendur, að landbúnaðurinn hafi meiri þörf stuðnings, sé fremur í niðurlægingu en sjávarútvegurinn, og því tel ég ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að löggjafarvaldið veiti honum styrk.